• Hæfilegt álag - heilbrigt stoðkerfi

Vinnuverndarvikan 2020

Hæfilegt álag - heilbrigt stoðkerfi

Evrópuverkefni um hreyfi -og stoðkerfi: Vinnuvernd er allra hagur – drögum úr álagi

Árin 2020 til 2022 mun Vinnueftirlitið leggja sérstaka áherslu á forvarnir gegn stoðkerfisvanda og taka þannig þátt í vinnuverndarátaki Vinnuverndarstofnunar Evrópu (EU-OSHA) „Vinnuvernd er allra hagur. Hæfilegt álag – heilbrigt stoðkerfi.“ Herferðin miðar að því að auka vitund um að vinnutengd stoðkerfisvandamál hafa áhrif á allar atvinnugreinar og störf. Jafnframt að sýna fram á að hægt sé að koma í veg fyrir stoðkerfisvandamál og hafa áhrif á þau með markvissum aðgerðum.

Markmiðið er að hvetja atvinnurekendur, starfsmenn og aðra hagsmunaaðila til að vinna saman að forvörnum gegn stoðkerfisvandamálum.

Vinnutengd stoðkerfisvandamál hafa áhrif á starfsmenn á öllum aldri og í öllum gerðum starfa svo herferðin hefur breiða skírskotun. Forvarnir gegn áhættuþáttum sem geta leitt til vinnutengdra stoðkerfisvandamála eru mikilvægar til að stuðla að sjálfbærni vinnunnar, þannig að starfsmenn komi heilir heim eftir vinnudaginn og séu heilir heilsu í lok starfsævinnar. Slíkar forvarnir eru einkum mikilvægar með hliðsjón af hækkandi aldri starfandi fólks og stefnu um aukna atvinnuþátttöku meðal eldri aldurshópa.

Nýleg gögn um áhrif kyrrsetuvinnu á heilbrigði fólks hafa beint athyglinni að líkamsstöðu (einkum setu og vinnu við tölvur) og skorti á líkamlegri hreyfingu á vinnustöðum. Langvarandi setur má sjá í margvíslegum vinnuaðstæðum, allt frá vinnu við færibönd í iðnaði yfir til afgreiðslustarfa í stórmörkuðum og við tölvuvinnu. Herferðin er ætlað að auka vitund um mikilvægi þess að koma í veg fyrir vinnutengd stoðkerfisvandamál í tengslum við langvarandi sitjandi stöður án hreyfingar.

Stoðkerfisvandamál eru útbreiddustu vinnutengdu heilsufarsvandamálin í Evrópu og ein algengasta orsök örorku, veikindaleyfa og snemmbúinnar lífeyristöku. Þar af leiðandi draga þau ekki einungis úr lífsgæðum einstakra starfsmanna heldur hafa einnig mjög neikvæð áhrif á fyrirtæki og efnahag landa. Því þarf að taka á þessu vandamáli til að bæta heilsu og vellíðan starfsmanna, gera fyrirtæki samkeppnishæfari og draga úr álagi á heilbrigðiskerfi.

Herferðinni er ætlað að auka vitund um vinnutengd stoðkerfisvandamál og mikilvægi þess að atvinnurekendur, stjórnendur og starfsmenn vinni saman að því að koma í veg fyrir þau eða draga úr þeim. Hún miðar að því að hjálpa fyrirtækjum að taka á stoðkerfisvandamálum á kerfisbundinn hátt með því að bjóða upp á hagnýt ráð og leiðbeiningar, gefa raundæmi um góða starfshætti ásamt öðru upplýsingaefni og úrræðum.

Í tengslum við herferðina verða haldnir viðburðir eins og ráðstefnur, málstofur, fyrirlestrar og fræðslufundir sem ætlað er að miðla góðum starfsháttum til að koma í veg fyrir vinnutengd stoðkerfisvandamál. Þá stendur til að miðla og birta ýmiss konar efni herferðarinnar og koma á framfæri hagnýtum verkfærum og öðru hjálparefni um stoðkerfisvandamál á vinnustöðum

Inni á vefsíðu verkefnisins https://osha.europa.eu/is má sjá ýmiss konar efni sem er hannað til að kynna og styðja herferðina.

Hér er að neðan er jafnframt að finna viðburði og fræðsluefni þessu tengt.

Fréttir