Vinnuverndarvikan 22.-28. október 2018

Heilbrigðir vinnustaðir - Meðferð hættulegra efna

Vinnuverndarátak Vinnuverndarstofnunar Evrópu 2018-19


Hættuleg efni á vinnustaðMeðferð hættulegra efna er ein stærsta öryggis- og heilbrigðisváin á vinnustöðum. Hættan sem stafar af efnum hefur áhrif á milljónir starfmanna um alla Evrópu og er oft vanmetin eða hunsuð.

Vinnuverndarátak Vinnuverndarstofnunar Evrópu (EU-OSHA), „Meðferð hættulegra efna“, verður hleypt af stokkunum 24. apríl 2018 en átakinu lýkur í lok næsta árs. 

Hápunktar átaksins verða í vinnuverndarvikunum í október 2018 og 2019 en þá verða ráðstefnur haldnar á vegum Vinnueftirlitsins í Reykjavík og á landsbyggðinni. Á þessu ári verður ráðstefna á Grand Hótel í Reykjavík 19. október og í Hofi á Akureyri 24. október. Átakið er samræmt af EU-OSHA og fleiri en 30 lönd taka þátt í því með stuðningi samstarfsaðila innan hvers lands.

Meginmarkmið átaksins er að vekja athygli á þeirri áhættu sem stafar af meðferð hættulegra efna á vinnustöðum, stuðla að vinnumenningu til að útrýma hættulegum efnum eða bæta meðferð á þeim og auka sérstaklega skilning á þeirri áhættu sem stafar af krabbameinsvaldandi efnum. Þá verður lögð áhersla á að vernda starfsmenn í sérstökum áhættuhópum, s.s. börn, þungaðar konur og erlenda starfsmenn, og veita upplýsingar og fræðslu um meðferð hættulegra efna, t.d. með námskeiðum og útgáfu fræðsluefnis á nokkrum tungumálum.

Hættuleg efni eru öll efni (lofttegundir, fljótandi og föst efni) sem ógna öryggi og heilsu starfsmanna. Þau finnast víða, t.d. í málningu, lími, hreinsiefnum og varnarefnum en geta einnig verið framleiðslutengd mengunarefni, t.d. logsuðugufur, kísilryk eða útblástur vegna brennslu, t.d. útblástur frá dísilvélum. Þá geta þau einnig verið af náttúrulegum uppruna, svo sem korn, asbest, hráolía og innihaldsefni þess.

Fjölmargir starfsmenn eru útsettir fyrir hættulegum efnum á evrópskum vinnustöðum en vitneskja um þessi mál er oft lítil. Hættuleg efni geta m.a. leitt til bráðra og langtíma heilsufarsvandamála, t.d. húðertingar, öndunarfærasjúkdóma, krabbameins og köfnunar. Þau geta einnig leitt til eldhættu og sprenginga. Þá lenda fyrirtæki oft í verulegum kostnaði vegna afleiðinga slysa af völdum hættulegra efna.

Hættuleg efni eru til staðar á nær öllum vinnustöðum og skaði getur hlotist af þeim vegna skammtíma- og langtímaáhrifa og einnig vegna langvarandi uppsöfnunar í líkamanum.

Áhættumat

Mikilvægur þáttur átaksins er gerð áhættumats m.t.t. meðferðar á hættulegum efnum til að meta öryggi og hættu á heilsutjóni. Áhættumatið þarf að taka til allra starfsmanna og verktaka og einnig til starfsmanna í sérstökum vinnuaðstæðum, s.s. þeirra sem sinna viðhaldi og viðgerðum. Þá er nauðsynlegt að skipuleggja vinnu með þeim hætti að áhættusömum starfsaðferðum og verklagi sé skipt út fyrir hættulausar eða hættuminni starfsaðferðir/verklag. Matið skal uppfært og endurskoðað þegar óvænt atvik eiga sér stað eða breytingar gerðar á vinnurými eða vinnuskipulagi. Starfsmenn þurfa að vera vel upplýstir um niðurstöður áhættumats og þjálfaðir til að beita forvarnaraðgerðum.

Ýmis gögn um hættuleg efni eru í boði til að aðstoða fyrirtæki og þjónustuaðila við að framkvæma áhættumat, m.a. á vefsíðu Vinnueftirlitsins og Vinnuverndarstofnunar Evrópu, þar sem einnig er að finna frekari upplýsingar um átakið.

Vinnuverndarvikan 2018 á FacebookSíðast en ekki síst hefur verið stofnuð fésbókarsíða tileinkuð átakinu þar sem m.a. má finna fjölbreytilegar upplýsingar um þær hættur sem stafa af hættulegum efnum og ábendingar hvernig unnt er að verja sig gegn þeim. Þá eru þar fréttir um vinnuverndarátakið og annað áhugavert efni tengt hættulegum efnum sem m.a. er fengið frá Vinnuverndarstofnun Evrópu og öðrum stofnunum og fréttaveitum.

Ítarefni