Vinnuverndarvikan 2011

Öruggt viðhald – allra hagur

Vinnuverndarvikan 2011 - Örugg viðhaldsvinnaEvrópska vinnuverndarvikan 24.-28. október.

Eitt mannskæðasta vinnuslys sem orðið hefur í Norður-Evrópu síðustu áratugina varð á olíuborpallinum Piper Alpha í Norðursjó árið 1988. Þar fórust 167 einstaklingar. Slysið er eitt alvarlegasta dæmið sem til er um viðgerð sem endaði með skelfingu.

Viðhald og viðgerðir sem framkvæmdar eru eftir að búnaður bilar eru í eðli sínu hættuleg vinna. Þegar bilanir verða kemur upp óvanalegt ástand sem víkur frá venjunni og því sem starfsmenn t.d. í framleiðslufyrirtækjum eru að fást við á hverjum degi. Bilanirnar þýða líka tafir og kostnað og mikill þrýstingur getur verið á að koma hlutunum í lag aftur til að lágmarka tíma- og fjármunatapið.

Þarna koma því saman tveir þættir sem geta orsakað slys; óvanalegar aðstæður sem menn jafnvel þekkja ekki að fullu og reyna jafnframt að ráða við á sem allra stystum tíma. Eðli bilana er því þannig að mikil hætta er á slysum í tengslum við þær. Enda sýna tölur að 10-15% af banaslysum við vinnu og 15-20% af öllum vinnuslysum í Evrópu tengjast viðhaldi og viðgerðum.

Í þessu ljósi er Evrópska vinnuverndarvikan haldin hér á landi, dagana 24.-28. október, undir slagorðinu Öruggt viðhald – allra hagur. Það er Vinnueftirlitið sem leiðir framkvæmd vikunnar hér á landi og munu starfsmenn stofnunarinnar heimsækja vinnustaði meðan á vikunni stendur til að vekja athygli á nauðsyn þess að viðhaldsvinna sé ekki unnin nema að undangengnu áhættumati þar sem verkið er greint, áhættumetið og í framhaldinu gripið til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru til að fyrirbyggja slys eða frekara tjón. Jafnframt verður veitt fræðsla um gerð áhættumats viðhaldsvinnu og leiðbeiningar um gerð þess afhentar.

Haldin verður ráðstefna á Grand Hótel Reykjavík á þriðjudag, þar sem sérfræðingar úr atvinnulífinu fjalla um ýmsa þætti er snúa m.a. að kerfisbundnu fyrirbyggjandi viðhaldi véla og tækja. Jafnframt verða kynntar aðferðir til að greina bilanir í búnaði á forstigum þannig að hægt sé að grípa inn í með fyrirbyggjandi aðgerðum áður en búnaðurinn bregst og bilar með þeim framleiðslustöðvunum, töfum og hættum sem bilunum fylgir.

Er það von Vinnueftirlitsins að með vinnuverndarvikunni takist að vekja athygli á þeim hættum sem fylgja viðhaldsvinnu og að í framhaldinu takist að fækka slysum tengdum slíkum störfum. Til að það náist þarf að fyrirbyggja bilanir, með kerfisbundnu fyrirbyggjandi viðhaldi, og áhættumeta viðhald og viðgerðir með það fyrir augum að fyrirbyggja hættu og frekara tjón.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um vinnuverndarvikuna og ráðstefnuna á heimsíðunni www.vinnueftirlit.is.
 
Helgi Haraldsson
deildarstjóri tæknideildar
Vinnueftirlitsins