Vinnuverndarvikan 2010

Örugg viðhaldsvinna

Vinnuverndarvikan 2010 - Örugg viðhaldsvinnaRáðstefnan Örugg viðhaldsvina var haldin á Grand Hótel Reykjavík 26. október 2010. Á ráðstefnunni veitti Vinnueftirlitið viðurkenningu til þriggja fyrirtækja sem þóttu standa sig vel á árinu í verkefnum sem tengjast viðhaldsvinnu.

Viðurkenningarnar fengu:
Rafey á Egilsstöðum fyrir að standa almennt vel að öryggismálum við viðhaldsvinnu (sjá rökstuðning hér).
Framkvæmda- og eignasvið Reykjvíkur fyrir öryggismál tengd viðgerð á þaki Laugardalshallar (sjá rökstuðning hér).
ÍSTAK fyrir öryggismál við viðhaldsvinnu á Hallgrímskirkjuturni (sjá rökstuðning hér).

Ráðstefnan tókst vel og sóttu hana um 200 manns. Vinnueftirlitið hefur haldið árlega ráðstefnur í Vinnuverndarvikum sl. ellefu ár eða frá árinu 2000. Vikurnar eru ávallt haldnar seint í októbermánuði.
Sú nýbreytni var gerð núna að sett var upp sýning frá ýmsum fyrirtækjum sem tengjast á einn eða annan hátt viðhaldsverkefnum. Það er Vinnuverndarstofnun Evrópusambandsins sem leggur línurnar í vinnuverndarvikunum en Vinnueftirlitið er framkvæmdaraðili á Íslandi.

Viðurkenningar vinnuverndarviku 2010Verðlaunahafar 2010 ásamt forstjóra Vinnueftirlitsins, frá vinstri: Eyjólfur Jóhannsson frá Rafey, Hrólfur Jónsson frá Framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkur, Tómas Tómasson og Kolbeinn Kolbeinsson frá Ístak og Eyjólfur Sæmundsson forstjóri Vinnueftirlitsins.

Um evrópsku vinnuverndarvikuna 2010 og 2011

Evrópska vinnuverndarstofnunin sem er með aðsetur í Bilbao á Spáni stendur árlega fyrir evrópsku vinnuverndarvikunni. Þetta sameiginlega átak Evrópuþjóða á þessu ári verður haldið í eina viku seinni hluta októbermánaðar nk. Markmiðið með vinnuverndarvikunni er að vekja athygli manna á ákveðnum þáttum í vinnuumhverfinu í þeim tilgangi að gera vinnustaðina heilsusamlegri og öruggari. Vinnueftirlitið sér um framkvæmd verkefnisins hér á landi.

Að þessu sinni beinist kastljósið að öryggi við viðhaldsvinnu. Viðhaldsvinna er nauðsynlegur þáttur á vinnustöðum, en viðhaldsvinnan sjálf getur verið hættuleg fyrir þá starfsmenn sem hana framkvæma. Það sýna tölur um vinnuslys sem verða við viðhaldsvinnu í Evrópu. Það er álitið að 10-15% af alvarlegum vinnuslysum megi rekja til viðhaldsvinnu og um 20% allra vinnuslysa geti tengst viðhaldsvinnu.

Það er því full ástæða til að huga vel að allri skipulagningu og framkvæmd viðhaldsvinnu til að tryggja öryggi starfsmanna. Til að undirstrika mikilvægi verkefnisins hefur verið ákveðið að evrópska vinnuverndarvikan verði tileinkuð öryggi við viðhaldsvinnu tvö ár í röð, þ.e.a.s. árin 2010 og 2011. Slagorð vinnuverndarvikunnar að þessu sinni verður: Örugg viðhaldsvinna.
 

VINNUEFTIRLITIÐ LEITAR AÐ FYRIRMYNDAR FYRIRTÆKJUM !

 

 Í tengslum við vinnuverndarvikunna 2010 óskar Vinnueftirlitið eftir ábendingum um fyrirmyndar fyrirtæki. Fyrirhugað er að veita allt að þrjár viðurkenningar til fyrirtækja sem sinna viðhaldi á framúrskarandi máta og skapa þannig öruggari og betri vinnuaðstæðum fyrir starfsfólkið. Viðurkenningar verða veittar á ráðstefnunni ÖRUGG VIÐHALDSVINNA á Grand Hótel 26. október 2010.

Tilnefna má fyrirtæki í flestum atvinnugreinum ef þau koma að viðhaldsvinnu. Dæmi um form viðhaldsvinnu sem hægt er tilnefna:
Viðgerðir, viðhald, prófun, eftirlit, mælingar, bilanaleit, þjónusta, smurning og hreinsun og margt fleira.

Atriði sem m.a. skal hafa í huga þegar frammistaða fyrirtækja er metin:

  • Hefur fyrirtækið gert áhættumat fyrir alla þætti viðhaldsvinnunnar þ.e. umhverfisþætti, vélar og tæki, efnanotkun, hreyfi- og stoðkerfi, og félagslega og andlega þætti?
  • Eru verk vel skipulögð?
  • Er athugað hvort vinnusvæði séu örugg áður en viðhaldsvinna hefst?
  • Eru til verklagsreglur og er farið eftir þeim?

Ábendingar skal senda á sigfus@ver.is eða inghildur@ver.is fyrir 15. september 2010.