Vinnuverndarvikan 2009

Áhættumat fyrir alla

Vinnuverndarvika Evrópsku vinnuverndarstofnunarinnar árið 2009 verður 19.-23. október nk. Hún mun fjalla um áhættumat eins og vinnuverndarvikan seinasta ár. Í vinnuverndarátakinu verður sjónum beint að mikilvægi þess að gert sé áhættumat fyrir alla vinnustaði. Engin vinnustaður er í raun undanskilinn. Áhættumatið á að styrkja vinnuverndarstarfið innan fyrirtækjanna með skýrri ábyrgð og virkni atvinnurekenda, stjórnenda og kerfisbundinni þátttöku starfsmannanna sjálfra með hjálp öryggistrúnaðarmanna og öryggisvarða.

Í tengslum við vinnuverndarvikuna 2009 verða veitta viðurkenningar til fyrirtækja sem hafa gert vandað áhættumat. Einnig verða veittar viðurkenningar í ljósmyndasamkeppni Vinnueftirlitsins. Sjá nánar hér fyrir neðan.

Ráðstefna Vinnuverndarvikunnar „Áhættumat fyrir alla“ verður haldin í Gullteigi á Grand Hótel, þriðjudaginn 20. október 2009. kl. 13-16. Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur ókeypis.

Vinnueftirlitið leitar að fyrirmyndar fyrirtækjum!

Í tengslum við vinnuverndarvikunna 2009 „Áhættumat fyrir alla“  óskar Vinnueftirlitið eftir ábendingum um fyrirmyndar fyrirtæki. Fyrirhugað er að veita viðurkenningu þeim vinnustöðum sem gert hafa gott áhættumat sem skilað hefur öruggari og betri vinnuaðstæðum fyrir starfsfólkið.
Viðurkenningar verða veittar á ráðstefnunni „Áhættumat fyrir alla“  á Grand Hótel 20. október 2009.

Atriði sem m.a. skal hafa í huga þegar frammistaða fyrirtækja er metin:

  • Hefur fyrirtækið gert áhættumat fyrir alla þætti vinnunnar þ.e. umhverfisþætti, vélar og tæki, efnanotkun, hreyfi- og stoðkerfi, og félagslega og andlega þætti?
  • Hefur verið gerð áætlun um forvarnir og heilsuvernd byggt á niðurstöðum áhættumatsins?
  • Hafa öryggistrúnaðarmenn og öryggisverðir fengið lögboðna fræðslu?

Ábendingar skal senda á leifur@ver.is eða gudmundur@ver.is fyrir 1. október 2009.

Valin voru tvö fyrirmyndarfyrirtæki: Sjá umfjöllun

Ljósmyndasamkeppni Vinnueftirlitsins

Í tilefni vinnuverndarvikunnar 2009, heldur Vinnueftirlitið ljósmyndasamkeppni. Óskað er eftir myndum af einhverju í vinnuumhverfinu sem er til fyrirmyndar. T.d. myndir af húsnæði, öryggisbúnaði, léttitækjum, merkingum, persónuhlífum eða einhverju tengdu forvörnum, slysavörnum og líðan starfsmanna á vinnustað. Allt sem er til fyrirmyndar í vinnuumhverfinu kemur til greina sem myndefni.

Allir sem hafa gaman að því að taka myndir geta tekið þátt í ljósmyndasamkeppninni.

Myndirnar verða að vera teknar af sendanda sjálfum en mega vera gamlar.
Þátttakendur mega senda eins margar myndir og þeir vilja.

Verðlaun verða veitt á vinnuverndarráðstefnunni 20. október 2009 á Grand Hóteli Reykjavík.

Fyrstu verðlaun: Canon EOS 1000D SLR myndavél með EF-S 18-55mm linsu
Önnur verðlaun: CanoScan 5600F skanni

Myndir sendist í jpg-sniði RGB til: samkeppni@ver.is, ásamt upplýsingum um nafn, heimilisfang og símanúmer.

Skilafrestur: 15. október 2009

Dómnefnd: Verkefnahópur Vinnuverndarvikunnar 2009.
Fríða M. Ólafsdóttir fyrirtækjaeftirlit, Guðjón Einarsson vinnuvélaeftirlit, Guðmundur Kjerúlf fræðsludeild, Leifur Gústafsson þróunar- og eftirlitsdeild.

Vinnueftirlitið áskilur sér rétt á að birta/nota verðlaunamyndir sem sendar eru í keppnina, í fræðslu, bókum, bæklingum, á vefsíðu ofl. tengt störfum stofnunarinnar.