Vinnuverndarvikan 2008

Áhættumat fyrir vinnustaði

Vinnuverndarvika Evrópsku vinnuverndarstofnunarinnar árið 2008 verður 20.-24. október nk. Hún mun að þessu sinni beinast að gerð áhættumats. Í vinnuverndarátakinu verður sjónum bent að mikilvægi þess að gert sé áhættumat fyrir alla vinnustaði. Engin vinnustaður er í raun undanskilinn.
Áhættumatið á að styrkja vinnuverndarstarfið innan fyrirtækjanna með skýrri ábyrgð og virkni atvinnurekenda, stjórnenda og kerfisbundinni þátttöku starfsmannanna sjálfra með hjálp öryggistrúnaðarmanna og öryggisvarða.

Í tengslum við vinnuverndarvikuna 2008 verða veitta viðurkenningar til fyrirtækja sem eru góðar fyrirmyndir á þessu sviði og hafa markvisst unnið að forvörnum. Lesendur eru beðnir um að tilnefna fyrirtæki til Vinnueftirlitsins sem þeir telja að eigi að hljóta slíka viðurkenningu.

Þema vinnuverndarvikunnar árið 2009 verður líka áhættumat, sem undirstrikar mikilvægi áhættumats fyrir vinnuverndarstarfið.

Ráðstefna Vinnuverndarvikunnar verður haldin í Gullteigi á Grand Hótel, 21. október n.k. kl. 13-16.

Hugmyndalisti fyrir vinnustaði í vinnuverndarvikunni:

 • Vekið athygli starfsfólks á vinnuverndarvikunni 20. til 24. október.
 • Setjið tengil á heimasíðu vinnuverndarvikunnar á heimasíðuna ykkar.
 • Virkið starfsfólk við gerð áhættumats, sbr. reglugerð nr. 920/2006.
 • Endurskoðið eldra áhættumat og athugið hvort áætlun um forvarnir hefur verið framfylgt.
 • Skipuleggið eftirlitsferð um vinnustaðinn til að skoða vinnuaðstæður.
 • Hugið að nýliðaþjálfun.
 • Hugið að endurmenntun.
 • Nýtið allar upplýsingaleiðir t.d. fréttabréf, innranet fyrirtækisins og töflur fyrir fræðsluefni.
 • Hvetjið starfsfólk til að koma með hugmyndir að úrbótum í vinnuverndarmálum.
 • Nýtið viðurkennda þjónustuaðila í vinnuvernd til ráðgjafar og fræðslu.
 • Sýnið starfsfólki teiknimyndirnar um Napo.

Vinnueftirlitið leitar að fyrirmyndafyrirtækjum!

Í tengslum við vinnuverndarvikunnar 2008 „Bætt vinnuumhverfi betra líf - áhættumat og forvarnir eru leiðin“ óskar Vinnueftirlit ríkisins eftir ábendingum um fyrirmyndar fyrirtæki. Fyrirhugað er að veita viðurkenningu þeim vinnustöðum sem gert hafa gott áhættumat sem skilað hefur öruggari og betri vinnuaðstæðum fyrir starfsfólkið.

Viðurkenningar verða veittar á ráðstefnunni „Bætt vinnuumhverfi betra líf - áhættumat og forvarnir eru leiðin“  á Grand Hótel 21. október nk.

Atriði sem einkum skal hafa í huga þegar frammistaða fyrirtækja er metin eru:

 • Hefur fyrirtækið gert áhættumat fyrir alla þætti vinnunnar þ.e. umhverfisþætti, vélar og tæki, efnanotkun, hreyfi- og stoðkerfi, og félagslega og andlega þætti?
 • Hefur verið gerð áætlun um forvarnir og heilsuvernd byggt á niðurstöðum áhættumatsins?
 • Hafa öryggistrúnaðarmenn og öryggisverðir fengið lögboðna fræðslu?


Eins og áður segir óskar Vinnueftirlitið eftir ábendingum um fyrirtæki sem gætu verið verðug að hljóta slíka viðurkenningu. Ábendingar skal senda á leifur@ver.is eða ingibjorg@ver.is fyrir 20. september 2008.