Vinnuverndarvikan 2007

Líkamleg álagseinkenni

Vinnuverndarvikan 2007- Hæfilegt áleg er heilsu bestVinnuverndarvika Evrópsku vinnuverndarstofnunarinnar árið 2007 verður 22.-26. október nk. Hún mun að þessu sinni beinast að álagseinkennum vegna vinnu.  Í vinnuverndarátakinu verður sjónum beint annars vegar að því hvernig hægt er að koma í veg fyrir líkamleg álagseinkenni og hins vegar hvernig hægt er að halda fólki í starfi, endurhæfa það og færa til í starfi þá sem kljást við vandamálið.

Stefnt verður að sem víðtækastri þátttöku allra sem málið varðar í samfélaginu. Má þar nefna atvinnurekendur, starfsmenn, öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði, sérfræðinga, þjónustuaðila, stjórnmálamenn og aðra, sem vilja stuðla að öflugum og heilsusamlegum vinnustöðum í landinu.

Í tengslum við vinnuverndarvikuna 2007 verða veittar viðurkenningar til fyrirtækja sem eru góðar fyrirmyndir á þessu sviði og hafa markvisst unnið að forvörnum. Lesendur eru beðnir um að tilnefna fyrirtæki  til Vinnueftirlitsins sem þeir telja að eigi að hljóta slíka viðurkenningu.
 
Þótt vinnuverndarátakið beinist að öllum vinnustöðum í landinu verður að þessu sinni kastljósinu sérstaklega beint að verslunum og flutninga- og lagerfyrirtækjum. 

Hvað eru líkamleg álagseinkenni?

Líkamleg álagseinkenni er samheiti yfir mikinn fjölda heilsufarsvandamála en þau helstu eru: Bakverkir, verkir í hálsi, herðum, öxlum og handleggjum. Líkamleg álagseinkenni geta átt við mein í öllum vöðvum og liðum líkamans. Algeng líkamleg álagseinkenni eru t.d. vöðvabólga, bakverkir, liðverkir og sinaskeiðabólga.

Hverjar eru helstu orsakir líkamlegra álagseinkenna?

 • Hönnun vinnustaðarins
 • Óhentugar vinnustellingar eða hreyfingar
 • Líkamlegt erfiði
 • Einhæfar, síendurteknar hreyfingar
 • Skipulag vinnunnar
 • Andlegir og félagslegir þættir á vinnustað

Um hvað fjallar átakið?

Átakið fjallar um líkamleg álagseinkenni vegna vinnu sem leiða einkum til óþæginda í baki, hálsi, herðum, öxlum og handleggjum. Hreyfi- og stoðkerfið verður fyrir miklu álagi ef sömu líkamsstöðu er haldið lengi í einu, ef svipaðar hreyfingar eru endurteknar oft og þegar byrðar eru handleiknar t.d. við að lyfta, bera, ýta og draga. Of mikið álag eða of lítið álag getur valdið skaða en hæfilegt álag hefur jákvæð áhrif á stoðkerfið, sbr. slagorð vinnuverndarvikunnar, „Hæfilegt álag er heilsu best“.

Hvers vegna þetta átak?

Líkamleg álagseinkenni valda ekki aðeins einstaklingum þjáningum og fjárhagslegum skaða heldur eru þau líka kostnaðarsöm fyrirtækjum og efnahagslífi þjóðarinnar. Allir geta þjáðst af líkamlegum álagseinkennum, en það má koma í veg fyrir þau með réttum aðferðum.

Hverjir eru helstu markhópar átaksins?

Starfsmenn í matvöruverslunum, starfsfólk í lager- og flutningastarfsemi. Í vinnuverndarvikunni 22.–26. október munu eftirlitsmenn Vinnueftirlitsins heimsækja þessi fyrirtæki.

Hvernig verða góðir vinnustaðir til?

Þegar hanna á nýja vinnustaði eða endurskipuleggja eldra húsnæði/starfssemi er mikilvægt að strax í upphafi sé hugsað heildrænt. Á sama hátt og setja þarf fram skýr markmið um þá starfssemi sem hefja á, er nauðsynlegt að setja heildarmarkmið um vinnuumhverfið. Í þessu tilviki snýr það að vinnuskipulagi og líkamsbeitingu, dæmi: “stefnt skal að því að starfsmenn hafi fjölbreytt verkefni og geti unnið í þægilegri vinnustöðu með heppilegum vinnuhreyfingum”.
Þórunn Sveinsdóttir sjúkraþjálfari, Vinnueftirliti ríkisins.
Grein Þórunnar „Hvernig verða góðir vinnustaðir til?“

Hvernig má koma í veg fyrir líkamleg álagseinkenni?

1. Fyrirbyggja allt sem getur leitt til líkamlegra álagseinkenna
2. Þekkja/vita af áhættu sem ekki er hægt að komast hjá
3. Ráðast að rótum sérhverrar hættu
4. Aðlaga vinnuna að einstaklingnum
5. Styðjast jafnan við nýjustu tækni
6. Skipta út því sem er hættulegt fyrir það sem er hættulaust eða hættuminna.
7. Þróa virka vinnuverndarstefnu til að koma í veg fyrir óæskilegt álag á líkamann
8. Fræða starfsfólk um líkamleg álagseinkenni

1. Fyrirbyggja allt sem getur leitt til líkamlegra álagseinkenna

 • Helstu orsakir líkamlegra álagseinkenna eru:
 • Slæmur aðbúnaður við vinnu
 • Óhentugar vinnustellingar eða vinnuhreyfingar
 • Líkamlegt erfiði
 • Einhæfar, síendurteknar hreyfingar
 • Skipulag vinnunnar
 • Andlegir og félagslegir þættir í vinnu
Mikilvægt er að leggja mat á þessa áhættuþætti á vinnustaðnum og grípa til aðgerða til að fyrirbyggja líkamleg álagseinkenni.

2. Þekkja/vita um áhættu sem ekki er hægt að komast hjá

Stundum er ekki hægt að komast hjá því að vinna eitthvert verk í óhentugri stellingu eða við vondar aðstæður. Þá er mikilvægt að gera sér grein fyrir áhættunni og vera meðvitaður um hana á meðan á verkinu stendur. Við slíkar aðstæður getur verið nauðsynlegt að menn hvíli sig reglulega og skiptist á um að vinna verkið.

3. Ráðast að rótum sérhverjar hættu

Hver er ástæða þess að starfsmaðurinn er í áhættu? Er húsnæðið óhentugt? Byrðin of þung? Vinnuskipulagið rangt? Hefur starfsmanninum ekki verið kennt hvernig á að vinna verkið? Ef til vill þarf að breyta framkvæmd og skipulagi  verksins frá grunni. Það er t.d. sama hversu vel verk er skipulagt - það kemur að því að stækka þarf  húsnæðið ef starfsmönnum fjölgar mikið.

4. Aðlaga vinnuna að einstaklingnum

Það á að aðlaga vinnuna að einstaklingnum en ekki einstaklinginn að vinnunni. Stillanleg borð, stólar og verkfæri eru sjálfsögð hjálpartæki svo að fólk geti unnið við bestu aðstæður hverju sinni.

5.  Styðjast jafnan við nýjustu tækni

Í fyrstu grein vinnuverndarlaganna (nr. 46/1980) stendur að lögunum sé ætlað að „tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi, sem jafnan sé í samræmi við félagslega og tæknilega þróun í þjóðfélaginu.“ Að sjálfsögðu bjóða fyrirtæki ekki starfsfólki sínu upp á úrelt skrifstofuhúsgögn heldur nýlegan stillanlegan búnað.

6. Skipta út því sem er hættulegt fyrir það sem er hættulaust eða hættuminna

Stundum er t.d. verið að vinna með tæki sem er óþarflega þungt, stórt eða óhentugt fyrir verkið og skapar því óþarfa álag.  Það er góð regla að reyna að minnka hættu á líkamlegum álagsmeiðslum með verkfærum og vinnuskipulagi sem hentar hverju sinni.

7. Þróa virka vinnuverndarstefnu til að koma í veg fyrir óæskilegt álag á líkamann

Öll fyrirtæki eiga að gera áhættumat. Jafnframt því er gott að marka stefnu fyrirtækisins í vinnuverndarmálum.
Dæmi um slíka stefnu gæti verið:  Stefnt skal að því að starfsmenn hafi fjölbreytt verkefni og geti unnið í þægilegri vinnustöðu með heppilegum vinnuhreyfingum.

8. Fræða starfsfólk um líkamleg álagseinkenni

Fræðsla er upphaf allra umbóta. Fræðsluefni um líkamsbeitingu má nálgast víða, m.a. á heimasíðu Vinnueftirlitsins, www.vinnueftirlit.is. Mörg fyrirtæki fá sérfræðinga öðru hverju til að leiðbeina starfsfólki sínu um líkamsbeitingu og val á tækjum og búnaði.

VINNUEFTIRLITIÐ LEITAR AÐ FYRIRMYNDARFYRIRTÆKJUM !


Í tengslum við vinnuverndarvikuna 2007 Hæfilegt álag er heilsu best óskar Vinnueftirlit ríkisins eftir ábendingum um fyrirmyndar fyrirtæki. Fyrirhugað er að veita viðurkenningu þeim vinnustöðum sem standa sig vel í að skapa góðar vinnuaðstæður þar sem álag á hreyfi- og stoðkerfi líkamans við vinnu er heppilegt og breytilegt. Viðurkenningarnar verða veittar á ráðstefnunni Hæfilegt álag er heilsu best á Grand Hótel 23. október nk.

Atriði sem einkum skal hafa í huga þegar frammistaða fyrirtækja er metin eru:

 • Hefur fyrirtækið gert áhættumat fyrir álag á hreyfi- og stoðkerfi líkamans með þátttöku starfsmanna?
 • Hefur verið gerð áætlun um forvarnir og heilsuvernd byggt á niðurstöðum áhættumatsins?
 • Hafa starfsmenn fengið lögbundna fræðslu og þjálfun í góðri líkamsbeitingu og vinnutækni og notkun hjálpartækja?
 • Eru dæmi um fyrirtæki þar sem við hönnun og skipulag vinnunnar hefur sérstaklega verið tekið mið af því að skapa heppilegt og breytilegt álag á hreyfi- og stoðkerfið?
 • Eru dæmi um góðar lausnir innan fyrirtækisins sem draga úr óheppilegu álagi á hreyfi- og stoðkerfið?
Eins og áður segir óskar Vinnueftirlitið eftir ábendingum um fyrirtæki sem gætu verið verðug að hljóta slíka viðurkenningu. Ábendingarnar skal senda á gudmundur@ver.is eða torunn@ver.is fyrir 15. október 2007.

Valin voru fjögur fyrirmyndarfyrirtæki: Sjá umfjöllun