Vinnuverndarvikan 2006

Ungt fólk og vinnuvernd

Vinnuverndarvikan 2006 - Örugg frá upphafiÁrlega tekur Vinnueftirlitið þátt í samevrópsku átaksverkefni sem kallast Evrópska vinnuverndarvikan. Nú í ár er vinnuverndarvikan helguð ungu fólki og er yfirskrift hennar Örugg frá upphafi.

En hvers vegna að beina sjónum að ungu fólki?

Fyrir því eru margar ástæður. Íslensk ungmenni byrja snemma að vinna, mörg hver með námi, og í ýmsum starfsgreinum, t.d. í matvöruverslunum, á skyndibitastöðum og við blaðaútburð. Nokkuð er um að unga fólkið vinni langan vinnutíma og taki á sig ábyrgð umfram það sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til en ljóst er að því fylgir óhjákvæmilega álag.

Ungu fólki er hættara en hinum eldri við að lenda í vinnuslysum og óhöppum (heimild: Eurostat og vinnuslysaskrá Vinnueftirlitsins) en slíkt má rekja til skorts á þjálfun og starfsreynslu og vanþekkingar á mikilvægum þáttum er varða öryggi og heilbrigði við vinnu. Ungt fólk er ennfremur áhættusæknara en hið eldra og því hættara við að lenda í slysum og óhöppum.

Ljóst er að hátt hlutfall vinnuslysa, óhappa og áreitni meðal ungs fólks má að einhverju leyti rekja til þess að þessi hópur vinnur oft við slæmar aðstæður og óhentugt vinnuskipulag. Mikilvægt er að kenna ungu fólki hvernig verjast megi slysum, álagsmeinum og áreitni og stuðla þannig að vellíðan þessa hóps í vinnu bæði nú og síðar á starfsævinni.

Markmið með vinnuverndarvikunni 2006 eru að:

  • Auka þekkingu ungmenna á vinnuvernd og stuðla að því að þau séu „örugg“ frá upphafi starfsævinnar. Notkun á orðinu „öryggi“ vísar til öryggismála en einnig sjálfsöryggis og vellíðunar í vinnu.
  • Auka meðvitund fólks almennt í þjóðfélaginu um réttindi, skyldur og sérstöðu ungs fólks á vinnumarkaði.

Helstu viðburðir tengdir vinnuverndarvikunni

Vinnuverndarvikan stendur yfir allt árið 2006 þó heitið gefi annað til kynna. Formlega hófst átakið með kynningu á vinnuvernd og reglum um vinnu barna og unglinga á Íslandsmóti iðnnema í Kringlunni 31. mars sl. Ennfremur birtust í apríl sl. viðtöl í nokkrum útvarpstöðvum og í Morgunblaðinu við starfsfólk Vinnueftirlitsins um réttindi og skyldur ungs starfsfólks á vinnumarkaði.

Í apríl var kannaður áhugi á fræðslu um vinnuvernd hjá umsjónarmönnum vinnuskóla hjá sveitarfélögum. Góð viðbrögð fengust og var útbúinn fræðslupakki og dreifibréf sem sent var til sveitarfélaga fyrstu dagana í júní. Í fræðslupakkanum er fjallað um helstu þætti í vinnuvernd og ábyrgð og skyldur leiðbeinenda, barna og ungmenna í þessum málaflokki. Þar var og hvatt til þess að viðhalda þeirri hefð að starfsmenn Vinnueftirlitsins fræði leiðbeinendur og ungmenni í vinnuskólum og bæjarvinnu sveitarfélaga um vinnuvernd.

Í júní var sent dreifibréf til stjórnenda matvöruverslana, skyndibitastaða, dreifingaraðila blaða og pósts í samstarfi við Umboðsmann barna og Vinnumálastofnun ásamt veggspjaldi til að hengja upp á vinnustöðum. Tilgangurinn með bréfinu og veggspjaldinu var að vekja athygli atvinnurekenda á skyldum og ábyrgð sem þeir bera gagnvart þeim börnum og unglingum sem þeir ráða í vinnu.  

Í júní var ennfremur eftirlitsátak í matvöruverslunum og í september voru haldnir fundir með forsvarsmönnum matvörukeðja.

Gefið hefur verið út veggspjald til að minna á átakið með skilaboðum til unga fólksins. Einnig munu koma út tveir bæklingar sem hafa vinnuheitið  „Örugg frá upphafi“. Annar er ætlaður ungu fólki en hinn atvinnurekendur. Í bæklingunum er lögð áhersla á réttindi, skyldur, hættur, forvarnir og vellíðan þeirra sem eru að hefja störf.

Myndbanda og veggspjaldakeppni meðal grunn- og framhaldsskólanema fór fram 25. sept. - 15. október. Sjá úrslit og nánari upplýsingar.

Viðurkenningar til fyrirtækja

Í tengslum við vinnuverndarvikuna 2006 voru leitað eftir tilnefningnum fyrir vinnustaði sem væru góðar fyrirmyndir í að sinna skapa ungu fólki gott vinnuumhverfi og stuðla að því að þau séu „örugg“ frá upphafi starfs. Burger King og Orkuveita Reykjavíkur hlut viðurkenningarnar og voru fulltrúum þeirra veitt viðurkenningarskjöl á morgunverðarfundi á Grand Hóteli 24. október.

Í vikunni  23. – 27. október mun fræðslu- og upplýsingastarf í tengslum við vinnuverndarvikuna 2006 ná hámarki. Þá munu eftirlitsmenn Vinnueftirlitsins heimsækja vinnustaði víða um land og dreifa ýmsu fræðsluefni.

Fyrirlestur á vegum Rannsóknastofu í vinnuvernd , 23. október
Staður: Háskóli Íslands, Lögberg, stofa 102, kl. 12.20 - 13.20.
Fyrirlesari: Margrét Einarsdóttir, doktorsnemi í félagsfræði.  
Fyrirlesturinn ber yfirskriftina: Til hvers löggjöf um vinnu barna og unglinga?

Morgunverðarfundur

Staður: Grand Hótel 24. október frá kl. 8.30 – 10:00
Á fundinum voru erindi flutt um vinnuaðstæður ungs starfsfólks og veittar viðurkenningar, annars vegar til sigurvegara í myndbanda- og veggspjaldakeppni ungs fólks (að 20. ára aldri) og hins vegar til vinnustaða sem eru til fyrirmyndar í því að sinna vinnuvernd ungra starfsmanna sinna. Morgunverðarfundurinn var öllum opinn. Sjá glærur fyrirlesara.

Vinnueftirlitið hvetur fjölmiðla, skóla, vinnustaði, félagasamtök og stofnanir til að taka þátt í vinnuverndarvikunni 2006 og stuðla að því að ungt fólk sé öruggt frá upphafi starfsævinnar. Slíkt er hægt að gera, til að mynda, með því að halda vinnuverndinni og málefnum ungra starfsmanna á lofti í vikunni 23. - 27. okt. nk. svo sem á heimasíðum, með fræðslu, skrifum og í þjóðfélagsumræðunni.

Ýmis hollráð

Hollráð fyrir verkstjóra
Hollráð fyrir foreldra
Öryggi ungs starfsfólks á vinnustað
Rétturinn til heilbrigðis og öryggis á vinnustað  
Að greina hættur á vinnustað

Útgáfa í tengslum við vinnuverndarvikuna:

Örugg frá upphafi - Upplýsingar fyrir atvinnurekendur og stjórnendur  
Örugg frá upphafi - Upplýsingar fyrir ungt fólk á vinnumarkaði
Fyrirlestrar á morgunverðarfundi 24. okt.
Úrslit myndbanda og veggspjaldakeppninnar - Örugg frá upphafi

Ása G. Ásgeirsdóttur er verkefnisstjóri vinnuverndarvikunnar 2006.