Vinnuverndarvikan 2005

Niður með hávaðann!

Er hávaði á þínum vinnustað? Ef svo er þá skiptir miklu máli að verjast honum til þess að útiloka m.a. heyrnartjón, eyrnasuð, slysahættu og streitu.
Markmiðið með vinnuverndarvikunni er að vekja athygli á skaðlegum áhrifum hávaða á vinnustöðum í þeim tilgangi að gera vinnustaðina heilsusamlegri og öruggari.

Tilkynnið um góð fordæmi !

Í tengslum við vinnuverndarvikuna er leitað sérstaklega eftir dæmum af vinnustöðum sem hafa náð góðum árangri í að draga úr eða koma í veg fyrir hávaða.
Fyrirtæki og einstaklingar eru hvattir til að senda Vinnueftirlitinu upplýsingar um slík fordæmi sem geta orðið öðrum til eftirbreytni. Vinnustöðum, sem þykja skara fram úr á þessu sviði, verða veittar viðurkenningar. Tilkynningar má senda fyrir 10. október á netfangið vinnueftirlit@ver.is.

Dagskrá vinnuverndarvikunnar

Í vinnuverndarvikunni verður hrundið af stað upplýsingaátaki um hávaða og heyrnarvernd. Samhliða því munu eftirlitsmenn Vinnueftirlitsins heimsækja vinnustaði um allt land. Í þessum heimsóknum verða gerðar hávaðamælingar jafnframt verður athygli starfsmanna vinnustaðanna vakin á heilsuspillandi áhrifum hávaða og gildi forvarna. 
Vinnustaðir sem hafa áhuga á því að fá slíka heimsókn eru hvattir til að hafa samband við Vinnueftirlitið fyrir 10. október 2005 á netfangið vinnueftirlit@ver.is

Viðurkenningar fyrir gott starf og góðar lausnir 

Á morgunverðarfundi sem Vinnueftirlitið og Vinnuvistfræðifélag Íslands héldu 25. okt. 2005, í tilefni evrópsku vinnuverndarvikunnar veitti Vinnueftirlitið fimm fyrirtækjum viðurkenningar fyrir gott starf og góðar lausnir sem miðuðu að því að draga úr hávaða og bæta hljóðvist. 
Það er ljóst að mörg fyrirtæki hafa verið að gera góða hluti bæði til að fyrirbyggja hávaða strax á hönnunarstigi og eins við að bregðast við hávaða þar sem hann er til staðar. En það er jafnframt ljóst að víða er pottur brotinn í þessum efnum og því full ástæða til að vekja fólk og fyrirtæki til umhugsunar um hávaða á vinnustöðum og í umhverfinu. Við þekkjum flest vandamálið en það er oft þannig að við “sættum okkur við það” af gömlum vana en gleymum því að við getum og eigum að bregðast við því. 

Viðurkenningarnar sem Vinnueftirlitið veitti fyrirtækjunum fimm eru til þess að vekja athygli á því hvernig fyrirtæki geta beitt sér til þess að skapa starfsfólki sínu þægilegra vinnuumhverfi og betri hljóðvist. Þessi fyrirtæki hafa gert sér ljóst að hávaðavarnir skila sér í ánægðara starfsfólki sem aftur skilar sér í betri starfsanda, heilsu og framlegð. 

Eftirtalin fyrirtæki hlutu viðurkenningar: 

Bifreiðaverkstæði Bernhards ehf, Reykjavík

fyrir að bæta hljóðvist verulega á bifreiðaverkstæði þar sem hávaði hafði verið vandamál. Á verkstæðinu var dregið úr ómtíma með því að hengja hljóðísogsefni í loft. 

Hitaveita Suðurnesja, 

fyrir að vinna markvisst að því að dempa hávaða í orkuverum jafnt með endurbótum á eldri orkuverum sem og ráðstöfunum þegar á hönnunarstigi við uppbyggingu nýrri orkuvera. 

Leikskólinn Glaðheimar, Sauðárkróki 

fyrir að beita sér fyrir hugarfarsbreytingu innan vinnustaðarins og virkja þannig starfsfólkið og börnin á þann hátt að allir starfshættir taki mið af því að draga úr hávaða. Starfsfólk leikskólans hefur tekið virkan þátt í því að leita lausna sem markvisst hefur verið hrint í framkvæmd eftir því sem efni hafa staðið til. 

Lundarskóli, Akureyri 

fyrir að bæta hljóðvist í kennslustofum með því að setja upp hljóðkerfi. Röddin er vinnutæki kennarans og er undir miklu álagi við hefðbundnar aðstæður við kennslu. Þessar úrbætur hafa skilað sér í minnkuðu álagi á raddfærin og auknum skilningi nemenda á því sem sagt er. Að auki herma nemendur að kennarar virðist ekki vera eins reiðir og áður þegar þeir þurftu meira að byrsta sig. Hljóðkerfin hafa líka skilað hljóðlátari kennslustofum og þar af leiðandi bættu vinnuumhverfi fyrir kennara og nemendur.

Orkuveita Reykjavíkur, 

fyrir að gera sérstakar ráðstafanir til að hávaði yrði ekki truflandi þáttur í opnum skrifstofurýmum. Unnið hefur verið markvisst að því að gera hljóðvistina sem besta og tryggja starfsmönnum gott starfsumhverfi. 
 
Vinnueftirlitið vonar að þetta megi verða öðrum fyrirtækjum hvatning til þess að draga úr hávaða og bæta hljóðvist.

Morgunverðarfundur

Í tilefni evrópsku vinnuverndarvikunnar verður haldinn morgunverðarfundur á Grand Hóteli, þriðjudaginn 25. október 2005, helgaður hávaða og bættri hljóðvist. Að fundinum standa Vinnueftirlit ríkisins og Vinnuvistfræðifélag Íslands - Vinnís.

Dagskrá fundarins:
  • Skráning og morgunverður kl. 8:30 til 9:00
  • Ávarp Árna Magnússonar félagsmálaráðherra
  • Inngangur - Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins
  • Hljóðhönnun vinnustaða - Ólafur Hjálmarsson, verkfræðingur hjá Línuhönnun
  • Bætt hljóðvist orkuvera Hitaveitu Suðurnesja - tilgangur og markmið - Þórður Andrésson, stöðvarstjóri orkuvers Hitaveitu Suðurnesja
  • Opnum augun fyrir hávaðanum - Helga Sigurbjörnsdóttir, leikskólastjóri leikskólans Glaðheima
  • Hljóðvist í opnum rýmum Orkuveitu Reykjavíkur - Haraldur Haraldsson, deildarstjóri öryggis- og vinnuumhverfismála hjá Orkuveitu Reykjavíkur 
  • Viðurkenningar fyrir góðar lausnir/gott starf 
  • Fundarlok kl. 11:00
Þátttaka er ókeypis. 
Skráið þátttöku í síma 550 4600 eða með tölvupósti vinnueftirlit@ver.is
Grand Hótel - Hvammur - Sigtúni 38 - 105 Reykjavík 
Þriðjudaginn 25. október 2005 - kl. 8:30 - 11:00