Vinnustaðaeftirlit

Vinnueftirlitið er miðstöð vinnuverndarstarfs og byggir starfsemi sína á samþættingu eftirlits, fræðslu og rannsókna. Vinnustaðaeftirlit beinist í meginatriðum að því að sannreyna að fyrirtækin viðhafi forvarnastarf og að aðstæður á vinnustöðum séu í samræmi við lög og reglur.

Atvinnurekendur sem starfa á Íslandi, hvort heldur innlendir eða erlendir, bera ábyrgð á að tryggja öruggar og heilsusamlegar vinnuaðstæður í samræmi við lög nr. 46/1980 um að aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum . Erlend þjónustufyrirtæki sem starfa tímabundið hér á landi falla einnig undir lögin.  Vinnueftirlitið hefur eftirlit með að lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim sé framfylgt.

Vinnustaðaeftirlit beinist að allri starfsemi þar sem einn eða fleiri menn vinna, hvort sem um er að ræða eigendur fyrirtækja eða starfsmenn

Markmiðið er að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi, sem jafnan sé í samræmi við  félagslega og tæknilega þróun í þjóðfélaginu. 
Vinnueftirlitið hefur ekki eftirlit með;

 • siglingamálum og öðrum verkefnum sem sérstaklega eru falin Samgöngustofu/Siglingastofnun Íslands.
 • loftferðum sem falla undir verksvið Samgöngustofu/Flugmálastjórnar.

Fyrirtækjaeftirlitsmenn Vinnueftirlitsins heimsækja vinnustaði til þess að hafa eftirlit með því að vinnuaðstæður séu öruggar og heilsusamlegar. Í eftirlitsheimsóknum er farið yfir þau atriði sem bæta þarf úr með stjórnendum og starfsmönnum t.d. varðandi vinnuumhverfi, vinnuskipulag, framkvæmd vinnunnar og virkni vinnuverndarstarfsins. Lögð er áhersla á að leiðbeina almennt, svara spurningum og ræða þau atriði sem athugasemdir eru gerðar við.

Eftirlitsaðferðir eru breytilegar eftir tilefni:

Heildstætt eftirlit með vinnuaðstæðum

 • Skipulag vinnuverndarstarfsins og vinnuumhverfið er skoðað heildstætt samkvæmt vinnuumhverfisvísi viðkomandi starfsgreinar . Tíðni heimsókna er breytileg eftir áhættu starfsgreinar og frammistöðu fyrirtækisins í vinnuvernd.
 • Ávallt er kannað hvort fyrirtækið hafi gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði, eða áhættumat , til að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna og hvort starfsmenn hafi fengið viðeigandi fræðslu og þjálfun í vinnuvernd.
 • Heimsóknin er oftast boðuð fyrirfram og fundað með æðstu stjórnendum og öryggisnefnd, öryggistrúnaðarmanni og öryggisverði. Í litlum fyrirtækjum er rætt við stjórnendur og starfsmenn.
 • Heimsóknir á byggingavinnustaði eru ekki boðaðar fyrirfram.

Takmarkað eftirlit

 • Afmarkað viðfangsefni er skoðað, t.d. vegna vinnuslyss, sérstakra áherslna í eftirliti eða vegna kvörtunar. Ef um kvörtun er að ræða er ekki heimilt að láta uppi við atvinnurekanda að eftirlitsferð sé farin vegna kvörtunar.

Eftirlitsátök

 • Sérstök eftirlitsátök eru gerð til að framfylgja stefnu og markmiðum Vinnueftirlitsins. Þá er sjónum beint að tiltekinni starfsgrein eða áhættuþáttum á vinnustað sem taldir eru skapa mesta hættu á heilsutjóni eða slysum.

Aðgerðir

Ef aðstæður á vinnustað eru þannig að lífi eða heilsu starfsmanna sé ógnað er vinna bönnuð, eða starfsemi lokað að hluta eða öllu leyti.

Ef vinnuaðstæður uppfylla ekki ákvæði reglna og reglugerða eru gefin tímasett fyrirmæli um úrbætur. Að eftirlitsheimsókn lokinni fær vinnustaðurinn senda eftirlitsskýrslu með niðurstöðum heimsóknar. Í skýrslunni er atvinnurekanda gert að senda tilkynningu um úrbætur til Vinnueftirlitsins áður en tímafrestur rennur út.

Ef ekki berst tilkynning um úrbætur þrátt fyrir ítrekanir er hafinn undirbúningur þvingunaraðgerða, þ.e. álagning dagsekta, bann við vinnu eða lokun starfsemi að hluta eða öllu leyti.

Vinnueftirlitið leitast við að forgangsraða verkefnum í eftirliti út frá áhættu og beina kröftum sínum að þeim fyrirtækjum þar sem þörfin er mest.

Öryggis- og heilbrigðisstarfsemi innan fyrirtækja. 

Samskipti atvinnurekenda og starfsmanna.

 • Í fyrirtækjum, þar sem eru 1 til 9 starfsmenn, skal atvinnurekandi og/eða verkstjóri hans stuðla að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustað, í nánu samstarfi við starfsmenn fyrirtækisins og félagslegan trúnaðarmann þeirra.
 • Í fyrirtækjum, þar sem eru 10 starfsmenn eða fleiri, skal atvinnurekandi tilnefna einn aðila af sinni hálfu öryggisvörð og starfsmenn skulu tilnefna annan úr sínum hópi öryggistrúnaðarmann. Þeir skulu í samvinnu fylgjast með því, að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað séu í samræmi við Vinnuverndarlög.
 • Í fyrirtækjum, þar sem eru 50 starfsmenn eða fleiri, skal stofna öryggisnefnd. Starfsmenn kjósa úr sínum hópi tvo fulltrúa og atvinnurekandi tilnefnir tvo fulltrúa. Þessi nefnd skal skipuleggja aðgerðir varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi innan fyrirtækisins, annast fræðslu starfsmanna um þessi efni og hafa eftirlit á vinnustöðum með því, að ráðstafanir er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi komi að tilætluðum notum.

Þegar starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins koma í eftirlitsferðir í fyrirtæki, skulu þeir hafa samband við atvinnurekanda eða umboðsmann hans, öryggistrúnaðarmann starfsmanna, félagslegan trúnaðarmann starfsmanna, og við öryggisnefndir, þar sem þær eru starfandi. Nefndum aðilum skal auðvelda, svo sem kostur er, að leggja vandamál fyrir Vinnueftirlit ríkisins.