Ungmenni á vinnumarkaði – krafa um áhættumat

Sumarið er sá árstími þegar ungmenni eru fjölmennust á vinnumarkaði. og taka þau þá þátt í hinum fjölbreytilegustu störfum í þjóðfélaginu. Í mörgum tilvikum er unga fólkið að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði og er þess vegna oftar en ekki illa upplýst um rétt sinn og skyldur.

Atvinnurekendur sem ráða ungt fólk til vinnu þurfa að taka tillit til reglugerðar um vinnu barna og unglinga (nr. 426/1999) en reglugerðin tekur til vinnu einstaklinga undir 18 ára aldri. Þar er kveðið á um að atvinnurekandi skuli gera skriflegt áhættumat á störfum ungmenna og skal matið fara fram áður en ungmennin hefja störf og í hvert sinn sem verulegar breytingar eru gerðar á starfsskilyrðum.

Þarna er verið að tryggja að fyrirfram sé skilgreint hvaða störf ungmennin mega vinna og hvaða störf þau mega ekki vinna. Ekki er þó nægjanlegt að meta áhættu og skrifa niður á blað heldur þarf einnig að gera ráðstafanir í kjölfarið sem beinast að því að draga úr áhættunni. Atvinnurekandi þarf að lagfæra og breyta vinnuaðstæðum til að tryggja að forvarnir séu hluti af vinnuskipulaginu og framkvæmd vinnunnar.

Hér er tekið dæmi úr reglugerðinni til skýringar: Í viðauka 5A eru talin upp störf í vinnuskólum sem 15 ára og eldri mega vinna undir leiðsögn leiðbeinanda. Leyfður er sláttur í görðum með vélknúinni handsláttuvél. Sláttuvélar, sem notaðar eru í vinnuskólum, verða að vera með haldrofa þannig að þegar sleppt er takinu á vélinni drepi hún á sér. Ef þessi búnaður er ekki til staðar á vélinni verður að skipta henni út ef ungmenni eiga að vinna með hana.
Stundum er misbrestur á að skóbúnaður þeirra, sem vinna við slátt, sé réttur. Strigaskór eru ekki ásættanlegur skóbúnaður. Tryggja þarf að ungmenni fái öryggisskó með stáltá; það er skylda atvinnurekandans að sjá til þess að þessi búnaður sé til staðar og til notkunar fyrir ungmennin. Þegar unnið er við slátt ber einnig að nota heyrnarhlífar og andlitshlíf.

Það gæti orðið dýrkeypt reynsla fyrir ungan starfsmann að verða fyrir vinnuslysi. Sú þungbæra reynsla og afleiðingar þess gæti búið með viðkomandi alla ævi. Sá sem veldur  tjóni á verðmætum kann að finna til sektarkenndar og sjálfsásökunar, jafnvel kvíða við að takast á við verkefni í vinnu. Ungmenni eru ekki fullþroska, hvorki andlega né líkamlega. Þess vegna verður að taka sérstakt tillit til þeirra á vinnumarkaði.

Atvinnurekandi hefur upplýsingaskyldu við foreldra eða forráðamenn barna undir 15 ára aldri og þeirra sem eru í skyldunámi. Upplýsa ber um ráðningarkjör, lengd vinnutíma og einnig tíðni óhappa og slysa sem hugsanlega tengjast starfinu. Niðurstöður áhættumats þarf einnig að kynna og þær ráðstafanir sem atvinnurekandi gerir til að auka öryggi barna og tryggja þeim heilbrigði við störfin.