Fimm flokkar áhættuþátta

Áhættumat á vinnustað

Áhættumat á vinnustað er mikilvægur þáttur forvarnarstarfs þar sem samspil vinnuaðstæðna og starfsmanna er metið. Í kjölfar áhættumats er gerð áætlun um forvarnir til að koma í veg fyrir eða draga úr líkum á slysum, vanlíðan og sjúkdómum. 

Flokka má áhættuþætti á eftirfarandi hátt:

  1. Efnanotkun: Gera þarf áhættumat vegna allra varúðarmerktra efna, s.s. eiturefna, gass og hreingerningarefna. Einnig þarf að gera áhættumat vegna annarra efna sem geta verið hættuleg s.s. heitt vatn.
  2. Hreyfi og stoðkerfi: Gera þarf áhættumat vegna álags á hreyfi- og stoðkerfi. Meta þarf vinnustellingar, vinnuhreyfingar og líkamlegt erfiði t.d. vegna  þungra byrða.  Meta þarf tengsl þessara þátta við eðli og skipulag vinnunnar (einhæf vinna, framleiðslustörf, kyrrsetuvinna o.sfrv.). 
  3. Umhverfisþættir: Gera þarf áhættumat vegna umhverfisþátta, s.s. hávaða, birtu, hita, kulda, raka, titrings og líffræðilegra skaðvalda.
  4. Vélar og tæki: Gera þarf áhættumat vegna öryggis véla og tækja, s.s. tölva, prentara, handverkfæra, færibanda, stórra og smárra vinnuvéla, iðnaðarvéla, landbúnaðarvéla o.fl.
  5. Félagslegir og andlegir þættir: Gera þarf áhættumat vegna félagslegra og andlegra þátta, s.s. fjölbreytni verkefna, vinnutíma,  sveigjanleika, sjálfræðis, samskipta og stuðnings í vinnu. Vinna skal að forvörnum vegna eineltis og kynferðislegrar áreitni.

Mikilvægt er að þeir sem annast áhættumat þekki samspil hinna ólíku áhættuþátta, t.d. hvernig innöndun mengandi efna eykst við vinnu sem krefst líkamlegs erfiðis.