Þjónustuaðilar í vinnuvernd

- upplýsingar um þjónustuaðila í vinnuvernd og sérfræðinga

Um þjónustuaðila á sviði vinnuverndar

Samkvæmt lögum ber atvinnurekandi ábyrgð á því að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum. Við gerð áætlunarinnar eru áhættuþættir fyrir öryggi og heilsu starfsfólks metnir (áhættumat) og útbúin áætlun um forvarnir í því skyni að koma í veg fyrir atvinnutengda sjúkdóma og slys.

Þegar gerð áhættumats og áætlun um forvarnir krefst færni sem atvinnurekandi eða starfsfólk hans hafa ekki yfir að ráða skal atvinnurekandi leita aðstoðar þjónustuaðila sem hafa hlotið viðurkenningu Vinnueftirlitsins til þeirra starfa.

Viðurkenndur þjónustuaðili er fyrirtæki sem Vinnueftirlitið hefur viðurkennt, á grundvelli reglugerðar hvort sem fyrirtækið hefur ráðið til sín viðurkennda sérfræðinga sem hafa sótt sérstakt námskeið fyrirþjónustuaðila eða gert verktakasamning við aðra viðurkennda þjónustuaðila eða sérfræðinga.

Námskeið fyrir þjónustuaðila er haldið árlega í byrjun hvers árs. Eru þeir sem sækjast eftir viðurkenningu Vinnueftirlitsins hvattir til þess að senda umsókn tímanlega fyrir námskeiðið þannig að hægt sé að meta hæfni til viðurkenningar áður en námskeiðið hefst.

  • Nánari upplýsingar um viðmið við mat á hæfni eru undir liðnum "Hæfniskröfur" hér fyrir neðan.
  • Umsóknareyðublöð má finna undir liðnum "Umsókn um viðurkenningu" hér fyrir neðan.

Hlutverk þjónustuaðila

Þjónustuaðili skal starfa sem óháður, sérfróður aðili við að greina og meta hættur í vinnuumhverfinu og gera áætlun um heilsuvernd og forvarnir. Hann á að vera atvinnurekendum, fulltrúum þeirra, öryggistrúnaðarmönnum, öryggisvörðum og starfsmönnum til ráðuneytis og ráðgjafar við að skapa sem öruggast og heilsusamlegast vinnuumhverfi.

Viðurkenning þjónustuaðila á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum

Umsækjendur um viðurkenningu sérfræðings og þjónustuaðila þurfa að fylla út umsóknareyðublað (sjá tengla hér að neðan) og senda til Vinnueftirlitsins ásamt fylgigögnum á netfangið vinnueftirlit@ver.is .

  • Allir einstaklingar sem óska eftir að starfa við gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fylla út umsóknareyðublað fyrir sérfræðinga.
  • Fyrirtæki sem hyggjast veita þessa þjónustu fylla út eyðublað fyrir þjónustuaðila.

Umsóknir eru metnar á grundvelli reglugerðar nr. 730/2012.
Samkvæmt henni er þjónustuaðili sá sem veitir heildstæða eða sértæka þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum. Þjónustuaðili þarf að vera fær um að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum óþægindum vegna vinnuvistfræðilegra þátta. Hann skal hafa aðgang að sérfræðingum eða vera sjálfur sérfræðingur ef hann starfar á eigin vegum.

Vinnueftirlitið veitir viðurkenningu þess efnis að viðkomandi hafi fullnægjandi þekkingu og færni til að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum óþægindum vegna;

  • hreyfi- og stoðkerfis
  • félagslegra og andlegra þátta
  • vinnu við vélar og tæki
  • efnafræðilegra þátta
  • umhverfisþátta

Ef þjónustuaðili er að mati Vinnueftirlitsins fær um að meta og bregðast við hættum í vinnuumhverfi vegna allra áhættuþáttanna fimm hlýtur sá heildstæða viðurkenningu. Ef þjónustuaðili hefur ekki yfir svo víðtækri þekkingu að ráða er heimilt að viðurkenning hans verði takmörkuð við ákveðna tegund starfsemi.

Hæfniskröfur

Í töflunni hér að neðan er að finna lýsingu á þeim kröfum sem gerðar eru til þekkingar og færni þeirra sem hyggjast sækja um viðurkenningu sem sérfræðingar við gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði.

ÁhættuþátturSérfræðingur - viðmið  
Efni og efnanotkunÞekkingFærni 
 NámSkal hafa lokið a.m.k. þriggja ára háskólanámi í efnafræði, efnaverkfræði eða í tengdum raunvísindagreinum þar sem námsskrá inniheldur mikla efnafræði.

Skal hafa víðtæka þekkingu á sviðinu sem nýtist við að greina og meta áhættur í vinnuumhverfinu. Skal jafnframt geta veitt faglega ráðgjöf um lausnir við gerð áætlunar um heilsuvernd/ forvarnir.

Æskileg reynsla

Reynsla af því að vinna með efni, t.d. í iðnaðarumhverfi eða á rannsóknar-stofum.

 
Félagslegur og andlegur aðbúnaðurÞekkingFærni
 Nám

Skal hafa lokið a.m.k. þriggja ára háskólanámi á sviði félags- eða heilbrigðisvísinda  þar sem fjallað er ítarlega um forvarnir og áhrifaþætti heilbrigðis. Viðeigandi bakgrunnur er t.d. menntun í félagsfræði, sálfræði eða lýðheilsufræði.

Skal þekkja hugmyndafræði lýðheilsu og vinnuverndar og geta beitt henni í forvarnarskyni. Skal geta veitt faglega ráðgjöf um lausnir við gerð áætlunar um heilsuvernd og forvarnir.

Æskileg reynsla

Reynsla af verkefnum tengdum félagslegum og andlegum aðbúnaði á vinnustöðum sem nýtist við framkvæmd áhættumats er varðar félagslegan og andlegan aðbúnað.

 
Hreyfi- og stoðkerfiÞekkingFærni
Nám

Skal hafa lokið a.m.k. þriggja ára háskólanámi á heilbrigðissviði, þar sem fjallað er ítarlega um uppbyggingu og starfræna virkni hreyfi- og stoðkerfis og vinnulífeðlisfræði líkamans. Viðeigandi bakgrunnur er t.d. menntun í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun eða læknisfræði.

Skal hafa víðtæka þekkingu á sviðinu sem nýtist við að greina og meta vinnuumhverfi, vinnuskipu-lag og vinnuaðferðir m.t.t. til álags á hreyfi- og stoðkerfi. Skal geta veitt faglega ráðgjöf um lausnir við gerð áætlunar um heilsuvernd/ forvarnir.

Æskileg reynsla

Reynsla af því að vinna með álagsþætti hreyfi- og stoðkerfis.

 
UmhverfiÞekking - námFærni
Hávaði

Skal hafa þekkingu á eðlisfræði hljóðs og hönnun mannvirkja. Viðeigandi bakgrunnur er t.d. arkitekt, byggingarverkfræði/-tæknifræði og, eðlisfræði.

Skal hafa víðtæka þekkingu á sviðinu sem nýtist við að greina og meta áhættur í vinnuumhverfinu.Skal geta veitt faglega ráðgjöf um lausnir við gerð áætlunar um heilsuvernd/ forvarnir.

Inniloft

Skal hafa þekkingu á einhverjum af þeim fjölmörgu þáttum sem geta haft áhrif á gæði innilofts. Viðeigandi bakgrunnur er t.d. menntun í arkitektúr, byggingarverkfræði/-tæknifræði, efnafræði, líffræði og ýmiss konar heilbrigðismenntun.

Skal hafa víðtæka þekkingu á sviðinu sem nýtist við að greina og meta áhættur í vinnuumhverfinu.Skal geta veitt faglega ráðgjöf um lausnir við gerð áætlunar um heilsuvernd/ forvarnir.

Lýsing

Skal hafa þekkingu á eðlisfræði ljóss og hönnun mannvirkja. Heppilegur bakgrunnur er t.d. arkitekt, byggingarverkfræði/-tæknifræði, eðlisfræði.

Skal hafa víðtæka þekkingu á sviðinu sem nýtist við að greina og meta áhættur í vinnuumhverfinu.Skal geta veitt faglega ráðgjöf um lausnir við gerð áætlunar um heilsuvernd/ forvarnir.

Líffræðilegir skaðvaldar

Skal hafa þekkingu á líffræðilegum skaðvöldum, smitleiðum, lífsferlum og líklegum búsvæðum. Viðeigandi bakgrunnur er t.d. matvælafræði, líffræði og ýmiss konar heilbrigðismenntun.

Skal hafa víðtæka þekkingu á sviðinu sem nýtist við að greina og meta áhættur í vinnuumhverfinu.Skal geta veitt faglega ráðgjöf um lausnir við gerð áætlunar um heilsuvernd/ forvarnir.

Æskileg reynsla

Reynsla af því að vinna með áhættu-þætti hávaða, innilofts, lýsingar og/eða líffræðilegra skaðvalda.

 
Vélar og tækiÞekkingFærni
Nám

Skal hafa nám í véla- og tæknimálum. Viðeigandi bakgrunnur er t.d. verk- eða tæknifræðimenntun.

Skal hafa víðtæka þekkingu á sviðinu sem nýtist við að greina og meta áhættur í vinnuumhverfinu.Skal geta veitt faglega ráðgjöf um lausnir við gerð áætlunar um heilsuvernd/ forvarnir.

Æskileg reynsla

Hafa reynslu af starfi við vélar og tæki.

 

Umsókn um viðurkenningu

Ef þjónustuaðili hefur ráðið til sín viðurkennda sérfræðinga eða gert verktakasamning/ samstarfssamning við aðra viðurkennda þjónustuaðila eða sérfræðinga vegna allra áhættuþáttanna fimm getur hann sótt um heildstæða viðurkenningu. Ef þjónustuaðili hefur ekki yfir svo víðtækri þekkingu að ráða getur hann sótt um viðurkenningu fyrir sértæka þjónustu sem takmarkast þá við ákveðin svið, sjá umsóknarblað.

Ef um er að ræða stofnun nýs þjónustufyrirtækis getur mat á umsókn fyrirtækisins og sérfræðings/-a sem hjá því munu starfa farið fram samhliða, ef þeir hafa ekki hlotið viðurkenningu áður.

Í umsókn fyrir þjónustuaðila og sérfræðinga skal koma fram á hvaða sviði viðkomandi óskar eftir að starfa sem viðurkenndur þjónustuaðili/sérfræðingur. Umsækjandi merkir í einn reit eða fleiri af þeim fimm flokkum áhættuþátta sem þar koma fram. Nánari upplýsingar um þá má nálgast hér á heimasíðunni .

Þeir einstaklingar sem sækja um viðurkenningu sem sérfræðingar í gerð áætlana um öryggi og heilbrigði skulu hafa menntun á heilbrigðissviði, í félagsvísindum, á tæknisviði eða öðrum sambærilegum sérsviðum og hafa grunnþekkingu til að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum óþægindum vegna vinnuvistfræðilegra þátta.

Mikilvægt er að upplýsingar um menntun og reynslu fylgi umsókn. Prófskírteini til staðfestingar á menntun og staðfesting helstu námskeiða skal einnig fylgja. Umsókn með fylgigögnum sendist á netfangið vinnueftirlit@ver.is.

 Ath!
Við mælum með því að opna umsóknarblöðin með Adobe Reader.
Umsóknarblöðin er hægt að vista útfyllt í tölvu notanda með Adobe Reader.

Námskeið fyrir þjónustuaðila og sérfræðinga

Vinnueftirlitinu er einungis heimilt að viðurkenna einstakling sem sérfræðing hafi hann lokið námi eða námskeiði um gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum og hefur stofnunin útbúið námsskrá fyrir slík námskeið.

Við mat á hæfni sérfræðinga er tekið mið af því hvort gögn um menntun uppfylli kröfur reglugerðarinnar erð námskrárinnar.

Breytingar á starfsemi þjónustuaðila

Að gefnu tilefni viljum við ítreka að ef breytingar verða hjá viðurkenndum þjónustuaðila svo sem að fyrirtæki sameinast eða að starfskraftur, sem viðurkenningunni tengdist, fer til annarra starfa, skal það tilkynnt Vinnueftirlitinu.

Upplýsingaefni