Tölfræði

Slysaskrá Vinnueftirlitsins

Hægt er að fara á vef vinnuslysaskrárinnar en þar má fá upplýsingar um staðtölur vinnuslysa beint úr slysagrunninum, og nálgast eyðublað til að tilkynna um vinnuslys.

Slysaskrá Íslands

Fram til þessa hafa slys verið skráð af fjölmörgum aðilum hérlendis, með mismunandi hætti og á ólíkum forsendum eftir því hvaða stofnun eða fyrirtæki á í hlut. Þeir sem starfa við slysavarnir hafa hins vegar lengi haft áhuga á að samræma skráninguna þannig að betra yfirlit fáist yfir fjölda slysa, orsakir þeirra og afleiðingar. Skipulagðari slysarannsóknir leiða til markvissari og öflugri forvarna.

Með lögum nr. 33/1994 um slysavarnaráð var það gert að skyldu ráðsins að móta reglur sem miða að því að slys séu skráð skilmerkilega og að sú skráning sé samræmd. Landlæknisembættið og slysavarnaráð hafa haft frumkvæði að þeirri samræmingu með gerð og þróun gagnabankans Slysaskrár Íslands. Með lögum nr. 18/2003 um Lýðheilsustöð var starfsemi slysavarnaráðs felld undir Lýðheilsustöð þar sem ráðið starfar nú sem eitt af sérfræðiráðum stöðvarinnar. Slysaskrá Íslands er þó enn varðveitt hjá Landlæknisembættinu. Á  heimasíðu Landlæknisembættisins kemur fram hverjir eru skráningaraðilar í Slysaskrá Íslands.

Ætlunin er að Slysaskrá Íslands nái til allra þeirra sem meðhöndla upplýsingar um slys. Formleg skráning hófst í gagnagrunninn 1.apríl 2002. Vinnueftirlitið sem hefur haldið skrá yfir tilkynningarskyld vinnuslys hefur verið með í skráningu slysa inn í grunninn frá byrjun. Verulegur munur er á fjölda skráðra vinnuslysa í gagnagrunninn og fjölda tilkynntra vinnuslysa til Vinnueftirlitsins og er það eðlilegt. Tilkynningarskyld slys til Vinnueftirlitsins eru þau slys sem valda alvarlegu tjóni og eða óvinnufærni sem nemur meir en degi auk slysadags. Vinnuslys í Slysaskrá Íslands, eru þessi slys og auk þess óhöpp sem verða í vinnu og leiða til þess að sá slasaði leitar læknis og mögulega annarra skráningaraðila þó svo að slysið sé ekki eins alvarlegt.