Vinnuslys

Vinsamlegast athugið að frá og með 1. janúar 2020 þarf að skrá öll vinnuslys rafrænt í gegnum mínar síður Vinnueftirlitsins.
Sjá nánar í frétt og upplýsingablaði.


Atvinnurekendum ber að tilkynna Vinnueftirlitinu um öll vinnuslys þar sem starfsmaður verður óvinnufær í a.m.k. einn dag auk dagsins sem slysið varð eða lætur lífið.

Tilkynna skal strax símleiðis og eigi síðar en innan sólahrings slys, þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni, svo að vettvangsrannsókn geti farið fram.

Öll slys skulu auk þess tilkynnt Vinnueftirlitinu skriflega innan viku með rafrænni tilkynningu á mínum síðum Vinnueftirlitsins, https://minarsidur.ver.is .

Tilkynna vinnuslys rafrænt


Með vinnuslysi er átt við skyndilegan, óvæntan atburð í tengslum við vinnu sem veldur áverkum, heilsutjóni eða dauða eins eða fleiri einstaklinga. Með orðinu vinnuslys er hér ennfremur átt við slys á borgurum sem slasast í tengslum við starfsemi eða búnað sem Vinnueftirlitið hefur eftirlit með, s.s. í skíðalyftum, rennistigum o.fl.

Með langvinnu eða varanlegu heilsutjóni er m.a. átt við tilvik þar sem hinn slasaði missir útlim eða hluta af útlim, beinbrotnar, fer úr lið, fær meiriháttar sár, missir meðvitund, hlýtur skemmdir á taugavef, verður fyrir alvarlegu augnslysi, innvortis meiðslum eða eitrun.

Vinnueftirlitið, þeir aðilar sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja (sbr. 46/1980, 4.–6. gr.), öryggistrúnaðarmenn, öryggisverðir og viðurkenndir þjónustuaðilar sem vinna fyrir atvinnurekanda (46/1980, 66. gr. a) skulu hafa aðgang að slysa- og óhappaskrá vinnustaða. Atvinnurekandi, og þeir aðilar sem taldir eru upp hér að framan, skulu fara með persónuupplýsingar úr slysa- og óhappaskrá sem trúnaðarmál.

Hægt er að fara á tölfræðivef vinnuslysaskrárinnar en þar má fá upplýsingar um staðtölur vinnuslysa beint úr slysagrunninum. ATH. Vinsamlegast athugið að sá vefur er eingöngu með gögn út árið 2019.

Tilkynning atvinnusjúkdóms eða atvinnutengds sjúkdóms

Læknir sem kemst að því eða fær grun um að starfsmaður eða hópur starfsmanna hafi atvinnusjúkdóm, atvinnutengdan sjúkdóm eða hafi orðið fyrir öðrum skaðlegum áhrifum vegna starfa sinna, skal án ástæðulausrar tafar tilkynna það til Vinnueftirlitsins.

Hægt er að senda inn tilkynningar í gegnum Sögu kerfið, númer rafræns eyðublaðs er 225.

Úr Vinnuverndarlögunum nr. 46/1980

79. grein

Atvinnurekandi skal án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings. 

Atvinnurekandi skal innan viku tilkynna skriflega um slysið til Vinnueftirlits ríkisins. Þeir aðilar sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja, sbr. 4.–6. gr., og þjónustuaðili, sbr. 66. gr. a, skulu fá afhent afrit af tilkynningunni. 

Læknir, sem kemst að því eða fær grun um að starfsmaður eða hópur starfsmanna hafi atvinnusjúkdóm, atvinnutengdan sjúkdóm eða hafi orðið fyrir öðrum skaðlegum áhrifum vegna starfa sinna, skal án ástæðulausrar tafar tilkynna það til Vinnueftirlits ríkisins. 

Sjúkratryggingastofnunin skal senda Vinnueftirliti ríkisins afrit af tilkynningum um slys á vinnustöðum sem henni berast. 

Ráðherra setur nánari reglur um tilkynningu slysa að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.