Markaðseftirlit

Framleiðendur og innflytjendur persónuhlífa bera ábyrgð á því að varan uppfylli grunnkröfur um heilsu og öryggi eins og þeim er lýst í reglum nr. 501/1994 um gerð persónuhlífa.   Það er ekki fyrr en varan er komin á markaðinn að eftirlit er framkvæmt af stjórnvöldum.   Íslensk stjórnvöld sem annast markaðseftirlit með persónuhlífum eru:

  • Vinnueftirlitið (persónuhlífar til atvinnunota)
  • Neytendastofa (persónuhlífar til einkanota)
Svo dæmi sé tekið er kannað hvort varan sé CE-merkt og hvort henni fylgi íslenskar leiðbeiningar. Í sumum tilvikum telst ástæða til að kalla eftir samræmisyfirlýsingu.   Til hagræðis fyrir framleiðendur og innflytjendur er hægt að notast við gátlista um CE merkingar og aðrar merkingar persónuhlífa til að athuga hvort varan uppfylli þær kröfur sem þarf til að markaðssetja hana.   Til að CE-merkið öðlist þann sess, sem því er ætlað, þarf að vera möguleiki á að grípa til viðeigandi ráðstafana í þeim tilvikum sem reglum er ekki fylgt.   Verði aðildarríki þess áskynja að persónuhlíf, merkt CE-merkinu, sé ekki notuð eins og til er ætlast og/eða að hún uppfylli ekki grunnkröfur um heilsu og öryggi skal það gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að taka búnaðinn af markaðinum og banna markaðssetningu eða frjálsan flutning hans.

Úrræði stjórnvalda:

Vinnueftirlitinu er heimilt að banna markaðssetningu persónuhlífa sem uppfylla ekki ákvæði reglnanna. Eins getur Vinnueftirlitið farið fram á afturköllun persónuhlífa teljist þær sérstaklega hættulegar. Framleiðandi eða fulltrúi hans innan Evrópska efnahagssvæðisins ber allan kostnað af slíkri afturköllun.   Brot á reglunum varða sektum.