CE merking vöru

Ferli-CE-merkinga
 
  1. Þegar framleiðandi ætlar sér að markaðssetja tiltekna vöru á evrópumarkaði þarf hann í fyrsta lagi að skilgreina til hverra nota varan er og um leið að skilgreina undir hvaða tilskipun hún fellur.
  2. Persónuhlífar falla undir nýaðferðartilskipun 89/686/EBE og þá þarf að greina grunnkröfur tilskipunarinnar fyrir vöruna. Það er hægt að gera með stuðningi viðeigandi staðals enda er notkun staðla yfirleitt til hægðarauka.
  3. Varan fellur síðan í ákveðinn flokk sem í tilfelli persónuhlífa veltur á eðli þeirrar áhættu sem þeim er ætlað að veita vörn fyrir. Flokkun persónuhlífarinnar ákvarðar síðan viðeigandi ferli fyrir mat á samræmi.
  4. Mat á samræmi getur verið gert af framleiðanda vörunnar fyrir einfalda persónuhlíf. Fyrir persónuhlíf sem telst vera flókin eða hvorki einföld né flókin þá þarf aðkomu samþykkts aðila til að meta samræmi eftir viðeigandi ferli.
  5. Að loknu mati á samræmi vöru þarf að taka saman tæknileg gögn sem snúa að matinu. Tæknileg gögn eru m.a. nákvæm lýsing vörunnar, teikningar, útreikningar og niðurstöður prófana, lýsing á eftirliti og prófunarbúnaði, eintak af notkunarleiðbeiningum svo eitthvað sé talið. Þetta er nánar tíundað í viðauka II við reglur nr. 501/1994 um gerð persónuhlífa.
  6. Að öllu þessu loknu getur framleiðandi útbúið og gefið út samræmisyfirlýsingu fyrir vöruna, merkt vöruna með CE-merkinu og síðan sett hana á markað.