Persónuhlífar

Persónuhlífar til atvinnunota og til einkanota falla undir reglur og reglugerðir sem byggja á tilskipun Evrópusambandsins nr. 686/89/EB um samræmingu laga aðildarríkjanna um persónuhlífar.

Megininntak tilskipunarinnar er að:

  • persónuhlífar skulu uppfylla grunnkröfur um heilsu og öryggi eins og þeim er lýst í tilskipuninni/reglunum
  • persónuhlífar skulu vera CE-merktar
  • persónuhlífum skulu fylgja leiðbeiningar á íslensku
  • framleiðendur eða fulltrúar þeirra innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) skulu gefa út samræmisyfirlýsingu fyrir sérhverja tegund persónuhlífa sem sett er á markað
Í bæklingi til kaupenda persónuhlífa, sem Vinnueftirlitið hefur gefið út í samvinnu við Löggildingarstofu (nú; Neytendastofa), eru upplýsingar fyrir kaupendur persónuhlífa, bæði atvinnurekendur og aðra neytendur.

Yfirlit

Persónuhlíf er hvers konar búnaður eða tæki sem einstaklingar klæðast eða halda á sér til verndar gegn hættu eða hættum er ógna heilsu eða öryggi þeirra.
Vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) gengu í gildi m.a. reglur nr. 501/1994 um gerð persónuhlífa og eftirlit með þeim. Reglurnar byggja á tilskipun Evrópusambandsins nr. 89/686/EB um samræmingu laga aðildarríkjanna um persónuhlífar. Með gildistöku þessara reglna breytist m.a. eftirlit með persónuhlífum. Ekki þarf lengur að leita viðurkenningar Vinnueftirlitsins á búnaðinum. Í stað þess verður hlutverk stofnunarinnar að hafa eftirlit með vörunni á markaðnum og kanna hvort framleiðendur og/eða innflytjendur uppfylli skyldur sínar sem reglurnar leggja þeim á herðar þannig að varan uppfylli gerðar kröfur.
Tilskipun nr. 89/686/EB um persónuhlífar tilheyrir svokölluðum "Nýaðferðartilskipunum". Tilgangur Nýju aðferðarinnar er að samræma grunnkröfur til að tryggja vernd borgaranna og jafnframt að tryggja frjálst flæði vörunnar innan EES.
Tilskipunin skilgreinir grunnkröfur sem gerðar eru til persónuhlífa varðandi heilsu og öryggi. Hún skilgreinir jafnframt aðferðir við mat á samræmi þar sem persónuhlífar, sem vernda gegn alvarlegri hættu, geta þurft að skoðast af svokölluðum Samþykktum aðilum (prófunarstofum). Tilskipunin er, eins og áður segir, “Nýaðferðartilskipun”. Framleiðendur eða fulltrúar þeirra innan EES þurfa að uppfylla tæknilegar kröfur tilskipunarinnar. Til þess geta þeir fylgt samræmdum Evrópustöðlum (EN-staðlar) sem skilgreina nánar hvað þarf til að uppfylla grunnkröfurnar um heilsu og öryggi.

Ítarefni