Nýaðferðin

Ábyrgð framleiðanda

Með tilkomu „nýaðferðarinnar“, sem samþykkt var hjá ESB árið 1985, var tryggt frjálst flæði þeirrar vöru sem fellur undir nýaðferðartilskipanir.

Þær vörur og þeir vöruflokkar sem falla undir nýaðferðartilskipanir Evrópusambandsins eiga að uppfylla lágmarkskröfur sem settar eru fram í viðeigandi tilskipunum um öryggi, heilsu og umhverfi.

Ekki er skilyrði að framleiðandi fylgi samhæfðum stöðlum en séu kröfur viðeigandi staðals uppfylltar þá eru kröfur nýaðferðartilskipunarinnar uppfylltar um leið. Framleiðandi ber ábyrgð á því að varan uppfylli kröfur nýaðferðartilskipunar og getur í framhaldinu staðfest það með samræmisyfirlýsing og síðan að CE-merkja vöruna. Þar með er vörunni frjálst að fara um markaðssvæði EES landa. CE-merkinu hefur því oft verið líkt við vegabréf vöru. CE-merkið er ekki gæðavottorð um að vara sé sérstaklega vönduð eða örugg. Merkið staðfestir eingöngu að varan uppfylli lágmarkskilyrði viðkomandi nýaðferðartilskipunar ESB.

Nýaðferðatilskipanirnar kveða skýrt á ábyrgð framleiðenda. Það er ávallt framleiðandi/innflytjandi sem er ábyrgur fyrir öryggi vöru. Í sumum tilfellum er nægilegt að framleiðandi/innflytjandi staðfesti/votti að varan sé í samræmi við viðeigandi kröfur (t.d. einfaldar persónhlífar eins og garðhanskar). Ef persónuhlíf er ætlað að varna gegn áverkum vegna slysa þá er gerð krafa um að varan sé prófuð af samþykktum aðila (t.d. flóknar persónuhlífar).

Meginreglan um að vörur sem uppfylla gerðar kröfur megi ferðast frjálst yfir landamæri gengur út frá því að fyrir hendi sé virkt og öflugt markaðseftirlit, en í öllum nýaðferðatilskipunum er ákvæði um eftirlit á markaði með öryggi vöru. Hér á landi er eftirlit með öryggi vöru (sem falla undir ólíkar nýaðferðatilskipanir) í höndum mismunandi eftirlitsstofnana. Hvað varðar persónuhlífar þá er markaðseftirlitið á hendi Vinnueftirlitsins fyrir persónuhlífar til atvinnunota og hjá Neytendastofu fyrir persónuhlífar til einkanota.

Það eru einungis þær vörur sem falla undir tilgreindar nýaðferðatilskipanir sem hafa að geyma ákvæði um CE-merkið. Aðrar vörur þarf ekki að CE-merkja. Alls hafa verið samþykktar 22 nýaðferðatilskipanir og þar ef er ein sem fjallar um persónuhlífar, tilskipun nr. 89/686/ESB

  • Gagnlegar upplýsingar (á ensku) um nýaðferðatilskipanir má finna hér.
  • Lista yfir nýaðferðastaðla persónuhlífa er hægt að sjá hér.