Inniloft

Inniloft hefur ætíð veruleg áhrif á starfsumhverfið þar sem unnin eru skrifstofu- og stjórnunarstörf.
Algengustu kvartanir vegna óþæginda í starfsumhverfi tengjast innilofti. Þessi óþægindi má oft rekja til þess hvernig húsnæðið er byggt og innréttað t.d. geta atriði eins og byggingarefni, húsagerð (t.d. stærð og dýpt rýmis), gerð og staðsetning glugga, viðhald og gerð loftræstikerfa skipt umtalsverðu máli.
 
Fersku lofti þarf jafnan að veita inn í vinnurými. Góð loftræsting kemur í veg fyrir að inniloft verði starfsfólki til ama. Æskilegt er að um 15 –20 m3 af fersku lofti berist hverjum starfsmanni á klukkustund 

Ákvæði í lögum og reglum

Í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, eru meðal annars ákvæði um vinnustaði. Í 93. gr. laganna segir: 
„Sérhver, sem ætlar að hefja rekstur fyrirtækis eða breyta eldra fyrirtæki, skal leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins um það, hvort hin fyrirhugaða starfsemi sé í samræmi við lög þessi og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Í því skyni skal hann láta stofnuninni í té sundurliðaða greinargerð með nægilegum uppdráttum yfir húsakynni og fyrirkomulag véla, tækja og annars búnaðar...“
Með heimild í vinnuverndarlögunum hafa verið settar reglur um húsnæði vinnustaða og eru þar ítarlegri ákvæði en í lögunum um vinnuhúsnæði, mat- og kaffi- stofur o.fl. Í reglunum er m.a. fjallað um loftrými, hitun, loftræstingu, hreinsun lofthreinsibúnaðar og kröfur um glugga og dagsbirtu. 

Lofthiti

Til þess að starfsmönnum finnist hitastig vera við hæfi þarf að vera samræmi á milli lofthita, áreynslu og klæðnaðar. Kyrrsetustörf gera meiri kröfur en önnur störf til þess að lofthiti sé við hæfi vegna þess að í kyrrsetu er fólk næmara fyrir hitabreytingum. Skilyrði þess að fólki finnist hitastig innilofts við hæfi er að jafnvægi sé milli hitans sem myndast í líkamanum og hitans sem hann gefur frá sér. 
 
Líkaminn gefur hita fá sér:
 
 • með hitastreymi frá húð og fatnaði til kaldara lofts í umhverfinu, • með útgeislun frá húð og fatnaði á kaldari fleti í umhverfi,
 • með uppgufun á vatni frá húð,
 • með uppgufun á vatni við öndun.
Hitinn, sem líkaminn gefur frá sér, er því háður: 
 
 • húðhitanum
 • lofthitanum
 • hita á flötum í umhverfinu
 • hreyfingu á lofti
 • rakanum í loftinu
 • fatnaðinum
Hitaframleiðsla líkamans er háð líkamlegri áreynslu. Í erfiðisvinnu er hún u.þ.b. þrefalt meiri en í léttri vinnu

Hitastig

Breytingar á hitastigi loftsins er yfirleitt það fyrsta sem menn taka eftir. Sé of kalt í vinnurými bregst líkaminn við með því að auka vöðvaspennuna. Við það aukast efnaskiptin og líkamshitinn helst stöðugur. Erfiðara verður að hreyfa fingurna, vinnuhraði minnkar og hætta á mistökum eykst. 
 
Verði of heitt í vinnurými slaknar á vöðvunum og svitamyndun eykst. Strax þegar hitinn er nokkrum gráðum yfir því sem þykir þægilegt færist drungi yfir marga. Þar með dregur bæði úr andlegri og líkamlegri færni. Líkur á mistökum aukast, það gætir nokkurrar vanlíðunar og ef til vill höfuðverkjar. Hár hiti getur auk þess haft slæm áhrif á aðra þætti, t.d. finnst fólki loftið vera verra þegar hitinn er hár. 

Réttur hiti

Í reglum um húsnæði vinnustaða segir svo í 9. gr.:
„Þar sem kyrrsetustörf eru unnin má telja hæfilegt hitastig 18°–22°C, en við kyrrstöðu 16°–18°C nema annars sé krafist vegna framleiðslunnar.“ 
Flestum finnst þægilegast ef hitastigið er 20–22°C við kyrrsetustörf. 
 
Vert er að athuga að fólki finnst óþægilegt ef hitabreytingar yfir daginn verða meiri en 4°C. Hitabreytingar geta orðið meiri þar sem mikið er um rafknúinn búnað og ekki notaðar sólhlífar

Kaldir fletir

Sums staðar í vinnurými verður óþægilega kalt, t.d. þar sem útveggir eru illa einangraðir, við glugga og við dyr. Óráðlegt er að hafa vinnusvæði úti við stóra glugga. Jafnvel þótt sólhlífar séu notaðar getur þar orðið óþægilega heitt. Á veturna geta kaldar rúður valdið því að kalt loft leiti niður á við og valdi dragsúg og fótkulda. 
 
Sé ekki unnt að komast hjá því að hafa vinnusvæði við glugga eða útgöngudyr ætti að gera ráðstafanir sem draga úr óþægindum sem staðsetningin getur valdið: 
 
 • Upphitun miðist við að eyða áhrifum frá kuldageislun og koma í veg fyrir dragsúg og fótkulda. Í þessu skyni skal ofnum komið fyrir undir gluggum.
 • Skjólveggir eða viðbygging við útgöngudyr dregur úr innstreymi kalds lofts, ekki síst ef hituðu lofti er veitt þangað.

Dragsúgur

 • Ástæðan fyrir að dragsúgur verði til óþæginda er samspil hita og hreyfingar á lofti.
 • Hreyfing á lofti er þá meiri en u.þ.b. 0,15 m/sek. við kyrrsetustarf.
 • Loftið, sem er á hreyfingu, er kaldara en loftið í herberginu. Þetta gildir líka um hæga loftstrauma.
 • Kuldageislun. (Frá fólki berst nokkur hiti á kaldari fleti. Verði hann verulegur finnst fólki það vera í dragsúg enda þótt ekki sé merkjanleg hreyfing á lofti).
Dragsúgur hefur einkum áhrif á þá sem vinna kyrrsetustörf. Með tímanum getur dragsúgur valdið óþægindum í vöðvum, bjúg og vöðvagigt. Auk þess eykur stöðug kæling húðarinnar hættu á smitsjúkdómum. Margt getur valdið dragsúg, þ. á m.:
 
 • Óþéttir gluggar og dyr og illa einangraðir veggir,
 • opnir gluggar og dyr og loftræsikerfi sem kunna að vera rangt hönnuð eða ekki stillt sem skyldi (sjá nánar kafla um loftræstingu),
 • tæki, t.d. öflugar tölvur, sem kunna að gefa frá sér það mikinn hita að það lokast fyrir ofna undir gluggum. Þá verður kalt við gluggana og það virkar svipað og dragsúgur,
 • kalt loft sem streymir niður á við.
Til margra góðra ráða er unnt að grípa í því skyni að koma í veg fyrir dragsúg;
 
 • þétta dyr og glugga,
 • einangra útveggi,
 • koma upphitun fyrir undir gluggum,
 • hafa vinnustöðvar ekki nálægt köldum flötum, s.s. stórum gluggum og inngangi,
 • setja upp viðbyggingu eða skjólvegg við inngang,
 • hafa ekki tæki, sem gefa frá sér hita, í of þröngu rými,
 • stilla loftræstikerfi og halda þeim vel við,
 • setja upp hlífar og beina hitastreyminu til starfsmanna,
 • sé húsnæði breytt er athugandi að skipta stóru rými upp,
 • sé byggt nýtt húsnæði er hægt að haga svo til að vinnuherbergi séu ekki mjög stór því auðveldara er að hafa stjórn á loftinu í litlum herbergjum.

Loftraki

Með loftraka er átt við hlutfallslegt magn af vatnsgufu í andrúmsloftinu. Hann er mældur og gefinn upp sem hundraðshluti þess rakamagns sem getur verið í loftinu við tiltekið hitastig. Hækki hitastig getur loftið geymt meiri vatnsgufu. Í köldu lofti er næstum engin vatnsgufa. Þess vegna mælist rakastig lágt innandyra á veturna. Kalt loft berst inn og er hitað upp, sé raka (vatnsgufu) ekki bætt í það lækkar rakastig loftsins.
 
Að jafnaði veldur loftraki ekki óþægindum. Þó getur lítill loftraki valdið ertingu í augum, á vörum og í öndunarfærum, einkum ef loftið er of heitt og/eða ryk er í því. Auk þess eykur lítill loftraki myndun stöðurafmagns. 
 
Mikill loftraki getur orðið til þess að rakablettir myndist á veggjum, í loftum og á gluggakörmum. Það eykur hættu á óþægindum vegan ofnæmis. 
 
Loftraki getur sveiflast yfir árið frá u.þ.b. 20% á veturna til allt að 60% að sumarlagi. Venjulega finnur fólk ekki fyrir rakabreytingum ef hitinn er á bilinu 20–22°C. En sé hitinn kominn yfir 24°C finnst fólki loftið þungt og þvingandi ef loftrakinn er 50% eða meiri á sama tíma. 
 
Ekki hafa verið settar reglur um rakastig á vinnustöðum. Með hækkandi hitastigi og auknu álagi við vinnu aukast áhrif loftrakans á líðan starfsmanns. Því meiri sem loftrakinn er því hærri virðist hitinn vera. Sé loftið hreint gætir ekki mikilla óþæginda, s.s. frá þurri slímhimnu, enda þótt loftrakinn verði mjög lítill. En sé mikið ryk í loftinu kann það að virðast þurrt, jafnvel þegar rakinn er innan venjulegra marka. 
 
Þar sem rakatæki eru notuð þarf að gæta ítrasta hreinlætis, þrífa þau rækilega svoað frá þeim berist ekki sýklar og sveppagróður

Mælingar á innilofti

Við mælingar á innilofti er leitast við að meta allt sem varðar hitastig og áhrif þess. Það er ýmsum vandkvæðum bundið að mæla þetta. Það getur gefið villandi niðurstöðu að mæla aðeins einstaka þætti, s.s. hitastig, því að það segir lítið um heildaráhrifin. Það er t.d. háð lofthraða, loftraka og því, sem unnið er með, hvort fólki finnst hitastig við hæfi. 
 
Sannkallaða úttekt á innilofti verða sérfræðingar að annast. Slík úttekt getur oft verið kostnaðarsöm og ekki er víst að niðurstöðurnar leiði margt í ljós sem ekki var áður kunnugt. Segja má að manneskjan sjálf sé besti „skynjarinn“ til að meta hvort eitthvað sé athugavert við inniloftið. 
 
Vilji menn reyna að komast hjá meiri háttar útgjöldum við inniloftsúttekt er ráðlegt að gera forathugun. Hún gæti beinst að því að kanna hvernig starfsmenn upplifa loftið innandyra og hvað gæti valdið óþæginum sem þeir kunna að kvarta yfir. Áður en sérfræðingar eru kallaðir til ber að kanna eftirfarandi atriði:
 
 • Hvernig háttar til um hitann?
 • Er rýmið laust við dragsúg?
 • Hversu vel er þrifið?
 • Hversu vel virkar loftræstingin? 
 • Er rými nægilegt?
 • Herbergjastærð.
 • Fylgir mismikil líkamleg áreynsla störfum?
 • Að hvaða marki er unnt að hafa stjórn á áhrifum innilofts þaðan sem verið er að vinna?
Þetta eru helstu atriðin sem öryggisverðir, öryggistrúnaðarmenn og starfsmenn yfirleitt geta lagt mat á sjálfir. 
 
Það sem talið er hér á eftir gæti komið til athugunar með sérfræðiaðstoð. Eftirfarandi loftslagsþættir koma alltaf til skoðunar þegar rækileg athugun á innilofti er gerð:
 
 • lofthiti
 • hitageislun
 • lofthraði
 • loftraki
Mikilvægt er að mælitæki séu notuð í samræmi við fyrirmæli þar um og séu rétt stillt. Staðurinn, sem mælt er á, hæð frá gólfi og tími dags hafa mikil áhrif á niðurstöðurnar. Einnig þarf að hafa útiloft á þeim tíma, sem mælt er, með í myndinni.
 
Staðsetning byggingar hefur sín áhrif á inniloft í henni. Séu miklar umferðargötur í nánd getur verið að ekki sé loftræst sem skyldi. Bæði kann það að stafa af mengun frá útblæstri og af ónæði sem umferðarhávaðinn veldur. Í byggingum á slíkum stöðum skal inntaki fyrir vélræna loftræstingu komið fyrir í sem mestri hæð til þess að koma í veg fyrir vandamál í tengslum við inniloft. 
 
Erlendis hafa komið upp vandamál varðandi inniloft vegna mengunar í jarðvegi þar sem byggingar hafa verið reistar en ekki er kunnugt um slík tilvik hér á landi. Æskilegt er engu að síður að byggja jafnan á sem bestum upplýsingum um hvað gerst hefur á viðkomandi lóð áður hún er tekin í notkun. 
 
Áhrif að utan ásamt flötum þökum eða slæmu viðhaldi á útveggjum getur skapað rakavandamál og upp getur komið sveppa- og myglugróður. Það getur orðið ónæmisvaki og valdið öðrum óþægindum hjá þeim sem við þetta búa. 

Ítarefni