Hávaðamælingar

Mælingar á vinnustaðahávaða

Vinnueftirlitið býr yfir tækjum til að gera ítarlegar mælingar á vinnustaðahávaða og hávaðaálagi starfsmanna.
Helstu mælingar sem Vinnueftirlitið framkvæmir eru:

Skammtamælingar

Skammtamælar eru þannig að starfsmenn bera þá á sér yfir vinnudaginn, eða hluta úr vinnudegi. Hljóðnema er þá komið fyrir sem næst eyra. Niðurstöður þessara mælinga gefa mjög glögga mynd af hávaðaálagi viðkomandi starfsmanns. Þ.e.a.s. jafngildishávaða m.v. 8 stunda vinnudag, hávaðatoppa og jafnvel bakgrunnshávaða.

Staðbundnar mælingar

Staðbundnar mælingar eru gerðar við tiltekinn hávaðavald eða á tiltekinni vinnustöð starfsmanns. Yfirleitt eru þessar mælingar stuttar. Mælirinn fylgir ekki starfsmanni en hafi starfsmaður fasta vinnustöð allan daginn og hávaði er tiltölulega jafn þá getur staðbundin mæling sagt ágætlega til um hávaðaálag starfsmannsins.

Tíðnigreiningar

Tíðnigreiningar eru í raun staðbundnar mælingar en eins og nafnið bendir til þá er um leið verið að mæla hávaðann á mismunandi tíðnibilum. Þessar mælingar eru gerðar til að átta sig á hvort um er að ræða hátíðni- eða lágtíðnihljóð. Oftast nær í þeim tilgangi að leita hentugra lausna, vegna þess að það duga ekki alltaf sömu lausnirnar gagnvart lágtíðnihávaða og hátíðnihávaða.

Ómtímamælingar

Ómtími er mælikvarði á bergmál. Eftir því sem bergmálið er meira því lengri er ómtíminn. Bergmál er í raun endurkast hljóðs og af því leiðir að hávaðinn magnast við aukið bergmál og hljóðvistin versnar.  Ómtímamælingar eru því gerðar til að meta hljóðvistina og gefa forsendur fyrir útreikningum vegna endurbóta.