Þegar leitað er lausna

Best er að draga úr hávaða við upptök

Eftir því sem lausn á hávaðavandamáli finnst nær hávaðavaldinum því betri telst hún vera. Þess vegna er besta lausnin að koma í veg fyrir að hávaðinn myndist. Síðan vinnur maður sig frá hávaðavaldinum í átt að þolandanum.

 1. Við upptök
 2. Yfirbygging hávaðavalds
 3. Skilveggir
 4. Draga úr ómtíma - minnka bergmál
 5. Stytta veru starfsmanna í hávaða (skipulag vinnunnar)
 6. Heyrnarhlífar 
  (heyrnarhlífar eru neyðarúrræði sem notast er við á meðan leitað er annarra lausna)

Heyrnarhlífar

Leiðbeiningar um notkun heyrnarhlífa

Til eru tvenns konar gerðir heyrnarhlífa:

 • Eyrnatappar, sem komið er fyrir í hlust eyrans
 • Heyrnarhlífar, sem umlykja eyrað

1.  Notkun heyrnarhlífa

Um leið og vinna sem valdið getur heyrnartjóni hefst, er atvinnurekandi eða fulltrúi hans, skyldugur til að sjá til þess að starfsmenn noti heyrnarhlífar. Það þýðir að jafnvel vinna í hávaða sem er innan við 85 dB(A) getur krafist notkunar heyrnarhlífa.

Heyrnarhlífar eru ekki varanleg lausn á hávaðavandamáli. Leitast skal við að dempa hávaða við upptök hans.

Ef, í vissum tilvikum, á tæknilegan eða stjórnunarlegan hátt, er ekki hægt að lækka hávaðaáraun starfsmanna niður fyrir 85 dB(A) mörkin, þá skal atvinnurekandi eða fulltrúi hans aðeins leyfa framkvæmd verksins ef notaðar eru heyrnarhlífar.

Ef hávaðaáraun starfsmanna er meiri en 80 dB(A) eða hávaðinn er skaðlegur eða verulega truflandi þá skal atvinnurekandi leggja starfsmönnum til heyrnarhlífar. Það getur verið í tilfellum eins og þar sem mjög hávaðasöm vinna er framkvæmd í stuttan tíma eða þar sem eru kröftug slaghljóð. Starfsmenn skulu fá heyrnarhlífar í slíkum tilfellum þrátt fyrir að hávaðaáraunin sé innan við 80 dB(A).

Þar sem hávaðaáraun starfsmanna fer yfir 80 dB(A) ættu starfsmenn að nota heyrnarhlífar. Að öðrum kosti eiga þeir á hættu að skaða heyrnina.

Heyrnarhlífar geta gert starfsmönnum erfitt um vik að tala saman og þannig einangrað þá frá umhverfinu. Það þarf að hafa í huga svo fyrirbyggja megi alla hugsanlega hættu vegna þess. Heyrnarhlífar sem dempa hávaðann mikið meira en þörf er á geta þannig einangrað notandann og aukið hættuna.

Atvinnurekandinn skal sjá til þess að:

 • Starfsmenn fá heyrnarhlífar við hæfi, sem valda ekki óþægindum.
 • Starfsmenn fái leiðbeiningar um notkun heyrnarhlífanna og upplýsingar um hættuna af því að nota þær ekki. Leiðbeiningarnar eiga að snúa að notkun/hagræðingu, þrifum og geymslu heyrnarhlífanna.
 • Heyrnarhlífunum sé rétt viðhaldið.

Atvinnurekandi leggur til og greiðir fyrir heyrnarhlífarnar og þær eru eign atvinnurekanda. Heyrnarhlífarnar er eftir sem áður til einstaklingsnota og skulu ekki notast af fleiri aðilum.

Heyrnarhlífar geta valdið óþægindum svo sem hita, þrýstingi, ertingu í húð og útbrotum. Óþægindin geta verið einstaklingsbundin. Þess vegna er mikilvægt að starfsmenn hafi kost á mismunandi gerðum heyrnarhlífa og geti þannig valið heyrnarhlífar sem valda sem minnstum óþægindum.

Starfsmaður er skyldugur til að nota heyrnarhlífar sé vinnunni þannig háttað að hún krefjist þess.

2. Notkunarleiðbeiningar og merkingar

Seljandi skal láta notkunarleiðbeiningar á íslensku fylgja hverri seldri heyrnarhlíf þar sem eru m.a. nauðsynlegar upplýsingar um dempun hlífanna, notkun/hagræðingu, viðhald og geymslu.

Heyrnarhlífar eiga að vera CE-merktar. Mat tilkynnts aðila á dempun heyrnarhlífanna er eitt af skilyrðum þess að merkja megi heyrnarhlífarnar CE-merkinu. Sérhverjum heyrnarhlífum eiga að fylgja dempunargildi þeirra, t.d. á pakkningunni. Dempunargildin eru mæld við kjöraðstæður og eru því alla jafnan eitthvað hærri en búast má við að heyrnarhlífarnar dempi í raun.

Dempunina á bæði að gefa upp fyrir einstök tíðnibil sem HML-gildi og sem stakt gildi sem spannar öll tíðnibil. Þannig getur neytandinn valið sér heyrnarhlífar úr hópi þeirra hlífa sem dempa hávaðann nægilega mikið fyrir hans aðstæður. HML-gildi lýsa dempuninni, eftir því sem við á, fyrir hátíðni- (H), millitíðni- (M) og lágtíðnisvið (L).

3. Merkingar

Atvinnurekanda er skylt að merkja þau svæði þar sem skylt er að nota heyrnarhlífar með boðskilti sem á er heyrnarhlífatákn. Merkið er hringur með hvíta táknmynd á bláum grunni.

Persónuhlífar heyrnarhlífar

4. Vörn

Með réttri og markvissri notkun heyrnarhlífa má gróflega reikna með eftirfarandi lækkun hávaðaáraunar:

 • Með eyrnatöppum: 10-20 dB.
 • Með heyrnarhlífum: 20-30 dB.

Lækkunin næst aðeins:

 • ef heyrnarhlífarnar eru notaðar allan tímann sem verið er í hávaða. Vernd hlífanna minnkar verulega jafnvel þó það sé aðeins stuttur tími sem þær eru teknar af í hávaða.
 • ef heyrnarhlífarnar eru notaðar rétt. Eyrnatapparnir þurfa að falla vel í hlustirnar og heyrnarhlífarnar þurfa að umlykja eyrun vel.

5. Gerðir heyrnarhlífa

Heyrnarhlífar

Einangrun heyrnarhlífa er jafn mismunandi og þær eru margar. Munurinn er ekki síst hvað varðar lágtíðnihávaða. Stórar og þungar heyrnarhlífar eru líklegri til að einangra lágtíðnihávaða vel.

Rafrænar heyrnarhlífar eru oftast heyrnarhlífar með hljóðnemum að utan og hátölurum að innan. Hljóðinu sem berst að hljóðnemanum er þá skilað í hátalarann innan í hlífunum. Rafeindabúnaðurinn í heyrnarhlífinni deyfir hæstu hljóðin en lægri hljóðum er skilað óbreyttum í hátalarana. 

Eyrnatappar

Dúntappar eru notaðir við tilfallandi og lítinn hávaða. Einangrun þeirra er lítil.

Töppum úr svampi er þrýst saman áður en þeim er komið fyrir í hlustinni þar sem þeir þenjast síðan út. Ef þeim er rétt komið fyrir í eyranu þá veita þeir góða einangrun.

Formaðir tappar eru með mjúkar blöðkur sem þrýstast út í hlustina. Einangrun þeirra er yfirleitt á milli þess sem dúntappar einangra og einangrunar góðra tappa úr svampi.

Hægt er að fá eyrnatappa sem formaðir eru eftir hlust viðkomandi einstaklings. Slíka tappa er einnig hægt að fá með mismunandi ventlum sem gefa mismunandi einangrun eftir því hvað hentar aðstæðum hverju sinni.

Hægt er að fá eyrnatappa sem fastir eru á spöng. Sumar gerðir þeirra leggjast aðeins að jaðri hlustarinnar og einangra því lítið hávaðann. Aðrar gerðir eru keilulaga og hægt að þjappa þeim saman áður en þeim er komið fyrir í hlustinni.

6. Geymsla og viðhald

Heyrnarhlífar þurfa að henta þeim einstaklingi sem notar þær.

Heyrnarhlífar þarf að meðhöndla og þeim þarf að viðhalda á þann hátt að einangrunargildi þeirra haldist.

Þéttihringi á heyrnarhlífum þarf að skoða reglulega. Séu þeir farnir að skemmast eða harðna þá þarf að endurnýja þá.

Dúntappa sem og aðra einnota tappa á aðeins að nota í eitt skipti.

Eyrnatappa úr t.d. plasti, gúmmíi  sem og þéttihringi á heyrnarhlífum þarf að þrífa reglulega (oft daglega) eftir þeim aðferðum sem lýst er í notkunarleiðbeiningunum.

Þegar ekki er verið að nota heyrnarhlífarnar skulu þær geymdar á þann hátt að þær verði ekki fyrir hnjaski, óhreinkist ekki eða rykfalli.