Titringur

Markmið reglugerðar nr. 922/2006 um varnir gegn álagi vegna vélræns titrings á vinnustöðum er að tryggja öryggi og vernda heilsu starfsmanna sem eiga á hættu eða kunna að eiga á hættu að verða fyrir álagi vegna vélræns titrings við störf sín.   Titringur getur valdið bæði óþægindum og varanlegum skaða. 

Hvað er titringur?

Titringur er færsla hlutar/efnis úr kyrrstöðu. Titringi er hægt að lýsa sem vegalengd, hraða og hröðun.  Algengast er að nota hröðun sem lýsingu á titringi og í dag eru flest viðmið í reglugerðum, svo dæmi sé tekið, í hröðunareiningum, m/s2. Titringur getur verið það sem kallað er;  
 •  skeiðtitringur, eða síendurtekin hreyfing (skapast t.d. af snúningi),
 •  tilviljanakenndur titringur (skapast t.d. af ferð eftir ójöfnu yfirborði)
 •  höggtitringur (skapast t.d. af hamarshöggi)
Í langflestum tilfellum er titringur og áhrif titrings óæskileg. Áhrifin og afleiðingarnar ráðast af útslagi, tíðni og tíma.  Þ.e.a.s. ef tilfærslan er mikil, ef hreyfingin er ör og ef titringurinn varir lengi þá verða áhrif og afleiðing meiri.   Titringi er skipt í annars vegar handar- og handleggstitring og hins vegar líkamstitring.  Ástæður og afleiðingar eru mismunandi eftir því hvort um er að ræða handar- og handleggstitring eða líkamstitring.

Handar- og handleggstitringur

Fyrir handar- og handleggstitring er ástæða til að vera vakandi fyrir einkennum sem geta verið:  
 • Seiðingur og doði í fingrum
 • Tilfinningaleysi í fingrum og höndum
 • Tapaður kraftur eða máttleysi í höndum
 • Fingurnir hvítna vegna titringsálags en í hvíld roðna þeir með verkjatilfinningu.
 • Erfiðleikar við fínhreyfingar
 • Óþægindi og verkir vegna kulda og raka
 • Skertur gripkraftur
Þessi áhrif eru líklegri í kulda og raka og í fyrstu líklega aðeins fremst í fingrunum.

Líkamstitringur

Fyrir líkamstitring er ástæða til að vera vakandi fyrir einkennum sem geta verið:  
 • Sjóntruflanir
 • Jafnvægistruflanir
 • Óþægindi tengd stoðkerfi líkamans
 • Verkir, streita, svefntruflanir
 • Skaði á innri líffærum
Ef unnið er viðvarandi í titringi geta áhrifin orðið varanleg.

Viðbrögð

Til að bregðast við titringi er hægt að beita ýmsum ráðum. Þar má nefna:  
 • Breyttar starfsaðferðir, þar sem menn verða síður fyrir vélrænum titringi,
 • Heppilegt val á vinnutækjum, sem eru vinnuvistfræðilega hönnuð og framkalla minnsta mögulegan titring m.t.t. verksins sem á að vinna,
 • Aukabúnaður, sem dregur úr áhættunni t.d. sæti sem draga verulega úr titringi í öllum líkamanum og handföng sem draga úr því að titringur færist yfir á hendur og handleggi,
 • Viðeigandi viðhaldsáætlanir fyrir vinnutæki, vinnustað þ.m.t. ökuleiðir og undirlag
 • Upplýsingar og þjálfun til að kenna starfsmönnum að nota vinnutæki rétt og örugglega og halda vélrænum titringi í lágmarki, einnig að skoða setstöðu og líkamsbeitingu og stillingar á sætum og jafnvel stjórntækjum.
 • Hæfilegur vinnutími með viðeigandi hvíldartímum, takmarka tímann sem starfsmenn verða fyrir titringi og draga úr titringi,
 • Hlífðarfatnaður m.a. til að verja fyrir titringi og fyrir kulda og raka.

Áhættumat

Áhættumat þarf m.a. að byggja á eftirtöldum þáttum:  
 • hve titringur er mikill, hvers eðlis hann er og hve lengi hann varir, þ.m.t. hvort um slitróttan titring eða endurtekin högg er að ræða,
 • viðmiðunarmörkum og viðbragðsmörkum fyrir titring sem mælt er fyrir um í 3. gr. reglugerðarinnar,
 • upplýsingum sem eru veittar af framleiðendum vinnutækja í samræmi við viðeigandi reglugerðir,
 • hvort fyrir hendi er búnaður til endurnýjunar, ætlaður til að draga úr skaðlegum áhrifum af vélrænum titringi,
 • hvort skaðlegra áhrifa af titringi í öllum líkamanum gæti áfram utan vinnutíma á ábyrgð vinnuveitandans,
 • sérstökum vinnuaðstæðum, s.s. lágu hitastigi,
 • viðeigandi upplýsingum frá heilsufarseftirliti eftir því sem unnt er, þ.m.t. upplýsingar sem hafa verið birtar.

Leiðbeiningar um framkvæmd reglugerðarinnar (á ensku)

Non-binding guide to good practice with a view to implementation of directive 2002/44/EC on the minimum health and safety requirements regarding the exposure of workers to the risks arising from physical agents (vibrations)