Rafsegulsvið

Efnisyfirlit:

Reglugerd um varnir gegn skaðlegum áhrifum rafsegulsviðs á vinnustöðum
   Markmið
   Skilgreining á rafsegulsviði
   Áhrif rafsegulsviðs
   Mengunarmörk og viðbragðsmörk
   Áhættumat
   Áætlun um heilsuvernd
Leiðbeiningar um góð vinnubrögð vegna vinnu í nálægð við rafsegulsvið
   1 - Kynning og tilgangur leiðbeininganna
   2 - Áhrif rafsegulsviðs á heilsu og öryggi
   3 - Uppsprettur rafsegulsviðs
Eftirlit og mæliþjónusta á rafsegulsviði
Ítarefni


Reglugerð um varnir gegn skaðlegum áhrifum rafsegulsviðs á vinnustöðum.

Reglugerð um varnir gegn skaðlegum áhrifum rafsegulsviðs á vinnustöðum, nr. 1051/2017, var sett til innleiðingar á tilskipun 2013/35/ESB um lágmarkskröfur um heilbrigði og öryggi að því er varðar áhættu starfsmanna vegna skaðlegra eðlisfræðilegra áhrifa rafsegulsviðs.

Markmið

Markmið reglugerðarinnar er að tryggja öryggi og vernda heilbrigði starfsmanna sem eiga á hættu eða kunna að eiga á hættu að verða fyrir skaðlegum áhrifum rafsegulsviðs við störf sín.

Reglugerðin gildir um:

 • hvers konar starfsemi þar sem starfsmenn eiga á hættu eða kunna að eiga á hættu að verða fyrir skaðlegum áhrifum rafsegulsviðs við störf sín
 • lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, gilda um, sbr. þó strangari ákvæði í sérlögum eða sérreglum
 • öll þekkt, bein og óbein, lífeðlisfræðileg áhrif rafsegulsviðs

Mikilvægt er að hafa í huga að þau mengunarmörk sem mælt er fyrir um í reglugerðinni ná einungis yfir vísindaleg viðurkennd sambönd beinna lífeðlisfræðilega skammtímaáhrifa og skaðlegra áhrifa rafsegulsviðs.

Reglugerðin gildir ekki um:

 • ætluð langtímaáhrif
 • áhættu vegna snertingar við straumleiðara

Skilgreining á rafsegulsviði:

Stöðurafsvið, stöðusegulsvið, rafsvið, segulsvið og rafsegulsvið með styrksveiflum og tíðni allt að 300 GHz (30 cm)

Áhrif rafsegulsviðs:

Bein lífeðlisfræðileg áhrif eru áhrif á mannslíkamann sem sannanlega eru af völdum nálægðar við rafsegulsvið þar með talið:

 1. varmaáhrif, til dæmis varmaaukning í vefjum vegna orkugleypni rafsegulsviðs í vefjunum
 2. varmalaus áhrif, svo sem örvun vöðva, tauga eða skynfæra. Áhrif af þessu tagi geta haft skaðleg áhrif á andlegt og líkamlegt heilbrigði starfsmanna sem verða fyrir þeim. Enn fremur getur örvun skynfæra leitt til skammvinnra einkenna, svo sem svima eða ljóshrifa, sem gætu valdið tímabundnum óþægindum, haft áhrif á hugsun eða aðra starfsemi heila eða vöðva og þar af leiðandi á getu starfsmanns til að vinna á öruggan hátt
 3. straumar í útlimum

Óbein áhrif eru áhrif hlutar innan rafsegulsviðs sem gæti sett öryggi og heilbrigði manna í hættu, til dæmis:

 1. truflun í rafrænum lækningabúnaði og -tækjum, þar með talið gangráðum og öðrum ígræddum tækjum eða lækningatækjum sem eru utaná eða inni í líkamanum
 2. kasthætta af völdum járnsegulhluta í stöðusegulsviði
 3. ræsing á rafrænum kveikibúnaði (hvellhettum)
 4. eldur og sprengingar þegar kviknar í eldfimum efnum út frá neistum af völdum spansvæða eða snertistrauma eða við neistaúrhleðslu
 5. snertistraumar

Mengunarmörk og viðbragðsmörk

Atvinnurekandi skal tryggja að skaðleg áhrif rafsegulsviðs sem starfsmenn verða fyrir takmarkist við mengunarmörk fyrir heilbrigði og mengunarmörk fyrir skynjanir skv. II. viðauka, að því er varðar varmalaus áhrif og skv. III. viðauka að því er varðar varmaáhrif. Atvinnurekandi skal sýna fram á að mengunarmörk fyrir heilbrigði og mengunarmörk fyrir skynjanir séu virt með því að beita viðeigandi aðferðum við mat á skaðlegum áhrifum skv. 5. gr. Ef skaðleg áhrif rafsegulsviðs sem starfsmenn verða fyrir fara yfir mengunarmörkin ber atvinnurekanda að grípa tafarlaust til aðgerða skv. 7. mgr. 6. gr.

Áhættumat

Þegar líkur eru á að starfsemi hafi í för með sér áhættu af völdum rafsegulsviðs skal atvinnurekandi meta áhrif rafsegulsviðsins sem starfsmenn verða fyrir á vinnustað og þar sem nauðsyn krefur, mæla eða reikna hve miklum skaðlegum áhrifum starfsmenn verða fyrir, sbr. einnig 65. gr. a gildandi laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og 27. gr. gildandi reglugerðar um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum.

Áhættumat skv. 1. mgr. skal byggjast á öllum tiltækum upplýsingum. Einkum skal taka tillit til:

 1. mengunarmarka fyrir heilbrigði, mengunarmarka fyrir skynjanir og viðbragðsmarka skv. 4. gr. og II. og III. viðauka reglugerðar þessarar
 2. tíðni, styrks, tímalengdar og tegundar skaðlegra áhrifa, þar með talið dreifingu um líkama starfsmannsins og um vinnurýmið
 3. allra beinna lífeðlisfræðilegra áhrifa
 4. allra áhrifa á heilsu og öryggi starfsmanna sem eru í sérstakri áhættu, einkum starfsmanna sem eru með virk eða óvirk ígrædd lækningatæki, svo sem gangráð, starfsmanna sem eru með lækningatæki á líkamanum, svo sem insúlíndælur, og þungaða starfsmenn
 5. allra óbeinna áhrifa
 6. hvort fyrir hendi er búnaður sem er hannaður til að draga úr skaðlegum áhrifum rafsegulsviðs og gæti komið í stað fyrri búnaðar
 7. viðeigandi upplýsinga sem fengist hafa í tengslum við heilsufarsskoðun skv. 9. gr.
 8. upplýsinga sem framleiðandi búnaðar veitir
 9. annarra viðeigandi upplýsinga hvað varðar heilbrigði og öryggi
 10. margvíslegra upptaka skaðlegra áhrifa
 11. skaðlegra áhrifa frá mörgum tíðnisviðum samtímis

Áætlun um heilsuvernd

Atvinnurekandi skal gera og fylgja eftir áætlun um heilsuvernd, þar á meðal áætlun um forvarnir, sbr. 66. gr. gildandi laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og 28. gr. gildandi reglugerðar um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Í áætluninni skal taka tillit til tækniframfara og tiltækra ráðstafana sem eru til þess fallnar að koma í veg fyrir skaðleg áhrif rafsegulsviðs við upptök þess. Enn fremur skal áætlun um forvarnir fela í sér tæknilegar og/eða skipulagslegar ráðstafanir. Þegar ekki er tæknilega unnt að koma í veg fyrir áhættu rafsegulsviðs skal draga úr henni eins og kostur er eða halda henni í lágmarki.

Ef áhættumat skv. 5. gr. gefur til kynna að farið sé yfir viðbragðsmörk skv. 4. gr. og II. og III. viðauka skal atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna á grundvelli áætlunar um forvarnir skv. 1. mgr. og skulu þær taka til tæknilegra og/eða skipulagslegra ráðstafana sem ætlað er að koma í veg fyrir að farið sé yfir mengunarmörk fyrir heilbrigði og mengunarmörk fyrir skynjanir, nema áhættumatið skv. 1.-3. mgr. 5. gr. sýni að ekki sé farið yfir viðkomandi mengunarmörk og að öryggi sé tryggt. 

Í áætluninni um forvarnir skal einkum taka tillit til:

 1. annarra starfsaðferða sem draga úr skaðlegum áhrifum rafsegulsviðs,
 2. þess að valinn sé búnaður til vinnu sem gefur frá sér veikara rafsegulsvið að teknu tilliti til verksins sem þarf að vinna,
 3. tæknilegra ráðstafana til að draga úr myndun rafsegulsviðs, þar á meðal notkunar samlæsinga, hlífa eða sambærilegs öryggisbúnaðar ef nauðsyn krefur,
 4. viðeigandi ráðstafana til afmörkunar og aðgangsstýringa, svo sem merki, merkimiðar, gólfmerkingar og hindranir í því skyni að takmarka eða stjórna aðgangi,
 5. ráðstafana og verklagsreglna sem unnt er að grípa til í því skyni að stjórna neistaúrhleðslu og snertistraumum með tæknilegum úrræðum og með þjálfun starfsmanna þegar um er að ræða skaðleg áhrif rafsviðs,
 6. viðeigandi viðhaldsáætlana fyrir vinnutæki, vinnustaði og vinnustöðvakerfi,
 7. hönnunar og skipulags vinnustaða og vinnustöðva,
 8. takmörkunar á tíma og styrk rafsegulsviðs,
 9. aðgengis að fullnægjandi persónuhlífum.

Eftirfarandi viðaukar fylgja reglugerðinni:

 1. Viðauki: Þar er að finna eðlisfræðilegar stærðir að því er varðar skaðleg áhrif rafsegulsviðs
 2. Viðauki: Þar er fjallað um varmalaus áhrif og mengunar- og viðbragðsmörk á tíðnisviðinu frá 0 til 10 MHz
 3. Viðauki. Þar er fjallað um varmaáhrif og mengunar- og viðbragðsmörk á tíðnisviðinu frá 100 kHz til 300 GHz.

Leiðbeiningar um góð vinnubrögð vegna vinnu í nálægð við rafsegulsvið

1. Kynning og tilgangur leiðbeininganna

Rafsegulsvið er viðfangsefni EMF (Electromagnetic fields) tilskipunarinnar (Directive 2013/35/EU) sem reglugerð nr. 1051/2017 um varnir gegn skaðlegum áhrifum rafsegulsviðs á vinnustöðum byggir á en rafsegulsvið myndast hvar sem rafmagn er nýtt. Fyrir flestar starfstéttir þá hefur rafsegulsvið engin óafturkræf heilsufarsleg áhrif þar sem styrkur þess er það veikur. Hins vegar getur rafsegulsviðs skapað áhættu fyrir starfsmenn á sumum vinnustöðum og tilskipunin á að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna í slíkum aðstæðum. Atvinnurekendur eiga oft í erfiðleikum með að greina hvort þetta snertir þeirra starfsemi.

1.1. Hvernig á að nota þessar leiðbeiningar

Þessar leiðbeiningar nýtast einkum litlum og meðalstórum fyrirtækjum en einnig starfsmönnum og fulltrúum þeirra svo og yfirvöldum og stofnunum.

Þær aðstoða við að taka fyrstu skrefin til að meta áhættuna sem stafar af EMF á vinnustöðum. Niðurstöður matsins eru hjálplegar til að ákveða hvort þörf er á frekari ráðstöfunum byggt á EMF tilskipuninni.

EMF tilskipunin segir til um lágmarks öryggiskröfur gagnvart útsetningu rafsegulsviðs á starfsmenn. Samt sem áður verða sumir vinnuveitendur að reikna eða mæla styrk rafsegulsviðs á vinnustöðunum. Í flestum tilfellum er eðli vinnunnar þannig að áhættan er lítil og getur verið ákvörðuð á tiltölulega einfaldan hátt.

Þessar leiðbeiningar eru settar fram á þann hátt að þeir sem eru með allt í góðum málum hjá sér geta staðfest það auðveldlega.

Ítarlegri upplýsingar, þ.á.m. mat á skaðlegum áhrifum og forvarnir, er að finna í „comprehensive non-binding guide to good practice for implementing Directive 2013/35/EU Volumes I and II.

Tafla 1.1 - Leið til að meta áhættuna af rafsegulsviði

Ef áhættan af rafsegulsviði á vinnustaðnum er lítil þá er ekki þörf á frekari aðgerðum

Atvinnurekendur kunna að vilja skrá að þeir hafi yfirfarið þetta á sínum vinnustað og komist að þessari niðurstöðu

Ef áhættan af rafsegulsviði er ekki lítil eða óþekkt, þá skulu atvinnurekendur fylgja ferli til að meta áhættuna og koma á viðeigandi forvörnum ef nauðsyn krefur
Mögulegt er að niðurstaðan sé sú að áhættan er engin. Í þeim tilvikum skal matið skráð og ferillinn hættir hér
Sem hjálpartæki áhættumats, sérstaklega til að meta hvort vinnustaðurinn er innan viðmiðunar- eða mengunarmarka, þá kann atvinnurekandinn að þurfa að nýta sér upplýsingar um styrk rafsegulsviðs. Þessar upplýsingar er hægt að fá í gagnabönkum eða hjá framleiðendum en það kann þó að vera nauðsynlegt að framkvæma útreikninga eða mælingar
Forvarnir og varúðarráðstafanir kunna að vera nauðsynlegar til að minnka áhættu

1.2 Kynning á EMF tilskipuninni

Uppsprettur rafsegulsviðs, sem starfsmenn eru útsettir fyrir, finnast víða á vinnustöðum. Þær verða til og eru notaðar á mörgum sviðum, þ.m.t. í framleiðslu, rannsóknum, fjarskiptum, lækningavörum, rafölum, raforkuverum, útsendingabúnaði, flug- og siglingabúnaði og öryggisbúnaði.

Rafsegulsvið getur einnig verið tilfallandi, svo sem þegar það myndast nálægt raflínum og köplum sem dreifa rafmagni í byggingar, eða sem stafar af notkun rafknúinna tækja og búnaðar. Þar sem rafsegulsvið myndast þegar rafmagn er framleitt þá hverfur það þegar slökkt er á raforkugjafanum.

EMF tilskipunin fjallar um bein og óbein áhrif af völdum rafsegulsviðs; hún nær ekki yfir möguleg langtíma heilsuáhrif. Bein áhrif eru flokkuð í varmalaus áhrif, svo sem örvun tauga, vöðva og skynfæra og varmaáhrifa, svo sem hitun vefja. Óbein áhrif eiga sér stað þar sem nærvera hlutar innan rafsegulsviðs getur valdið öryggis- eða heilsuhættu.

1.3 Gildissvið þessara leiðbeininga

Þessum leiðbeiningum er ætlað að veita hagnýt ráð til að hjálpa litlum og meðalstórum fyrirtækjum að uppfylla EMF tilskipunina. Þrátt fyrir að EMF tilskipunin útiloki ekki sérstaklega tiltekna tegund af vinnu eða tækni þá er rafsegulsviðið á mörgum vinnustöðum eru það veikt að engin áhætta er til staðar.

Í þessum leiðbeiningum er listi yfir almenna vinnu, búnað og vinnustaði þar sem búast má við að rafsegulsvið sé það veikt að atvinnurekendur þurfa ekki að grípa til frekari ráðstafana.

Í EMF tilskipuninni þurfa atvinnurekendur að hafa í huga þá starfsmenn sem eru líklegir til að vera í sérstakri áhættu, þ.m.t. starfsmenn sem hafa virk eða óbein ígrædd lækningatæki, svo sem hjartagangráð, starfsmenn með lækningatæki sem eru utan á líkamann, svo sem insúlíndælur og þungaðir starfsmenn. Leiðbeiningarnar veita ráð í þessum aðstæðum.

Hugsanlega geta verið einhver skilyrði fyrir hendi sem eru mjög sértæk eða mjög flókin þar sem starfsmenn eru útsettir fyrir rafsegulsviði og eru utan umfjöllunarefnis þessara leiðbeininga. Sumar atvinnugreinar með flóknar aðstæður þar sem útsetning fyrir rafsegulsviði er sérstaklega líkleg geta gert eigin leiðbeiningar í tengslum við EMF tilskipunina og gott að leita ráðgjafar ef við á. (sjá nánar í kafla 8 og viðauka I -non-binding guide to good practice for implementing Directive 2013/35/EU).

2. Áhrif rafsegulsviðs á heilsu og öryggi

Tegund áhrifa sem rafsegulsvið hefur á fólk fer fyrst og fremst eftir tíðni og styrkleika: aðrir þættir eins og lögun bylgnanna geta einnig verið mikilvægir í sumum tilvikum. Sum rafsegulsvið valda örvun skynfæra, tauga og vöðva, á meðan önnur valda hitnun. Áhrif af völdum hitnunar eru kölluð hitaáhrif skv. EMF tilskipuninni, en öll önnur áhrif eru nefnd varmalaus áhrif.

Mikilvæg staðreynd er að öll þessi áhrif sýna þröskuldgildi undir áhættumörkum og útsetning áhrifa rafsegulsviðs fyrir neðan þröskuldinn eru ekki uppsöfnuð á nokkurn hátt. Áhrif af völdum útsetningar er tímabundin og að takmarkast við lengd útsetningar og þau munu stöðvast eða minnka þegar útsetning hættir. Þetta þýðir að það getur ekki orðið nein frekari heilsufarsáhætta þegar útsetningu er lokið.

2.1 Bein áhrif

Bein áhrif eru breytingar sem eiga sér stað hjá einstaklingi sem afleiðing þess að verða fyrir áhrifum frá rafsegulsviði. EMF tilskipunin tekur aðeins til vel skilgreindra áhrifa sem eru byggðar á þekktum aðferðum. Hún greinir á milli skynhrifa og áhrifa á heilsu, sem talin eru alvarlegri.

Bein áhrif eru:

 • Svimi og ógleði frá stöðurafsegulsviði (venjulega tengt hreyfingu en getur einnig gerst í kyrrstöðu)
 • Áhrif á skynfæri, taugar og vöðva frá lágtíðnisviðum (allt að 100 kHz)
 • Hitnun alls líkamans eða hluta hans vegna hátíðnisviða (10 MHz og hærri); hitnun yfir nokkur GHz er takmarkað við yfirborð líkamans
 • Áhrif á taugar, vöðvar og hitnun frá meðaltíðnisviðum (100 kHz – 10 MHz)

Ahrif-rafsegulsvids-a-mismunandi-tidni

Mynd 2.1 – Áhrif rafsegulsviðs á mismunandi tíðni 

2.2 Langtímaáhrif

EMF tilskipunin tekur ekki á hugsanlegum langtíma áhrifum fyrir útsetningu á rafsegulsviði þar sem engar vísindalegar sannanir eru til fyrir þeim. Ef slíkar sannanir koma fram mun Evrópusambandið skoða slík hugsanleg áhrif.

2.3 Óbein áhrif

Óæskileg áhrif geta átt sér stað vegna nálægðar við hluti í rafsegulsviði sem ógnað getur öryggi og heilsu. Snerting við straumleiðara er ekki hluti af EMF tilskipuninni.

Óbeinu áhrifin eru:

 • Truflun á lækingatækjum og öðrum búnaði
 • Truflun á virkum lækningatækjum eða búnaði í líkamanum, t.d. gangráður eða stuðtæki
 • Truflun á lækningatækjum utan á líkamanum, t.d. insúlíndælur
 • Truflun vegna óvirkra lækningatækjum í líkamanum (gerviliðir, pinnar, vírar eða plötur úr málmi)
 • Áhrif á sprengibrot, líkamsskraut, tattú og líkamslistaverk
 • Kasthætta af völdum járnsegulhluta í stöðusegulsviði
 • Ræsing á rafrænum kveikibúnaði
 • Eldur eða sprengingar þegar kviknar í eldfimum efnum
 • Rafstuð eða bruni vegna snertistrauma þegar snert er á leiðandi hlutum í rafsegulsviði og annar þeirra er jarðtengdur en hinn ekki

3 Uppsprettur rafsegulsviðs

Í nútíma þjóðfélagi eru allir útsettir fyrir rafmagni og rafsegulsviði frá mörgum uppsprettum, þ.m.t. raftækjum, móttökutækjum útvarpsbylgna og samskiptatækjum (sjá mynd 3.1). Uppspretta meirihluta rafsegulsviðs á heimilum og vinnustöðum er útsett fyrir mjög lágum styrk og öll algengustu verk eru ólíkleg til að framkalla rafsegulsvið þar sem útsetning fyrir því fer yfir viðbragsmörk eða mengunarmörk skv. EMF tilskipuninni.

Myndraen-lysing-a-rafsegulsvidi

Mynd 3.1 – Myndræn lýsing á rafsegulsviði sem sýnir nokkrar dæmigerðar uppsprettur

Útbreiðsla og stærð rafsegulsviðs sem myndast veltur á spennunni, straumnum og tíðninni sem tækið nýtir eða framleiðir auk hönnunar tækisins. Sum tæki gætu verið vísvitandi hönnuð til að gefa frá sér rafsegulsvið. Í slíkum tilvikum gætu tæki sem þurfa litla orku samt gefið frá sér sterkt rafsegulsvið. Almennt þarf þó að meta tæki sem nota mikinn straum og spennu eða eru hönnuð til að geisla frá sér rafsegulsviði.

Rafsegulsviðið minnkar hratt með fjarlægð frá uppsprettunni (mynd 3.2). Hægt er að draga úr útsetningu starfsmanna fyrir rafsegulsviði með því að takmarka aðgang að tæki á meðan það er í gangi. Einnig er vert að muna að rafsegulsvið hverfur venjulega þegar tækið fær ekki lengur orku.

3.1. Starfsmenn í sérstakri áhættu

Sumir hópar starfsmanna (sjá töflu 3.1) teljast í sérstakri áhættu fyrir rafsegulsviði. Verið getur að þessir starfsmenn séu ekki nægilega varðir og rafseglusviðið sé því hærra en viðbragðmörkin sem tilgreind eru í EMF tilskipuninni. Því þurfa atvinnurekendur að skoða útsetningu þessara starfsmanna sérstaklega.

Tafla 3.1: Samkvæmt leiðbeiningum tilskipunar 2013/35/ESB þá eru eftirtaldir starfsmenn taldir í sérstakri áhættu

Starfsmenn í sérstakri áhættuDæmi
Starfsmenn með virk ígrædd lækningatæki (e: active implanted medical devices - AIMD)Hjartagangráður, hjartastuðtæki, heyrnatæki, tæki í heila, taugaörvunartæki, augntæki, dælur
Starfsmenn með óvirk ígrædd lækningatæki úr málmiGerviliðir, pinnar, plötur, skrúfur, klemmur, stoðnet, gervihjartalokur og getnaðarvarnir
Starfsmenn með lækningatæki utan á líkamanumHormónadælur
Ófrískar konur 

3.1.1. Starfsmenn með óvirk ígrædd lækningatæki úr málmi

Þeir starfsmenn sem eru með ígrædd lækningatæki eru í sérstakri áhættu þar sem sterkt rafsegulsvið getur truflað eðlilegan gang þess. Það er lagaleg skylda framleiðenda tækjanna að þau séu tiltölulega ónæm fyrir truflunum og séu reglulega prófuð fyrir mismunandi styrk rafsegulsviðs sem gæti verið til staðar í almannarými. Skv tilskipun 1999/519/EC þá skal styrkur segulsviðs ekki fara fyrir viðmiðunarmörk hjá þeim sem eru með slík ígrædd tæki. Fari styrkurinn yfir þessi mörk gæti það valdið truflunum í tækjunum sem skapar hættu fyrir þá sem bera þau. Því er nauðsynlegt að forðast að hafa tæki með sterkt segulsvið nærri lækningatækinu. T.d. segulsviðið frá snjallsíma gæti valdið truflunum í hjartagangráð ef síminn er nálægt honum. Samt sem áður geta þau sem eru með slík ígrædd tæki notað snjallsíma ef þau passa að síminn sé ávallt fjarri brjóstkassanum.

3.2. Matskröfur fyrir algeng störf, tæki og vinnustaði

Tafla 3.2 sýnir algeng störf, tæki og vinnustaði og gefur til kynna hvort líklegt er að meta þurfi:

 • Starfsmenn með ígrædd lækningatæki
 • Aðra starfsmenn í sérstakri áhættu
 • Starfsmenn sem ekki eru í sérstakri áhættu

Þar sem „Nei“ er í öllum kössum fyrir viðkomandi tæki eða vinnustað þá er ekki nauðsynlegt að meta rafsegulsvið byggt á EMF tilskipuninni þar sem reikna má með að engin áhætta sé af því nema að aðstæður breytist.

Tafla 3.2. Kröfur á sérstöku mati á rafsegulsviði fyrir nokkur algeng störf og tæki á vinnustöðum

 M a t   k r a f i s t   f y r i r
Tækjagerð og vinnustaðurStarfmenn sem
ekki eru í
sérstakri áhættu

Starfsmenn í
sérstakri áhættu
(fyrir utan þá semeru með virkígrædd
lækningatæki)

Starfsmenn með
virk ígrædd
lækningatæki

Þráðlaus samskiptatækni

   
Þráðlausir símar – notkun
NeiNei
Þráðlausir símar – á vinnustöðumNeiNeiNei
Farsímar – notkunNeiNei
Farsímar – á vinnustöðumNeiNeiNei
Þráðlaus tæki (t.d. Wi-Fi eða Bluetooth) - notkunNeiNei
Þráðlaus tæki (t.d. Wi-Fi eða Bluetooth) – á vinnustöðumNeiNeiNei

Skrifstofur

   
Hljóð- og myndtæki (t.d. sjónvörp, DVD)NeiNei Nei
Hljóð- og myndtæki með útvarpssendumNeiNei Já
Samskipta- og nettæki - tengdNeiNeiNei
Tölvur og upplýsingaveiturNeiNeiNei
Rafknúnir vifuhitararNeiNeiNei
Rafknúnar vifturNeiNeiNei
Skrifstofutæki (t.d. ljósritunarvélar)NeiNeiNei
Símar (fastlína)NeiNeiNei
Innviðir (byggingar og lóðir)NeiNeiNei
Garðverkfæri (rafknúin) á vinnustöðumNeiNeiNei
Hitatæki (rafknúin) til herbergishitunarNeiNeiNei
Heimilis- og atvinnutæki, t.d. kælir, þvottavél, þurrkari, uppþvottavél, bökunarofn ofl sem ekki er fjarstýrt (t.d. gegnum snjallsíma)NeiNeiNei
Ljósabúnaður, t.d. herbergislýsinga og lamparNeiNeiNei
Ljósabúnaður knúinn með útvarps- eða örbylgjum

Öryggisbúnaður

   
MálmleitartækiNeiNeiJá 
Rafveita   
Rafleiðslur þar sem leiðararnir liggja þétt saman og hafa 100 A eða minni straum, t.d. leiðslur, slökkvarar og spennubreytar – útsetning fyrir rafsegulsviðiNei NeiNei
Rafleiðslur þar sem leiðararnir liggja þétt saman og hafa yfir 100 A straum, t.d. leiðslur, slökkvarar og spennubreytar – útsetning fyrir rafsegulsviði
Vinna við rafala eða neyðarrafalaNeiNei
Raflínur ofanjarðar óháð spennu - útsetning fyrir rafsegulsviðiNeiNeiNei
Jarðstrengir neðanjarðar eða einangraðir óháð spennu – útsetning fyrir rafsegulsviðiNeiNeiNei
Vinna við vindmyllurNei

Léttur iðnaður

   
Rafsuða þar sem góð vinnubrögð eru viðhöfð og snúrur liggja ekki á líkamanumNeiNei
Sprautu- og málningarbúnaðurNei NeiNei
Málmbræðsluofn - rafhitaðurNeiNei
Notkun límbyssuNeiNei
Spanhitun
Vélaverkfæri (t.d. borar, slípirokkar og sagir)NeiNei
Örbylgjuhitun of þurrkun í timburiðnaði (viðar- þurrkun, mótun, líming)
Handverkfæri (borar, slíparar, hjólsagir og slípirokkar)NeiNei
Logsuða í höndum (punktsuða og suða með suðuvír)
Þungaiðnaður   
Rafgreining, iðnaður
Málmbræðsla

Byggingariðnaður

   
Byggingaverkfæri (t.d. steypuhrærivélar, titrarar, kranar o.fl.) – unnið nærri tækjumNeiNei
Þurrkun með örbylgjum

Lækningatæki

   
Lækningatæki þar sem rafsegulsvið er ekki notað til greininga eða meðferðaNeiNei
Lækningatæki þar sem rafsegulsvið er notað til greininga eða meðferða

Flutningur

   
Flutningatæki og búnaður – vinna í nálæg við startara, rafal, kveikjukerfiNeiNei
Radar og flugumsjón
Rafknúnar lestir og sporvagnar

Ýmislegt

   
Hleðslutæki, spanhleðsla eða fjarhleðslaNeiNei
Hleðslutæki, beintengd til heimilisnotaNeiNeiNei
Útsendingarbúnaður og tæki (útvarp og sjónvarp: LF, MF, HF, VHF, UHF)
Heyrnatól sem mynda sterkt segulsviðNeiNei
SpanhellurNeiNei
Útvörp (færanleg og í bílum)NeiNei

Eftirlit og mæliþjónusta á rafsegulsviði

Skv. lögum um 44/2002 um geislavarnir þá annast Geislavarnir ríkisins eftirlit með notkun geislavirkra efna og geislatækja en Vinnueftirlitið sinnir eftirliti með ójónandi geislun eins og myndast vegna rafsegulsviðs. Þar sem Geislavarnir hafa yfir að ráða öflugum mælitækum til geislamælinga, þ.m.t. til mælinga á rafsegulsviði þá komust stofnanirnar að samkomulagi í maí 2019 um að Geislavarnir taki að sé mælingar á rafsegulsviði á vinnustöðum skv. gjaldskrá þeirra. Þá kunna einhverjir þjónustuaðilar í vinnuvernd að búa yfir mælitækjum til mælinga á rafsegulsviði en upplýsingar um þá er að finna í lista yfir viðurkennda þjónustuaðila .

Ítarefni: