Eyrnasuð - Tinnitus

Hvað er eyrnasuð?

Eyrnasuð er hljóð sem í flestum tilfellum skapast í eyranu vegna skemmda á taugaendum heyrnartaugarinnar sem er í innra eyranu. Eyrnasuð er margs konar, það getur verið stopult og það getur verið stöðugt. Það getur haft breytilega tónhæð allt frá lágum nið upp í hátóna ískur. Það getur verið hvort sem er í öðru eyra eða báðum. Stöðugt eyrnasuð getur verið mjög ergilegt og truflandi jafnvel svo að hjá mörgum getur það takmarkað lífsgæði verulega. Oftast nær er það þó þannig að hægt er að læra að lifa með því.

Hvað veldur eyrnasuði?

 • Heyrnartap. Það hefur sýnt sig að heyrnartapi fylgir eyrnasuð.
 • Mikill hávaði. Mikil hávaðaáraun getur valdið eyrnasuði og heyrnarskaða af völdum hávaða.
 • Lyf. Meira en 200 gerðir lyfja eru talin geta valdið eyrnasuði. Hafirðu eyrnasuð og sértu að taka lyf þá ættirðu að spyrja lækninn þinn hvort lyfin geti átt sinn þátt í eyrnasuðinu.
 • Önnur heilsuvandamál. Ofnæmi, æxli og hjarta- og æðavandamál, vandamál tengd kjálkum og hálsi geta valdið eyrnasuði.

Hvað er til ráða fyrir þá sem þjást af eyrnasuði?

Fyrst og fremst skyldi ráðfæra sig við lækni. Læknirinn ætti að geta skorið úr um orsök eyrnasuðsins. Læknirinn getur athugað hvort eyrnasuðið tengist blóðþrýstingi, starfsemi nýrna, mataræði eða ofnæmi. Læknirinn getur einnig metið hvort eyrnasuðið tengist hugsanlega lyfjatöku.
Háls, -nef og eyrnalæknar skoða eyru og heyrn til að meta ástæður eyrnasuðsins. Heyrnar- og talmeinafræðingar mæla heyrn og meta hvort þörf er á heyrnartækjum og þá hvers konar heyrnartæki henta best.

Hvernig er eyrnasuð meðhöndlað af sérfræðingum?

Það er ekki til lækning við eyrnasuði en það hefur sýnt sig að til eru ýmsar aðferðir við meðhöndlun þess sem gera eyrnasuðið bærilegra. Það fer eftir einstaklingum hvaða aðferðir henta best og því getur þurft að prófa sig áfram til að sjá hver kemur að bestum notum.
Meðhöndlunin getur falist í:
 • Heyrnartækjum
  Algengt er að þeir sem þjást af eyrnasuði hafa einnig tapað heyrn. Með því að nota heyrnartæki verður auðveldara að greina þau hljóð sem maður þarf að heyra. Því betur sem heyrist til þeirra sem tala eða í tónlist sem hlustað er á, því minna tekur maður eftir eyrnasuðinu.
 • Möskum
  Maskar er lítil tæki sem nota lágt samfellt hljóð til að maður greini síður eyrnasuðið. Maskar fjarlægja ekki eyrnasuðið heldur gera þeir það að verkum að suðið eða sónninn virkar mýkri. Í sumum tilvikum dylja maskar eyrnasuðið svo vel að það verður vart greinilegt. 
  Ýmsir eiga betra með svefn ef þeir nota maska. Það getur hjálpað við svefn að hlusta á lágvært suð í útvarpi eða nota maska gerða til þess að hafa við rúmstokkinn í stað maska sem hafðir eru á bak við eyru.
 • Lyfjameðferð
  Til eru lyf sem slá á eyrnasuð. Ávísi læknir á lyf til þeirra nota þá getur hann upplýst um hugsanlegar aukaverkanir.
 • Endurhæfing vegna eyrnasuðs
  Endurhæfing vegna eyrnasuðs getur falið í sér bæði ráðgjöf og notkun maska. T.d. háls-, nef og eyrnalæknar og heyrnar- og talmeinafræðingar geta leiðbeint fólki við að takast á við eyrnasuð. Maska má síðan nota til að slá á eyrnasuðið. Með tímanum getur fólk síðan lært að forðast að hugsa um eyrnasuðið. Þetta getur tekið sinn tíma en það getur líka á endanum verið til mikilla bóta.
 • Ráðgjöf
  Eyrnasuð get valdið þunglyndi. Því getur það stutt þá sem þjást af eyrnasuði að þiggja ráðgjöf og hljóta stuðning þjáningarbræðra sinna.
 • Slökun
  Það skiptir miklu máli að kunna að slaka á ef eyrnasuð er að hrjá mann. Streita getur magnað eyrnasuð en með slökun skapast færi á að hvílast og takast betur á við eyrnasuðið.

Hvernig má hjálpa sjálfum sér?

Leiðið hugann að því sem hjálpar við að þola við. Margir finna lausn í því að hlusta á tónlist. Með því að hlusta á tónlist er hægt að gleyma eyrnasuðinu a.m.k. tímabundið. Sumum þykir gott að hlusta á upptökur af hljóðum úr náttúrunni svo sem öldunið, vindgnauð o.þ.h. 
Forðist allt sem getur aukið á eyrnasuðið. Reykingar, áfengi og mikill hávaði geta aukið á eyrnasuð. Þeir sem starfa við hávaðasöm störf, stunda skotveiðar eða verða á annan hátt fyrir miklum hávaða í vinnu, á heimili eða í tómstundum ættu að nota heyrnarhlífar til að vernda heyrnina og auka ekki á eyrnasuðið. 

Þeir sem eiga erfitt með að heyra vegna eyrnasuðsins ættu að biðja fólk um að horfast í augu við sig þegar talað er saman. Það auðveldar skilning að sjá svipbrigði fólks. Gott er ef fólk talar hátt og skírt án þess þó að öskra.

Hvar má nálgast frekari upplýsingar? 

Hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er hægt að fá frekari upplýsingar um eyrnasuð.