Líffræði eyrans

Hvernig heyrum við?

Eyranu er skipt í þrjá megin hluta sem kallast ytra-, mið- og innra eyra.

Ytra eyrað

Ytra eyrað er bæði sýnilegi hluti eyrans, þ.e.a.s. eyrnablaðkan og hlustarinngangurinn og síðan hlustin sem nær inn að hljóðhimnunni. Ytra eyrað fangar hljóðið líkt og trekt og safnar því saman í hlustina en um hana berst hljóðið áfram að hljóðhimnunni. Hlustin næst eyrnablöðkunni er þakin fínum hárum og eyrnamerg sem verndar hana fyrir óhreinindum, en mergurinn ver einnig eyrað fyrir bakteríum.

Miðeyrað

Miðeyrað er loftfyllt holrúm sem afmarkast annars vegar af hljóðhimnu og hins vegar innra eyranu dýpra inni í höfði. Hljóðhimnan telst vera hluti miðeyrans. Hún er sporöskjulaga og myndar eins konar trekt sem er tæplega 8 mm í þvermál. Í holrúmi miðeyrans eru þrjú minnstu bein líkamans örsmá en með stórt hlutverk, en þau nefnast hamar, steðji og ístað. Beinin þrjú mynda keðju þar sem hamarinn tengist hljóðhimnunni í botni trektarinnar. Beinakeðjan hefur síðan það hlutverk að endurvarpa með vægri mögnun hljóðbylgjum frá hljóðhimnu og til innra eyrans frá hamri yfir í steðja og steðja yfir í ístað. Ístaðið stingur sér inn í glugga/himnu innra eyrans og kemur þar af stað bylgjuhreyfingum. Það er í holrúmi miðeyrans sem eyrnasýkingar verða.
Frá miðeyranu liggur kokhlustin niður í nefkok. Að jafnaði er kokhlustin lokuð en hlutverk hennar er að jafna þrýstinginn í miðeyranu. Það gerist við það að kokhlustin opnast t.d. þegar við geispum, kyngjum eða tyggjum.

Innra eyrað

Innra eyrað er vökvafyllt og samanstendur af boggangakerfi annarsvegar en kuðungslöguðu líffæri hinsvegar, sem nefnist kuðungur. Í kuðungnum eru þúsundir hárfruma sem framkalla boðspennu eftir því sem þær sveigjast í bylgjuhreyfingu vökvans. Boðspennan berst síðan eftir heyrnartauginni til heilans sem upplifir tal og tóna. Sérhver hárfruma framkallar boðspennu fyrir tiltekna tíðni hljóðs.
Mikill og langvarandi hávaði getur skaðað hárfrumurnar og valdið þannig heyrnarskerðingu. Heyrnarskaði af völdum hávaða byrjar á tíðnisviðinu í kringum 3-4000 rið og dreifir sér síðan fyrst í átt að hærri tíðni og síðan lægri. Heyrnartjóni af völdum hávaða fylgir langoftast eyrnasuð (tinnitus). Boggangakerfi innra eyrans gegnir veigamiklu hlutverki varðandi jafnvægisskynið.