Eðlisfræði hávaða

Skilgreiningar:

Hljóðþrýstingur 

Hljóðþrýstingur er munurinn á þrýstingi andrúmsloftsins og þeim þrýstingi sem verður við það að hljóð myndast. Þ.e.a.s. ef notuð er myndlíking þá er þrýstingur andrúmsloftsins eins og vatnshæð í tanki en hljóðið er eins og gárurnar á vatninu. Vatnhæðin getur verið breytileg en ef engar gárur eru á yfirborðinu þá er ekkert hljóð.

Mælieiningin Pascal 

Pascal er mælieiningin fyrir hljóðþrýsting. Þrýstingurinn í andrúmsloftinu er 1 Pascal (þ.e.a.s. í þögn). Eitt Pascal [1 Pa] jafngildir afli eins Newtons á fermetra.  Til þess að mannseyrað greini breytingu á þrýstingi í andrúmsloftinu þarf mismunurinn að vera u.þ.b. 0,00002 Pa sem einnig má skrifa sem 20 µPa (µPa er lesið míkrópascal sem er milljónasti hluti af pascal). Óbærilega mikill hávaði er hins vegar þegar mismunurinn er kominn í 20.000.000 µPa. Þá hættum við að skynja þrýstingsbreytinguna sem hljóð - hún veldur sársauka.  Heyrnarsviðið er því á bilinu 20 µPa  upp í 20.000.000 µPa sem er mjög vítt svið og óhentugt í daglegu tali um hávaða.

Desibel [dB]

Vegna þess að skynjun eyrans er háð því hver þrýstingurinn er þá hefur verið reynt að mæta því með því að búa til einingu sem fellur betur að þessum eiginleikum heyrnarinnar/eyrans.  Einingin er desibel. Desibel er logaritmisk eining sem þýðir að ekki er hægt að beyta hefðbundinni samlagningu við útreikninga. Desibel-skalinn lýsir hins vegar betur en Pascal-skalinn, upplifun okkar á hljóði. Tvöföldun á dB skalanum jafngildir hækkun um 3 dB og hækkun um 10 dB er u.þ.b. tíföldun hljóðþrýstings.   Til að breyta Pascal í desibel er notuð þessi jafna: dB = 20 log (X Pa / 20µPa)

Hljóðstig 

Þegar hljóðþrýstingi hefur verið breytt úr Pascal yfir í desibel er talað um hljóðstig. Þ.e.a.s. hljóðstig er hljóðþrýstingur mældur í desibelum.

Hljóðafl 

Þegar hljóð verður til er það vegna þess að einhver hljóðgjafi kemur af stað sveiflum á þrýstingi andrúmsloftsins. Eftir því sem hljóðgjafinn er sterkari/aflmeiri því meiri verða sveiflurnar og þar af leiðandi hávaðinn.  Hljóðafl hljóðgjafans er metið í wöttum. Líkt og með þrýstingseininguna Pascal er wöttum breytt í desibel og heitir þá hljóðaflstig í stað hljóðafls. Jafnan fyrir hljóðafl/hljóðaflsstig er eftirfarandi: dB = 10 log (X wött / 10 picowött)

Ómtími 

Ómtími er mælikvarði á bergmál. Allt endurkast hljóðs er viðbót við það hljóð sem fyrir er og því skiptir oftast nær miklu máli að draga úr endurkasti hljóðs á vinnustöðum.  Nákvæm skilgreining á ómtíma er að; ómtími er sá tími sem það tekur hljóðstigið að lækka um 60 dB eftir að hljóðgjafinn þagnar. (sjá myndina hér fyrir neðan)     Ómtíma Ómtími í vinnurými veltur á eiginleikum veggja, lofts, gólfs og annarra hluta sem til staðar eru, til að gleypa í sig hljóðið sem á þá fellur. Þessir eiginleikar eru oft nefndir hljóðísogseiginleikar og þeim er lýst með einingu sem heitir hljóðísogsstuðull. Sérhvert efni hefur tiltekinn hljóðísogsstuðul og þegar tekið er meðaltal allra hljóðísogsstuðla efna í vinnurými að teknu tilliti til magns/flatarmáls þeirra þá fæst út hljóðísogsstuðull vinnurýmisins. Til að reikna út ómtímann í vinnurýminu er síðan notuð eftirfarandi jafna:   Ómtími = 0,16 V / a×S   Þar sem V er rúmmál vinnurýmisins, a er hljóðísogsstuðull vinnurýmisins og S er flatarmál alls yfirborð í rýminu.   Til að stytta ómtíma í vinnurými er þess vegna annaðhvort hægt að auka yfirborð efnis sem dregur í sig hljóð eða að skipta út efni með litla eiginleika til hljóðísogs fyrir efni með meiri hljóðísogseiginleika.  Þar sem ómtími er langur í vinnusal (salurinn glymur eins og tóm tunna) er hægt með áhrifaríkum aðgerðum að stytta ómtíma þannig að hljóðstigið lækki umtalsvert.