Hávaði

Vinnuverndarvikan

Árið 2005 var Vinnuverndarvikan helguð hávaða á vinnustöðum.

Hávaði og heyrnarvernd

Vinnueftirlitið hefur gefið út bæklinginn Hávaði og heyrnarvernd. Bæklingnum er ætlað að veita stjórnendum og starfsmönnum á vinnustöðum upplýsingar um hættur af völdum hávaða og um leiðir til úrbóta.

Hávaðavarnir - Lögmál og leiðbeiningar

Í bókinni Hávaðavarnir - Lögmál og leiðbeiningar eru hagnýtar leiðbeiningar um hávaðavarnir, hvernig unnt er að deyfa hljóð við upptökin og hefta útbreiðslu þess. Þetta er útskýrt með rækilegum myndskýringum á 50 opnum þar sem aðferðin er þessi á hverri fyrir sig; 1) Greint frá lögmáli um hávaða og útbreiðslu hans. 2) Tekin dæmi af vinnustað þar sem lögmálið er að verki. 3) Lýst hvernig hægt er að bregðast við og draga úr hávaðanum.

Raddheilsa kennara

Vinnueftirlitið hefur gefið út í samvinnu við Umhverfisstofnun, Reykjavíkurborg og Kennarasamband Íslands bækling um raddheilsu kennara. Bæklingurinn er unninn af Valdísi J. Jónsdóttur heyrnar- og talmeinafræðingi. Bæklinginn er hægt að fá hjá Vinnueftirlitinu og einnig má sjá hann undir útgefið efni.

Staðreyndablöð

Út eru komin þrjú ný staðreyndablöð sem eru þýðingar á blöðum frá Evrópubandalaginu (Facts sheet). Blöðin eru full af fróðleik um hávaða og málefni sem tengjast hávaða svo sem heyrnartjón, slysahættu, streitu, persónuhlífar o.m.fl.

Reglugerð um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum.

Í nóvember 2006 var gefin út ný reglugerð um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum (nr. 921/2006). Um leið féllu úr gildi reglur um hávaðavarnir á vinnustöðum og heyrnareftirlit starfsmanna (500/1996). Nýja reglugerðin byggir á tilskipun Evrópubandalagsins nr. 2003/10/EB um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu að því er varðar váhrif sem starfsmenn verða fyrir af völdum eðlisfræðilegra áhrifavalda (hávaða). Helstu breytingar í nýrri reglugerð snúa að hávaðamörkum sem nú eru þrískipt. Áður voru mörkin sett við 85 dB(A) til að vernda heyrn starfsmanna. Nú eru sett neðri og efri viðbragðsmörk auk viðmiðunarmarka.

Neðri viðbragðsmörk eru 80 dB(A). 

Þá skal atvinnurekandi leggja starfsmönnum til heyrnarhlífar. Jafnframt skal hann sjá til þess að starfsmenn fái upplýsingar og viðeigandi þjálfun eins og því er lýst í reglugerðinni. Starfsmenn skulu eiga kost á heyrnarmælingu ef áhættumat gefur til kynna að heyrn þeirra sé hætta búin.

Efri viðbragðsmörk eru 85 dB(A). 

Þá skulu starfsmenn nota heyrnarhlífar. Atvinnurekandi skal tafarlaust gera ráðstafanir til að álagið fari niður fyrir mörkin. Atvinnurekandi skal gera tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir sem byggja á áhættumati til að draga úr hávaðanum. Atvinnurekandi skal setja upp viðeigandi viðvörunarmerki og afmarka og takmarka aðgang að þeim stöðum þar sem hávaðinn er yfir efri viðbragðsmörkunum. Starfsmenn skulu eiga rétt á að læknir eða annar aðili með tilskilin réttindi annist skoðun á heyrn þeirra. Trúnaðarmenn geta krafist viðeigandi mælinga á hávaða ef grunur leikur á að hann sé yfir efri viðbragðsmörkum.

Viðmiðunarmörk eru 87 dB(A). 

Í engum tilvikum má hávaði sem starfsmenn búa við fara yfir 87 dB(A) að jafnaði á 8 stunda vinnudegi. Við mat á viðmiðunarmörkum er tekið tillit til þess hvort starfsmenn nota heyrnarhlífar eða ekki. Þessi mörk eru sett m.a. til þess að tryggja rétt val á heyrnarhlífum. Fari álagið yfir viðmiðunarmörkin þá skal atvinnurekandi breyta áætlun um heilsuvernd til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Í áætluninni skal hann jafnframt tilgreina ástæður þess að hávaðinn fór yfir mörkin.

Í reglugerðinni er skýrt kveðið á um skyldur atvinnurekanda. 

Atvinnurekandi skal gera áhættumat þegar líkur eru á að starfsemin hafi í för með sér áhættu vegna hávaða. Hann skal endurskoða matið reglulega og varðveita gögn sem fengin eru úr mati eða mælingu.  Atvinnurekandi skal gera og fylgja eftir áætlun um heilsuvernd, þar á meðal áætlun um forvarnir og hann skal breyta áætluninni ef hávaðinn fer yfir viðmiðunarmörk og tilgreina ástæður þess.  Atvinnurekandi skal merkja vinnusvæði og takmarka aðgang að þeim þar sem hávaði er yfir efri viðbragðsmörkum. Hann skal laga ráðstafanir sérstaklega að þörfum starfsmanna sem eru í sérstökum áhættuhópum hvað varðar álag vegna hávaða.
  Atvinnurekandi skal leggja starfsmönnum til heyrnarhlífar ef hávaði er yfir neðri viðbragðsmörkum og hann skal allt sem í hans valdi stendur til að tryggja að starfsmenn noti heyrnarhlífar sem hann sér þeim fyrir vegna starfa þeirra og bera ábyrgð á eftirliti með notkun þeirra. 
Atvinnurekandi skal tryggja að starfsmenn sem eru í hávaða yfir neðri viðbragðsmörkum fái upplýsingar og nægilega og viðeigandi þjálfun vegna hávaðaálagsins. 
Atvinnurekandi skal hafa samráð við starfsmenn og/eða fulltrúa þeirra um þau málefni sem reglugerðin tekur til. Einkum varðandi áhættumat, áætlun um heilsuvernd og val á heyrnarhífum.  Ef áhættumat gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna sé hætta búin skal atvinnurekandi sjá til þess að þeim sé boðin heilsufarsskoðun. Heilsufarsskoðanir skulu vera í höndum heilbrigðisstarfsmanna og fela m.a. í sér hugsanlega heyrnarmælingu og skoðun á heyrn (ef hávaði er yfir efri viðbragðsmörkum). Atvinnurekandi ber kostnað af þessum heilsufarsskoðunum. 

Skyldur starfsmanna

Skyldur starfsmanna felast m.a. í því að draga úr hávaða eins og kostur er og stuðla að því að þær ráðstafanir sem gerðar eru til að draga úr hávaða komi að notum. Þeir skulu jafnframt nota heyrnarhlífar ef hávaði er yfir efri viðbragðsmörkum.

Áhættumat

Í reglugerðinni er lögð áhersla á notkun áhættumats sem skal byggja  á öllum tiltækum upplýsingum. Tilgreind eru helstu atriði sem einkum skal taka tillit til við gerð áhættumats.

Leiðbeiningar um framkvæmd reglugerðarinnar um hávaða (á ensku)

Non-binding guide to good practice for the application of Directive 2003/10/EC on the minimum safety and health requirements regarding the exposure of workers to the risks arising from physical agents (Noise)

Heilsuvernd

Áætlun um heilsuvernd er annað áhersluatriði í reglugerðinni, þar á meðal áætlun um forvarnir. Reglugerðin tilgreinir helstu atriði sem taka skal tillit till við gerð áætlunar um heilsuvernd og forvarnir.

Utanaðkomandi hávaði

Eins og í eldri reglunum eru sett mörk fyrir utanaðkomandi hávaða á hljóðlátari vinnustöðum. Þau mörk eru óbreytt í þessari reglugerð.  Í stjórnklefum, verkstjórnarherbergjum og öðrum stöðum þar sem mikilvægt er að samræður geti átt sér stað á utanaðkomandi hávaði ekki að vera meiri en 65 dB(A) að jafnaði á 8 klst vinnudegi.  Í mat- og kaffistofum á utanaðkomandi hávaði ekki vera meiri en 60 dB(A) á meðan á notkun stendur.  Á skrifstofum og öðrum stöðum þar sem gerðar eru miklar kröfur til einbeitingar og samræður eiga að geta átt sér stað óhindrað á utanaðkomandi hávaði ekki að vera meiri en 50 dB(A) að jafnaði á 8 klst vinnudegi.