Vinnuumhverfi á óvissutímum

Vinnuverndarstarf í fjármálaþrengingum 

Vinnuverndarstarf er lögbundið starf sem inna þarf af hendi í öllum fyrirtækjum og er ætlað að tryggja heilsu og öryggi starfsmanna á vinnustöðum óháð hvaða starfi þeir gegna.

Mestu verðmæti hvers fyrirtækis eru í mannafla þess og því mikilvægt að hugað sé að þessum verðmætum þegar illa árar í fjármálaheiminum. Vinnueftirlitið vill því hvetja öryggisnefndir til að fara yfir vinnuverndarmál á vinnustöðum sínum til þess að tryggja að vinnuvernd nái til allra á vinnustaðnum, einkum þeirra sem höllum fæti standa. Af þessu tilefni hefur Vinnueftirlitið sett saman nokkra áherslupunkta sem varða vinnuumhverfi á óvissutímum sérstaklega.

Vegna alvarlegs ástands í þjóðfélaginu mun Vinnueftirlitið á næstu dögum auglýsa sérstök námskeið og fyrirlestra um sálfélagslegt vinnuumhverfi. Vinnueftirlitið telur brýnt að öryggisnefndir séu vel upplýstar og býður upp á námskeið fyrir þær um vinnuverndarmál.

Eftirlitsmenn Vinnueftirlitsins munu í heimsóknum sínum í fyrirtæki taka sérstakt tillit til þeirra breyttu áhersluþátta sem umbyltingar í rekstrarumhverfi fyrirtækja munu hafa. Við heimsóknir á vinnustöðum munu þeir leggja áherslu á að koma upplýsingum til erlendra starfsmanna um aðgerðir og aðstoð stjórnvalda.

Vinnueftirlitið vill vekja athygli á að á heimasíðu þess er listi yfir þjónustuaðila, sem vinna að vinnuverndarmálum, sem fyrirtæki geta leita til með úrlausn einstakra mála.  

Öryggisráðstafanir við byggingar þar sem framkvæmdir liggja niðri

Við þær aðstæður sem nú eru í byggingariðnaði er hætta á því að fjöldi hálfbyggðra húsa muni standi auð og framkvæmdir liggi niðri um óákveðinn tíma. Byggingar geta verið óafgirtar og opnar og hætta á því að óviðkomandi, og þá sérstaklega börn og unglingar, eigi greiðan aðgang. Við sumar þessara bygginga má búast við því að vinnupallar séu uppsettir og misvel frágengnir. Þessar aðstæður geta valdið mikilli hættu á alvarlegum slysum.

Þar sem framkvæmdir liggja niðri vinna Byggingafulltrúar og Vinnueftirlit í sameiningu að því að tryggja öruggan frágang. Þar sem ekki er hægt að ganga að framkvæmdaaðilum eða eigendum skulu byggingafulltrúar sjá um að viðkomandi sveitarfélag geri nauðsynlegar úrbætur (sjá samkomulag Vinnueftirlits og Umhverfisstofnunar).