Sérstök ákvæði um heilsufarsskoðanir

Nokkrar reglugerðir, sem falla undir vinnuverndarlögin, fela í sér sérstök ákvæði um heilsufarseftirlit. Ýmist er um að ræða rétt starfsmanna til heilsufarsskoðana eða skyldur atvinnurekenda til að skipuleggja slíkt eftirlit. Yfirleitt er talað um heilsufarsskoðanir en í reglugerð nr. 098/2002 (12. gr.) um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna, sem geta valdið krabbameini eða stökkbreytingu á vinnustöðum, er sérstaklega minnst á læknisskoðanir. 

Yfirleitt er tekið fram í reglugerðum, sem kveða á um heilsufarsskoðanir, að halda skuli skýrslur um heilsufar einstaklinga í samræmi við lög og reglur og upplýsa viðkomandi einstakling um niðurstöður skoðana. Það er túlkun yfirlæknis Vinnueftirlitsins að þetta feli í sér að um varðveislu þessara gagna fari eftir ákvæðum um sjúkraskrár. Í mörgum tilfellum ber að tilkynna Vinnueftirlitinu um niðurstöðurnar og kynna þær fyrir öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum.

Ákvæði um hversu lengi skuli geyma skýrslur um heilsufar starfsmanna er að finna í sumum reglugerðum en á nokkrum stöðum er tekið fram að starfsmaður skuli fá nauðsynlegan búnað til úrbóta eða búnað til að draga úr hættu sér að kostnaðarlausu. Í nokkrum reglugerðum er tekið fram að þeir, sem bera ábyrgð á heilsufarseftirliti, skuli gera tillögur um til hvaða verndar- eða forvarnaráðstafana skuli gripið með tilliti til einstakra starfsmanna. 

Í eftirfarandi reglugerð sem fellur undir vinnuverndarlögin eru sérákvæði um heilsufarsskoðanir starfsmanna.

 
Árið 2006 var sett reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum í samræmi við vinnuverndarlögin. Markmið reglugerðarinnar er að koma á kerfisbundnu vinnuverndarstarfi innan vinnustaða. Í reglugerðinni er m.a. fjallað um öryggistrúnaðarmenn, öryggisverði, öryggisnefndir og verkefni þeirra, skyldur atvinnurekenda og starfsmanna. Í VIII kafla reglugerðarinnar er fjallað um áætlun um öryggi og heilbrigði og heilsufarsskoðanir. Allir sem koma að vinnuverndarstarfi ættu að kynna sér þessa reglugerð ítarlega.

1. gr. 

Gildissvið. 
Reglugerð þessi gildir um alla starfsemi þar sem einn eða fleiri menn vinna, hvort sem um er að ræða eigendur fyrirtækja eða starfsmenn og lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, gilda um. 
Ákvæði annarra laga, reglna eða reglugerða, sem hafa að geyma strangari reglur um heilsuvernd og öryggi starfsmanna en reglugerð þessi mælir fyrir um skulu halda gildi sínu. 

VIII. KAFLI 

Áætlun um öryggi og heilbrigði og heilsufarsskoðanir.

26. gr. 

Almennt. 
Atvinnurekandi ber ábyrgð á gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, sbr. 65. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Áætlunin skal tryggja að vinnuverndarstarf fyrirtækisins verði markvisst. Skal hún meðal annars fela í sér sérstakt áhættumat, sbr. 27. gr. reglugerðar þessarar, sem og áætlun um heilsuvernd, þar á meðal áætlun um forvarnir, sem byggð er á áhættumati, sbr. 28. gr. reglugerðar þessarar. Áætlunin á að gefa gott yfirlit yfir áhættu- og álagsþætti og forvarnir til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á heilsutjóni og slysum vegna vinnuaðstæðna og til að stuðla að öryggi, heilbrigði og vellíðan starfsmanna. 
Atvinnurekandi skal sjá til þess að áætlun um öryggi og heilbrigði skv. 1. mgr. sé framfylgt í daglegri starfsemi fyrirtækisins og að vinnuverndarstarfið sé órjúfanlegur þáttur hennar. Árangur af hinu kerfisbundna starfi skal metinn reglulega í samráði við öryggisvörð og öryggistrúnaðarmann eða öryggisnefnd fyrirtækisins og úrbætur gerðar eftir því sem niðurstöður árangursmatsins gefa tilefni til. 
Áætlun um öryggi og heilbrigði skv. 1. mgr. skal fela í sér ferli stöðugra umbóta. Áður en breytingar eru gerðar á starfsemi fyrirtækis skal atvinnurekandi meta, hvort þær feli í sér áhættu með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og hvort úrbóta sé þörf. Í forvarnaskyni skal gera a.m.k. árlega samantekt yfir vinnuslys, óhöpp og atvinnutengda sjúkdóma sem upp hafa komið frá síðustu samantekt. 
Áætlun um öryggi og heilbrigði skv. 1. mgr. skal vera aðgengileg innan fyrirtækisins fyrir þá sem annast vinnuverndarstarfið, svo og aðra starfsmenn. Á sama hátt skal áætlunin vera aðgengileg starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins óski þeir eftir því.

27. gr. 

Áhættumat. 
Áhættumat skal vera skriflegt og taka til vinnuaðstæðna starfsmanna. Við gerð áhættumats skal meta áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Hafa skal hliðsjón af eðli starfseminnar sem og stærð og skipulagi fyrirtækisins. Jafnframt skal sérstaklega litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að öryggi og heilsu starfsmanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin en öðrum starfsmönnum. Við áhættumatið skal vega saman alvarleika hættunnar og líkurnar á því að hætta skapist. 
Aðferðir við gerð áhættumats eru valfrjálsar en sú aðferð sem valin er hverju sinni skal vera til þess fallin að greina þá áhættu sem getur verið til staðar í fyrirtækinu. Tryggt skal að áhættumatið feli í sér eftirfarandi: 
 1. Greiningu – að vinnuaðstæður séu skoðaðar á kerfisbundinn hátt og áhættuþættir í vinnuumhverfi, vinnuskipulagi og við framkvæmd vinnu greindir og skráðir. 
 2. Mat – að allir áhættuþættir séu metnir, þ.e. eðli, alvarleiki, umfang og orsök hættunnar. 
 3. Samantekt – að gerð sé samantekt á niðurstöðum áhættumatsins. 
Vinnueftirlit ríkisins gefur út leiðbeiningar um gerð áhættumats og áætlunar um 
heilsuvernd, þar á meðal áætlunar um forvarnir, sem skulu taka mið af breytilegum aðstæðum einstakra atvinnugreina.

28. gr. 

Áætlun um heilsuvernd og framkvæmd hennar. 
Þegar áhættumat skv. 27. gr. liggur fyrir ber atvinnurekandi ábyrgð á að gerð sé áætlun um heilsuvernd, þar á meðal áætlun um forvarnir. 
Áætlun skv. 1. mgr. skal fela í sér að gerðar séu nauðsynlegar úrbætur í samræmi við niðurstöður áhættumatsins. 
Tilgreina skal til hvaða aðgerða er gripið af hálfu atvinnurekanda til að koma í veg fyrir eða draga úr þeirri áhættu sem kom í ljós við áhættumatið, svo sem úrbætur varðandi skipulag og framkvæmd vinnunnar, leiðbeiningar, fræðslu, þjálfun, val á tækjum, efnum eða efnablöndum, notkun öryggis- eða hlífðarbúnaðar, innréttingar á vinnustað eða aðrar forvarnir. 
Þegar í stað skal bregðast við bráðri áhættu og þeirri áhættu sem auðvelt er að draga úr eða koma í veg fyrir. Í áætlun skv. 1. mgr. skal forgangsraða úrbótum sem grípa þarf til vegna áhættu á vinnustað og tímasetja hvenær þeim verði lokið. 
Við val á aðgerðum skal taka mið af þeim almennu viðmiðum um forvarnir sem fram koma í viðauka I. Eftir að áhættan hefur verið metin á þann hátt sem nauðsynlegt er skulu forvarnarráðstafanir felldar inn í alla starfsemi vinnustaðarins á öllum stigum þar sem þær eiga við. Atvinnurekandi skal laga þessar ráðstafanir að breyttum kringumstæðum og hafa að markmiði að bæta ríkjandi aðstæður.

29. gr. 

Eftirfylgni. 
Atvinnurekandi skal tryggja eftirfylgni að úrbótum loknum með því að meta úrbætur að ákveðnum tíma liðnum og gera endurbætur ef þörf krefur.

30. gr. 

Endurskoðun áætlunar um öryggi og heilbrigði. 
Endurskoða skal áætlun um öryggi og heilbrigði þegar breytingar á vinnuaðstæðum, vinnutilhögun eða framleiðsluaðferðum breyta forsendum hennar. Þegar vinnuslys eða alvarleg óhöpp verða eða komi upp atvinnutengdir sjúkdómar eða önnur atvik eða aðstæður sem benda til áhættu skal endurskoða þá þætti áætlunarinnar sem eiga við.

31. gr. 

Heilsufarsskoðanir. 
Starfsmenn skulu eiga kost á heilsufarsskoðunum á kostnað atvinnurekanda áður en þeir eru ráðnir til starfa, meðan þeir eru í starfi og þegar við á eftir að þeir eru hættir störfum, enda séu vinnuaðstæður þeirra slíkar að heilsutjón geti hlotist af og ástæða til þess að ætla að með heilsufarsskoðunum megi koma í veg fyrir eða hefta atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma. 
Heilsufarsskoðanir skv. 1. mgr. skulu vera í höndum heilbrigðisstarfsmanna og taka mið af áhættumati viðkomandi fyrirtækja og starfsgreina og einnig þeim reglum sem í gildi eru um mismunandi starfshópa.

VIÐAUKI I 

Almenn viðmið um forvarnir
Við skipulagningu og útfærslu vinnunnar skal atvinnurekandi byggja á þeim almennu viðmiðum um forvarnir sem hér fara á eftir: 
 1. a) að koma í veg fyrir áhættu, 
 2. að meta áhættu sem ekki er unnt að koma í veg fyrir, 
 3. að ráðast að rótum áhættunnar, 
 4. að laga vinnuferli að einstaklingum, einkum við hönnun vinnustaðarins, og þegar valin eru tæki og vinnu- og framleiðsluaðferðir. Skal þetta einkum gert til að draga úr einhæfni við vinnu og vinnu með fyrirfram ákveðnum hraða svo að koma megi í veg fyrir heilsuspillandi áhrif sem slíkt kann að hafa á starfsmenn, 
 5. að aðlagast tækniframförum, 
 6. að skipta á því sem er hættulegt og því sem er ekki hættulegt eða er síður hættulegt, 
 7. að móta heildstæða stefnu um forvarnir sem tekur til tækni, skipulagningar vinnunnar, vinnuskilyrða, félagslegra tengsla og þátta er tengjast vinnuumhverfi, 
 8. að forvarnir sem ná til fjölda starfsmanna hafi forgang fram yfir ráðstafanir sem vernda einstaka starfsmenn, 
 9. að starfsmenn fái viðeigandi tilsögn.