Heilsufar sérstakra hópa

Næturvinnustarfsmenn

Í athugasemdum sem gerðar voru við lagafrumvarp nr. 68/2003 um breytingar á Vinnuverndarlögunum er mælt með því að undir ákvæðið um heilsufarsskoðanir falli sú skylda, sem mælt er fyrir um í a-lið 1. mgr. 9. gr. vinnutímatilskipunarinnar (93/104/ES), að næturvinnustarfsmenn eigi rétt á heilsufarsskoðun sér að kostnaðarlausu áður en ráðning fer fram og með reglulegu millibili þaðan í frá.

Hér er einungis átt við heilsufarsskoðun sem tengist starfsskilyrðum starfsmanna en ekki almenna heilsugæslu vegna tilfallandi sjúkdóma eða óþæginda. Starfsmenn skulu leita eftir sem áður til heilsugæslustöðva eða heimilislæknis vegna almennra heilbrigðisþjónustu.
Næturvinnustarfsmenn sem eiga við heilsufarsvandamál að stríða, sem sannanlega verða rakin til vinnutíma skulu, þegar því er við komið, færðir til í dagvinnustörf sem henta þeim. (46/1980, 57. gr.).

Þungaðar konur og konur með barn á brjósti

Ef konur á barnseignaraldri eða þungaðar konur eru á vinnustaðnum ber að hafa í huga að það, sem getur verið hættulaust fyrir aðra, getur verið varhugavert ef þunguð kona á í hlut. Meta skal áhættu fyrir öryggi og heilbrigði og hugsanleg áhrif á þungaðar konur eða konur sem hafa barn á brjósti. Taka skal ákvörðun um ráðstafanir út frá því.

Reglugerð nr. 931/2000 um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti

2. gr. 

Hugtök Þegar hugtökin „þunguð kona“, „kona sem hefur nýlega alið barn“ og „kona sem hefur barn á brjósti“ eru notuð í reglugerð þessari er átt við starfsmenn sem hafa greint vinnuveitanda sínum frá því ásigkomulagi sínu.

3.gr. 

Mat og upplýsingar
Þegar störf geta haft í för með sér hættu sakir mengunar, vinnuaðferða eða vinnuskilyrða, sbr. skrá í I. viðauka, skal vinnuveitandi eða þjónustuaðili á sviði vinnuverndar og forvarna, samkvæmt ósk vinnuveitanda, meta eðli hættunnar fyrir starfsmenn, sbr. 2. gr., á hlutaðeigandi vinnustað, umfang hennar og hve lengi hún stendur yfir svo unnt sé að:   
  1. meta áhættu fyrir öryggi og heilbrigði og hugsanleg áhrif á þungaðar konur eða konur sem hafa barn á brjósti,
  2. taka ákvörðun um ráðstafanir.
(Í I. viðauka er skrá yfir helstu skaðvalda, vinnuaðferðir og vinnuskilyrði sem getið er um í 1. mgr. 3. gr.)

5. gr.

Tilvik þar sem vinna er bönnuð. 
Óheimilt er að skylda þungaðar konur til að vinna störf sem mat skv. 1. mgr. 3. gr. hefur sýnt að gætu verið hættuleg vegna mengunar eða vinnuskilyrða, sbr. A-lið II. viðauka, og gætu stefnt öryggi og heilbrigði þeirra í voða. (Í viðauka II er skrá yfir helstu skaðvalda og vinnuskilyrði sem getið er um í 5. gr.) Einnig er óheimilt að skylda konur sem hafa barn á brjósti til að vinna störf sem mat skv. 1. mgr. 3. gr. hefur sýnt að gætu verið hættuleg sakir mengunar eða vinnuskilyrða, sbr. B-lið II. viðauka, og gætu stefnt öryggi og heilbrigði þeirra í voða.

6. gr.

Vinna að næturlagi
Óheimilt er að skylda starfsmenn í skilningi 2. gr. til að vinna að næturlagi á meðgöngutíma og jafnframt í allt að sex mánuði eftir barnsburð, enda sé slíkt nauðsynlegt vegna öryggis og heilbrigðis hennar og hún staðfesti það með læknisvottorði.

Reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga

1.gr. 

Hugtök. 
Reglugerð þ essi tekur til vinnu einstaklinga undir 18 ára aldri.  Ungmenni merkir í reglugerð þ essari einstakling undir 18 ára aldri.  Barn merkir í reglugerð þ essari einstakling undir 15 ára aldri eða sem er í skyldunámi.  Unglingur merkir í reglugerð þ essari einstakling sem hefur náð 15 ára aldri en er undir 18 ára aldri og er ekki lengur í skyldunámi.

4. gr. 

Almennt ákvæði 
Við öll störf ungmenna undir 18 ára aldri skal við val og skipulagningu á vinnu leggja áherslu á að öryggi og að andlegu og líkamlegu heilbrigði ungmenna sé ekki hætta búin og að vinnan hafi ekki truflandi áhrif á menntun þeirra eða þroska. 

Í 5. grein er fjallað um áhættumat. Þar segir m.a.: 

Sýni matið að öryggi, líkamlegri eða andlegri heilsu eða þroska ungmennis geti verið stofnað í hættu skal atvinnurekandi sjá til þess að reglulega fari fram viðeigandi skoðun og eftirlit með heilsu ungmenna þeim að kostnaðarlausu. Við mat á áhættu skal sérstaklega taka tillit til hættunnar sem stafar af ungum aldri, skorts á reynslu og meðvitund um hættur starfsins, ásamt því að ungmennin eru ekki fullþroska. Við mat á varúðarráðstöfunum skal jafnframt taka tillit til líkamlegra, lífrænna, efnafræðilegra og sálrænna áhrifa sem ungmenni geta orðið fyrir til lengri eða skemmri tíma vegna vinnunnar. 

Taka ber tillit til viðmiða um vinnutíma fyrir mismunandi aldur, sem fram koma í reglugerðinni.  

Í 70. gr. vinnuverndarlaganna segir: Félagsmálaráðherra getur sett sérstakar reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins um læknisskoðun barna og unglinga undir 18 ára aldri, þegar þau hefja störf. Í þessum tilvikum gildir 67. gr. laga þessara. Sérstaka skoðun má fella niður, ef fyrir liggur nýtt vottorð skólalæknis um það, að hann hafi skoðað viðkomandi og ekki sé vitað til að hann hafi eða hafi áður haft neinn þann sjúkdóm, sem geti haft áhrif á öryggi hans eða heilbrigði í tilteknu starfi.

Nokkrar aðrar reglur og reglugerðir

Á heimasíðu Vinnueftirlitsins má finna allar reglur og reglugerðir sem heyra undir vinnuverndarlögin og einnig þær sem Vinnueftirlitinu er falið að hafa eftirlit með framkvæmd á og/eða varða starfsemi þess á einhvern hátt.

M.a. má nefna: