Heilsufarsskoðanir

Heilsufarsskoðanir og áhættumat

Heilsufarsskoðanir starfsmanna skulu taka mið af áhættumati í fyrirtækjum, þekktrar áhættu í starfsgreinum sem og þeim reglugerðum sem í gildi eru um mismunandi starfsemi.

Heilbrigðisstarfsmenn skulu annast heilsufarsskoðanir. Heilsuvernd á vinnustað nær ekki til almennrar heilsugæslu starfsmanna vegna tilfallandi sjúkdóma eða óþæginda nema um sé að ræða sameiginlega ósk atvinnurekanda og starfsmanna.

Markmið með heilsufarsskoðunum starfsmanna er að koma í veg fyrir eða hefta atvinnutengda vanlíðan, atvinnutengda sjúkdóma eða atvinnusjúkdóma.

Atvinnurekandi og heilsufarsskoðanir

Samkvæmt vinnuverndarlögunum (67. gr.) skulu starfsmenn eiga kost á heilsufarsskoðun á kostnað atvinnurekanda áður en þeir eru ráðnir til starfa, meðan þeir eru í starfi og þegar við á eftir að þeir eru hættir störfum, ef starfsskilyrði þeirra eru slík að heilsutjón geti hlotist af og ástæða til að ætla að á þann hátt megi koma í veg fyrir eða hefta atvinnusjúkdóma eða atvinnutengda sjúkdóma.

Í reglum¹ sem félagsmálaráðherra setur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og landlæknis, skal nánar kveðið á um í hverju heilsufarsskoðun skuli fólgin, tíðni eftirlits og hvaða mælingar og aðrar rannsóknir skulu gerðar að teknu tilliti til starfsumhverfis. Heimilt er að setja slíkar reglur fyrir einstakar starfsgreinar2.

Atvinnurekandi skal tryggja að heilsufarsskoðanir, mælingar og rannsóknir valdi ekki tekjutapi hjá starfsmönnum. Starfsmönnum og fyrrverandi starfsmönnum ber skylda til að gangast undir eftirlit, skoðanir, mælingar og rannsóknir samkvæmt reglum þeim, sem gilda á hverjum tíma (lög 46/1980, 69. gr.)

Tilkynningar

Læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður sem kemst að því eða fær grun um að starfsmaður eða hópur starfsmanna hafi atvinnusjúkdóm, atvinnutengdan sjúkdóm eða hafi orðið fyrir öðrum skaðlegum áhrifum vegna starfa sinna, skal án ástæðulausrar tafar tilkynna það til Vinnueftirlitsins (lög 46/1980, 79. gr.). Eyðublöð um tilkynningar atvinnusjúkdóma má finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins.


¹Reglugerð 920/2006reglugerð 921/2006reglugerð 922/2006
2Lög 46/1980