Áhættumat

Samkvæmt vinnuverndarlögum nr. 46/1980 ber atvinnurekandi ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem byggir á áhættumati. Markmiðið er að stuðla að öryggi og heilbrigði starfsfólks og koma í veg fyrir heilsutjón vegna vinnunnar eða vinnuumhverfisins. 
 
Mat á áhættu skal ná til allra þeirra þátta í vinnuumhverfinu sem geta haft áhrif á heilsu og öryggi. Sérstaklega skal litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi starfsfólks sé hætta búin.

Þegar áhættumat gefur til kynna að vandamál sé fyrir hendi skal atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á atvinnutengdu heilsutjóni, óþægindum og slysum. 
 
Öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn taka þátt í gerð áætlunarinnar og fylgjast með því hvernig henni er framfylgt. Í því felst þátttaka í gerð áhættumats og áætlunar um heilsuvernd og forvarnir.

Eftirfarandi þættir skulu skoðaðir við gerð áhættumats:
 
  • Efni og notkun hættulegra efna á vinnustað
  • Félagslegir og andlegir vinnuverndarþættir (samskipti, upplýsingaflæði, tímaþröng, einelti o.s.frv.)
  • Álag á hreyfi- og stoðkerfi
  • Umhverfisþættir (hávaði, lýsing og birtuskilyrði, hiti, kuldi, titringur, dragsúgur, smitleiðir o.fl.)
  • Vélar og tæki