Ábendingar um einelti, áreitni eða ofbeldi

Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og annað ofbeldi á vinnustöðum ógnar heilsu og líðan fólks. Með góðri stjórnun, forvörnum og skjótum viðbrögðum er hægt að koma í veg fyrir slíkt. Starfsmenn, sem orðið hafa fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi eða hafa vitneskju um slíkt á vinnustað, eru hvattir til að upplýsi atvinnurekanda sinn eða vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins, svo hægt sé að bregðast við eins fljótt og kostur er.

Vinnueftirlitið tekur við ábendingum um vinnuumhverfi og er hægt að senda inn kvörtun eða ábendingu nafnlaust eða með nafni til Vinnueftirlitsins í gegnum ábendingarflipa á forsíðu. Ávallt þarf að tiltaka nafn fyrirtækisins.

Þegar Vinnueftirlitinu berst ábending er metið hvort ástæða er til að fara í eftirlitsheimsókn á vinnustaðinn eða brugðist er við á annan hátt. Vinnueftirlitinu er ekki heimilt að taka ákvarðanir í málum einstakra starfsmanna, hvort sem ábendingin lýtur að líkamlegri eða andlegri vanlíðan þeirra, heldur skulu ákvarðanir Vinnueftirlitsins beinast að aðstæðum á vinnustaðnum og ábyrgð atvinnurekandans á vinnuumhverfinu.

Skyldur atvinnurekanda

Atvinnurekanda ber skylda til að láta einelti, kynferðislega áreitni og kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað ekki viðgangast og skal hann gera starfsmönnum ljóst með skýrum hætti að slík hegðun er óheimil.

Atvinnurekandi skal haga vinnuaðstæðum í samræmi við skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði fyrir vinnustaðinn. Markmið áætlunarinnar er meðal annars að draga úr hættu á að aðstæður skapist sem leitt geti til eineltis, kynferðislegrar áreitni og kynbundinnar áreitni eða ofbeldis á vinnustaðnum.

Atvinnurekandinn skal hafa samráð við öryggistrúnaðarmann og öryggisvörð/ öryggisnefnd við gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði fyrir vinnustaðinn þar sem hún á að tryggja að vinnuverndarstarf fyrirtækisins í heild verði markvisst. Hluti af þessari áætlun er stefna og viðbragðsáætlun gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi fyrir vinnustaðinn. Leiðbeiningar við gerð slíkrar áætlunar má finna í fræðsluefni og reglugerð nr. 1009/2015.

Ef fram kemur ábending um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað skal atvinnurekandi bregðast við eins fljótt og hægt er og í samræmi við stefnu og viðbragðsáætlun vinnustaðarins. Leitast skal við að leysa málin innan vinnustaðarins og vinnuverndarfulltrúar (öryggistrúnaðarmaður og öryggisvörð) upplýstir um gang mála.

Hlutverk og viðbrögð Vinnueftirlitsins

Vinnueftirlitið hefur leiðbeinandi hlutverk og eftirlitsskyldu með að lögum og reglum á sviði vinnuverndar sé framfylgt, þar með talin reglugerð nr. 1009/2015 um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi.

Vinnueftirlitið tekur við ábendingum um vanbúnað á vinnustöðum, þar með talið um einelti, áreitni eða ofbeldi frá starfsmönnum eða öðrum þeim er verður þess áskynja. Vinnueftirlitið úrskurðar ekki um það hvort tiltekinn einstaklingur hafi orðið fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi.

Þegar Vinnueftirlitinu berst ábending er metið hvort ástæða er til að fara í eftirlitsheimsókn á vinnustaðinn eða brugðist er við á annan hátt. Í samskiptum eftirlitsins við vinnustaðinn er efni ábendingarinnar ekki tekið upp á einstaklingsgrunni, nema að ábendingaraðili gefi sérstaklega samþykki fyrir því, heldur er almennt rætt um áhrifaþætti í félagslega vinnuumhverfinu.

Þegar farið er í eftirlitsheimsókn er lögð áhersla á þær skyldur atvinnurekenda að stuðla að forvörnum og bregðast við á markvissan hátt ef einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi eða samskiptaágreiningur, kemur upp á vinnustað. Sjá nánar fræðsluefni hér að neðan.

Vinnueftirlitið gerir kröfu um að atvinnurekandi tryggi öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi á öllum sviðum vinnustaðarins.

Fræðsluefni

Vinnueftirlitið hefur gefið út fræðsluefni um félagslega og andlega áhættuþætti í vinnuumhverfinu. Þar er meðal annars að finna leiðir til forvarna gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað:

Eldra fræðsluefni