Vinnuvélar

Vinnuvélar er hér notað sem samheiti yfir farandvélar, farandvinnuvélar og vinnuvélar.

  • Farandvél er tæki sem getur flutt sig úr stað með eigin aflvél.
  • Vinnuvél er tæki, sem knúið er af aflvél og hægt að vinna með nánar tiltekin störf.
  • Farandvinnuvél er tæki sem er hvort tveggja í senn farandvél og vinnuvél.

Um skráningu og skoðun gildir reglugerð nr. 388 frá 1989 um skráningu og skoðun farandvinnuvéla og vinnuvéla.

Skráningarhandbók

Í skráningarhandbókinni eru upplýsingar um skráningarkerfi vinnuvéla og tækja sem skráð eru hjá Vinnueftirliti ríkisins. Þetta hefti er gefið út til endurnýjunar á hliðstæðum eldri ritum og nú bætist við skráning á geymslum fyrir sprengiefni. Frá því að heftið var fyrst gefið út hafa mörg fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar óskað eftir upplýsingum um skráningarkerfi Vinnueftirlitsins fyrir vinnuvélar og tæki.

Með þessari útgáfu er leitast við að gefa glögga mynd af skráningarkerfinu t.d. fyrir þá sem sækja um skráningar vinnuvéla og tækja til Vinnueftirlitsins og aðra þá sem þurfa að kunna skil á því. Skráningarhandbókin er fyrst og fremst ætluð sem netútgáfa og liggur ekki fyrir sem prentuð handbók hjá Vinnueftirlitinu.

Vinnuvélaskoðanir

Vinnuvélar skal skoða árlega. Auk þess skulu þær skoðaðar fyrir og eftir verulegar viðgerðir og breytingar á burðarvirkjum.

Skoðun er á ábyrgð eiganda og ber honum að panta skoðun árlega hjá Vinnueftirlitinu. Það er ýmist hægt að gera beint af heimasíðu eða í gegnum mínar síður fyrir þá sem þær nota.

Verðskrá skoðana

Gjald fyrir vinnuvélaskoðanir er ákvarðað í gjaldskrá Vinnueftirlits ríkisins nr. 571/2001 ásamt síðari breytingum.

Skráningar vinnuvéla

Áður en vinnuvél, sem reglur nr. 388/1989 um skráningu og skoðun farandvinnuvéla og vinnuvéla ná til, er tekin í notkun, skal hún skráð hjá Vinnueftirlitinu.

Erlend fyrirtæki sem hyggjast vera með starfsemi hér á landi skulu hafa í huga að áður en vinnuvél, sem reglur nr. 388/1989 um skráningu og skoðun farandvinnuvéla og vinnuvéla ná til, er tekin í notkun, skal hún skráð hjá Vinnueftirlitinu. Athugið að skrá verður vinnuvél á íslenska kennitölu.

Eyðublað fyrir umsókn um skráningu vinnuvélar.

Hægt er að skrá vinnuvél á Mínum síðum Vinnueftirlitsins.

Eigendaskipti vinnuvéla

Seljandi og kaupandi bera báðir ábyrgð á tilkynningu eigendaskipta. Þeim er bent á að halda eftir eintaki af tilkynningunni með því að ljósrita frumritið eða undirrita aukaeintök. Verð eigendaskipta er ákveðið í gjaldskrá fyrir sérstök eftirlits- og þjónustustörf - liður 108.

Hægt er að framkvæma eigendaskipti á Mínum síðum Vinnueftirlitsins.

Vinnuvélanámskeið og -réttindi

Til að geta öðlast réttindi til að stjórna vinnuvél þarf viðkomandi að vera fullra 17 ára, hafa ökuréttindi á bifreið og hafa lokið tilskildu námi og þjálfun. Námskeiðunum lýkur með prófi sem veitir rétt til að hefja verklega þjálfun undir umsjón kennara. Að lokinni verklegri þjálfun á vinnustað fer fram verklegt próf á vinnustaðnum. Hafa þarf samband við Vinnueftirlitið og panta prófdómara. Að loknu verklegu prófi er sótt um vinnuvélaskírteini sem veitir rétt til að stjórna tilgreindri vinnuvél.

Nánari upplýsingar um vinnuvélanámskeið