Þrýstibúnaður

Þrýstibúnaður eða búnaður undir þrýstingi

Þegar rætt er um þrýstibúnað er verið að tala um margs konar kerfi sem vinna undir þrýstingi.  Um getur verið að ræða búnað sem notaður er víða, allt frá kaffivélum sem nota gufu og upp í stóra gufukatla í fiskimjölsverksmiðjum.
Reglur nr. 1022/2017 um þrýstibúnað gilda þegar þrýstingur á kerfunum fer yfir 0,5 bar yfirþrýsting.  Almenna reglan er að slíkur búnaður skal vera CE merktur.  Viðmiðunarmörk eru tiltekin nánar í reglunum og er þá verið að vísa til þeirrar hættu sem búnaðurinn getur skapað. Eftir því sem rýmd og þrýstingur vex eykst hætta.

Loftþrýstikerfi

Loftþrýstikerfi eru viða notuð í iðnaði við ýmiss konar verkefni og stýringar. Má þar nefna loftverkfæri, loftjakka, hreinsunarkerfi ofl.

Katlar

Katlar eru notaðir við gufuframleiðslu til ýmissa nota. Allt frá gufustraujárnum í fatahreinsunum yfir í öfluga rafskautakatla í fiskimjölsverksmiðjum.

Kæli- og frystikerfi

Kæli- og frystikerfi eru víða í notkun. Má þar nefna kæliborð í matvöruverslun upp í frystigeymslur skipafélaga.   Reglurnar um þrýstibúnað vísa í notkun staðla til að uppfylla ákvæðin sem sett eru í reglugerðinni. Dæmi um það er staðall ÍST EN 378 Kælikerfi og varmadælur.   Einnig er til reglugerð nr. 012/1965 um öryggisráðstafanir við frystikerfi og búnað í frystihúsum.

Einföld þrýstihylki.

Sérstakar reglur eru um búnað sem er fjöldaframleiddur og hefur hámarksvinnuþrýsting upp á 30 bar yfirþrýsting og mesta margfeldi vinnuþrýstings og rúmmáls (PS x V)  30.000 barlítrar.    Það eru fleiri takmarkandi þættir sem eru í reglum nr. 99/1996 um einföld þrýstihylki.

Úðabrúsar

Úðabrúsar er búnaður undir þrýstingi, hann getur skapað hættu ef hann er ekki rétt meðhöndlaður. Hann er ekki CE merktur en ber sem sérmerkingu táknið „3“ (spegilmynd af gríska stafnum epsilon) til staðfestingar því að kröfurnar í reglugerð nr. 260/2012 um úðabrúsa séu uppfylltar.

Færanlegur þrýstibúnaður

Færanlegur þrýstibúnaður eru ýmiss konar hylki sem ætluð er til notkunar víða.  Má þar nefna propangashylki sem notuð eru við grill landsmanna. Þetta er búnaður sem hægt er að flytja og meginnotkun hans er einmitt að flytja efni.  Nánari skilgreiningu er að finna í reglugerð nr. 218/2013 færanlegan þrýstibúnað. Þessi búnaður er ekki CE merktur en hann á að vera með sérstökum merkingum  π  pí.