CE merkingar

AlmenntCE merki

Framkvæmdastjórn þáverandi Evrópska efnahagsbandalagsins (núverandi ESB) samþykkti árið 1985 hina svokölluðu “nýju aðferð” (New Approach) við að afnema tæknilegar viðskiptahindranir milli aðildarríkja bandalagsins. Það að hvert land fyrir sig gæti sett fram kröfur varðandi öryggi og eiginleika vöru og hamlað þannig innflutningi frá öðrum löndum átti því að heyra sögunni til. Til að ná þessu markmiði voru settar svokallaðar “nýaðferðatilskipanir” sem skilgreina almennar og samræmdar kröfur til öryggis og eiginleika tiltekins flokks varnings. Nýaðferðatilskipanirnar eru síðan innleiddar sem reglugerðir, eða með öðrum lagalega bindandi hætti, innan þeirra ríkja sem tilheyra Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Vara sem uppfyllir ákvæði tilskipananna er CE-merkt, að undangengnu áhættu- og samræmismati, og á þar með að hafa frjálst flæði yfir landamæri innan EES/ESB, eða hins svokallaðar sameiginlega markaðar. CE-merkinu hefur því stundum verið líkt við vegabréf vöru. Sjá einnig bækling á vef Neytendastofu.

Nýaðferðatilskipanir sem heyra undir Vinnueftirlitið

Vinnueftirlitið hefur með höndum markaðseftirlit með m.a. vélum, tækjum, persónuhlífum,  og þrýstibúnaði sbr. viðeigandi nýaðferðatilskipanir. Hérna er hægt að nálgast yfirlit yfir þær reglur og reglugerðir sem settar eru til innleiðingar á  nýaðferðatilskipunum og heyra undir verksvið Vinnueftirlitsins.

Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda

Nýaðferðatilskipanirnar kveða á um ábyrgð framleiðenda. Það er framleiðandi og/eða innflytjandi sem er ábyrgur fyrir öryggi vörunnar. Í flestum tilfellum er nægilegt að viðkomandi staðfesti að varan sé í samræmi við viðeigandi kröfur, að undangengnu áhættu- og samræmismati. Stundum þarf þó að ganga lengra, t.d. þegar um hættulegar vélar er að ræða, sbr. viðauka IV í reglugerð nr. 1005/2009, en þá getur þurft að fá utanaðkomandi aðila að málinu.

CE-merkingar véla og tækja

Algengt er að Vinnueftirlitinu berist fyrirspurnir varðandi CE-merkingu véla og tækja. Hér á landi eru það framleiðendur véla og tækja sem þurfa að CE-merkja sína framleiðslu, sbr. reglugerð um vélar og tæknilegan búnað, nr. 1005/2009 og skiptir þá engu hvort flytja eigi vöruna til annarra EES ríkja eða eingöngu eigi að markaðssetja eða nota hana hér á landi. CE-merkingarferli skv. reglugerðinni felur í sér að vinna áhættumat og samræmismat. Að því undangengnu er gefin út samræmisyfirlýsing og þegar hún liggur fyrir má CE-merkja búnaðinn. Sjá einnig þennan bækling um CE merkingar á vef Neytendastofu.   Áhættumatið er hægt að framkvæma á ýmsa vegu en líklega er þægilegast að vinna það út frá ÍST EN ISO 12100 staðlinum. Staðallinn er nokkuð þægilegt og aðgengilegt verkfæri við áhættumatsgerð og leiðir viðkomandi í gegnum það. Hægt er að nálgast staðalinn, sem og aðra staðla, á heimasíðu Staðlaráðs.   Samræmismatið felur í sér að meta hvort búnaðurinn sem um ræðir sé í samræmi við og uppfylli ákvæði viðkomandi reglugerða og staðla sem um búnaðinn fjalla. Í tilviki véla og tækja eru grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi skilgreindar í viðauka I í reglugerð nr. 1005/2009, auk þess að vera skilgreindar í stöðlum. Einnig geta aðrar reglugerðir þurft að vera til hliðsjónar við samræmismatið, t.d. varðandi frágang á rafbúnaði eða þrýstibúnaði.  

Námskeið

Vinnueftirlitið og Staðlaráð halda reglulega námskeið varðandi CE-merkingar véla og tækja - nánar á heimasíðu Staðlaráðs.

Frekari upplýsingar