Launastefna Vinnueftirlitsins

Forstjóri ber ábyrgð á launastefnu Vinnueftirlitsins og er jafnlaunastefna þess órjúfanlegur hluti af launastefnu þess.

Stefna Vinnueftirlitsins er að allir starfsmenn Vinnueftirlitsins njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu og jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar. Með jöfnum launum er átt við að laun og önnur starfskjör skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Skulu viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun hvorki fela í sér beina né óbeina kynjamismunun.

Laun eru skilgreind í 8. tölul. 2. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum, sem almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, bein og óbein, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum fyrir vinnu hans.

Kjör eru skilgreind í 9. tölul. 2. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum, sem laun ásamt lífeyris-, orlofs- og veikindaréttindum og hvers konar öðrum starfskjörum eða réttindum sem metin verða til fjár.

Með beinni mismunun er átt við þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð en annar einstaklingur af gagnstæðu kyni fær, hefur fengið eða mundi fá við sambærilegar aðstæður, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum.

Með óbeinni mismunun er átt við þegar að því er virðist hlutlaust skilyrði, viðmið, eða ráðstöfun kæmi verr við einstaklinga af öðru kyninu borið saman við einstaklinga af hinu kyninu nema slíkt sé unnt að réttlæta á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná þessu markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum.

Vinnueftirlitið greiðir laun samkvæmt umfangi og eðli starfa og tekur mið af þeim kröfum sem störf gera um hæfni, ábyrgð og álag. Skal tryggt að viðmiðin séu ávallt málefnaleg og viðeigandi. Forsendur launaákvarðana eru að þær séu í samræmi við kjara- og stofnanasamninga, studdar rökum og tryggi að sömu laun séu greidd fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf.

Starfslýsingar skulu vera til fyrir öll störf hjá Vinnueftirlitinu. Þar skulu koma fram allir meginþættir starfs, svo sem kröfur um menntun, hæfni, reynslu og þá ábyrgð sem í starfinu felst auk upplýsinga um starfaflokk samkvæmt jafnlaunakerfi.

Vinnueftirlitið skal innleiða, skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012 og öðlast vottun í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum.

Framkvæmdastjórn tekur endanlegar ákvarðanir um launabreytingar allra starfsmanna Vinnueftirlitsins. Fulltrúar í stjórn stofnunarinnar teljast ekki til starfsmanna hennar. Í framkvæmdastjórn sitja forstjóri og sviðsstjórar.

Sérstakt launaráð skal vera starfrækt sem í sitja forstjóri, sviðsstjóri rekstrar og innri þjónustu og launafulltrúinn. Hlutverk launaráðsins er að tryggja stöðugar umbætur á launakerfinu og annast eftirlit með því að launastefnu stofnunarinnar, þar á meðal jafnlaunastefnu, sé fylgt eftir við ákvarðanir launa. Launaráð fer yfir laun allra starfsmanna stofnunarinnar árlega eða oftar til að tryggja að samræmi sé gætt í launagreiðslum. Sérstaklega skal að því gætt að hvorki sé fyrir hendi bein eða óbein mismunun við ákvarðanir launa.

Árlega skal gera jafnlaunaúttekt og komi í ljós kynbundinn launamunur, sem ekki er unnt að skýra með málefnalegum hætti, þarf að bregðast við og leiðrétta þann mun. Skal launaráðið sjá til þess að jafnlaunaúttektir fari fram árlega og komi með tillögur til framkvæmdastjórnar um úrbætur þegar það á við. Í því felst meðal annars að kanna hvort kynbundinn munur sé á launum og starfskjörum og setja fram og rýna jafnlaunamarkmið. Niðurstöður jafnlaunaúttektar skal kynna fyrir starfsfólki Vinnueftirlitsins.

Gæðastjóri stofnunarinnar skal framkvæma innri úttekt einu sinni á ári. Enn fremur skal rýni stjórnenda Vinnueftirlitsins fara fram árlega. Rýni stjórnenda fer fram í framkvæmdastjórn og felur meðal annars í sér reglulega endurskoðun á kröfum sem störf gera um hæfni, ábyrgð og álag í því skyni að tryggja að viðmiðin séu ávallt málefnaleg og viðeigandi. Stofnunin skal fylgja eftir lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma og skal framkvæmdastjórn hennar staðfesta að þeim sé hlítt.

Launastefna Vinnueftirlitsins skal birt á ytri vef stofnunarinnar.