Stefna

Stefna Vinnueftirlitsins

Hlutverk

Að stuðla að öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi sem jafnan sé í samræmi við félagslega framþróun og bestu þekkingu á hverjum tíma. Sérstök áhersla verði lögð á að efla markvisst vinnuverndarstarf á vinnustöðunum sjálfum.

Framtíðarsýn

Tíðni vinnuslysa og atvinnutengdra sjúkdóma verði meðal þess lægsta sem gerist.

Gildi

Frumkvæði, felst í því að leggja óumbeðið fram tillögur sem stuðla að  framförum og taka þátt í því að hrinda þeim í framkvæmd þegar við á.

Forvarnir, ráðstafanir til að koma í veg fyrir heilsutjón og draga úr afleiðingum atburða og aðstæðna sem gætu valdið heilsutjóni.

Fagmennska, felur í sér að verk séu unnin heiðarlega, á grundvelli fullnægjandi þekkingar og í samræmi við lög, reglur og viðurkennt verklag.

Markmið

1. Forvarnir gegn vinnuslysum

Meginmarkmið: Á tímabilinu lækki tíðni vinnuslysa marktækt m.v. meðaltal 2011 - 2013. Lagt er til grundvallar að koma megi í veg fyrir öll slys og að á þeirri forsendu verði unnið að slysavörnum á vinnustöðum og í starfi Vinnueftirlitsins.

2. Forvarnir gegn atvinnusjúkdómum og atvinnutengdum sjúkdómum

Meginmarkmið:  Skráning, greining og forvarnir verði með hliðstæðum hætti hér og í nágrannalöndunum. Lagt er til grundvallar að koma megi í veg fyrir vanheilsu vegna vinnu og að á þeirri forsendu verði unnið að forvörnum á vinnustöðum og í starfi Vinnueftirlitsins.

3. Forvarnastarf á vinnustöðum

Meginmarkmið: Meginhluti fyrirtækja (yfir 80%) með 10 starfsmenn eða fleiri verði með vinnuverndarstarf í samræmi við ákvæði laga og hafi gert fullnægjandi áhættumat og áætlun um heilsu og öryggi.

4. Þjónusta og stjórnsýsla

Meginmarkmið: Vinnueftirlitið veitir góða og lipra þjónustu.  Stjórnsýslu og samskiptum er hagað þannig að fyrirhöfn samskiptaaðila sé ekki meiri en þörf krefur.

5. Vinnueftirlitið sem vinnustaður

Meginmarkmið: Vinnueftirlitið sé góður vinnustaður sem laðar til sín hæfileikaríkt og áhugasamt starfsfólk og viðheldur starfsánægju þeirra sem fyrir eru.

6. Fjármál og rekstur

Meginmarkmið:  Að ná hámarksárangri innan þess fjárhagsramma sem stofnunin hefur, með hagkvæmni, skilvirkni og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.

7. Ferlar og starfsaðferðir

Megináhersla:  Vinnueftirlitið vinnur stöðugt að framþróun ferla og starfsaðferða með það að markmiði að ná sem bestum árangri.

Eftirfylgni og endurskoðun

Árlegar starfsáætlanir Vinnueftirlitsins verða byggðar á þeim stefnumiðum sem hér koma fram og þeim viðfangsefnum sem fram koma í aðgerðaáætlunum. Nánari forgangsröðun og tímasetning fer fram við þá áætlanagerð.

Komið verði upp matskerfi til að fylgjast með árangri og framvindu allra þátta stefnunnar og aðgerðaáætlana. Þróaðir verða töluvísar fyrir alla þætti þar sem unnt er að koma slíku við.

Í upphafi hvers árs verði farið yfir það á stjórnarfundi hvernig gengið hefur að ná markmiðum og hvernig forgangsröðun verði háttað.


Samþykkt á stjórnarfundi 9. mars 2015