Stefna

Stefna Vinnueftirlitsins - 2019 til 2023

Hlutverk Vinnueftirlitsins er að tryggja að allir komi heilir heim úr vinnu.

Framtíðarsýn

Hlutverk Vinnueftirlitsins er að tryggja að allir komi heilir heim úr vinnu. Við vitum að slysin gera boð á undan sér og það er hægt að hanna burt hætturnar. Skilvirk forgangsröðun aðfanga hefur gert okkur fært að halda úti öflugu eftirliti með vinnuumhverfi vinnustaða og með vinnuvélum og tækjum. Vinnueftirlitið stendur fyrir öflugu fræðslustarfi og ráðgjöf um allt sem snýr að vinnuvernd og er þekkt fyrir að vera bæði leiðandi og leiðbeinandi á þeim vettvangi. Rannsóknir og skráningar á vinnuslysum, á sviði atvinnusjúkdóma og atvinnutengdrar heilsu hafa beint athyglinni að þeim þáttum sem líklegastir eru til að skila árangri. Með áherslu á forvarnir og heilsueflingu höfum við lagt okkar á vogarskálarnar til að draga úr nýgengi örorku og efla framleiðni á innlendum vinnumarkaði.

Með öflugu véla- og fyrirtækjaeftirliti höfum við aukið öryggi og tryggt heilsu starfsmanna og annarra. Við höfum stuðlað að auknu öryggi við notkun vinnuvéla með fræðslu og þjálfun. Samvinna okkar og aðstoð við stjórnendur fyrirtækja hefur leitt til þess að þeir hafa tekið sífellt meiri ábyrgð á að bæta öryggismenningu og stuðla að góðu, öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi í daglegum rekstri vinnustaða sinna. Með því að beina kröftunum að þeim áskorunum sem hafa mest samfélagsleg áhrif hverju sinni og öflugu samstarfi við hagsmunaaðila höfum við náð að fyrirbyggja slys og sjúkdóma sem eiga sér rætur í starfsumhverfinu.

Vönduð fjármálastjórnun, skýr forgangsröðun, áætlanagerð og frávikagreining hefur tryggt getu til að ná hámarksárangri með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Stofnunin hefur ávallt starfað innan fjárheimilda. Vönduð ákvarðanataka um útgjöld ásamt skýrri upplýsingagjöf hafa aukið virðingu og traust á stofnuninni. Árangursríkri innleiðingu á lögum um opinber fjármál er lokið.

Með samhentu átaki hefur tekist að tryggja að öll tilkynningarskyld slys og skýrslur um atvinnusjúkdóma hafa skilað sér í viðkomandi skrá. Rannsóknir okkar á þeim gögnum hafa skilað sér hratt og örugglega til hagsmunaaðila þannig að hægt er að bregðast skjótt við breytingum í umhverfinu og nýjum aðstæðum. Starfsemin er gagnsæ og ávallt í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Upplýsingatæknin hefur verið nýtt á skilvirkan hátt til að auka gæði og áreiðanleika. Nýsköpun og umbætur eru kjarninn í okkar starfi og við höfum verið leiðandi í að benda á aðferðir, bæði nýjar og þrautreyndar, til að bæta öryggi og heilbrigði á vinnustöðum. 

Vinnustaðurinn okkar er til fyrirmyndar um allt sem snýr að vinnuvernd. Vinnustaðurinn er heilsueflandi og samskipti opin og heiðarleg. Stjórnendur og starfsfólk veita styrkjandi endurgjöf og stuðlað er að því að starfsfólk vaxi í starfi. Hjá Vinnueftirlitinu ríkir fullkomið jafnræði og tryggt hefur verið að allir njóta sín í starfi á jafnréttisgrundvelli. Allur aðbúnaður starfsfólks er eins og best verður á kosið og tryggt er að starfsfólk getur sinnt störfum sínum af fagmennsku.

Framtidarsyn2019(Smellið á töfluna til að sjá stærri útgáfu)

Gildi

Frumkvæði, felst í því að leggja óumbeðið fram tillögur sem stuðla að  framförum og taka þátt í því að hrinda þeim í framkvæmd þegar við á.

Forvarnir, ráðstafanir til að koma í veg fyrir heilsutjón og draga úr afleiðingum atburða og aðstæðna sem gætu valdið heilsutjóni.

Fagmennska, felur í sér að verk séu unnin heiðarlega, á grundvelli fullnægjandi þekkingar og í samræmi við lög, reglur og viðurkennt verklag.

Markmið / Áherslur

Efnislegar áherslur:

Efnislegar_aherslur


Vinnueftirlitið ætlar að koma í veg fyrir:

Forvarnir


Vinnueftirlitið ætlar að leggja áherslu á eftirfarandi starfsgreinar:

Aherslur


Áherslur Vinnueftirlitsins í fyrirtækjaeftirliti:

Aherslur_fyrirtaekjaeftirlits


Eftirfylgni og endurskoðun

Árlegar starfsáætlanir Vinnueftirlitsins verða byggðar á þeim stefnumiðum sem hér koma fram og þeim viðfangsefnum sem fram koma í aðgerðaáætlunum. Nánari forgangsröðun og tímasetning fer fram við þá áætlanagerð.

Komið verði upp matskerfi til að fylgjast með árangri og framvindu allra þátta stefnunnar og aðgerðaáætlana. Þróaðir verða töluvísar fyrir alla þætti þar sem unnt er að koma slíku við.

Í upphafi hvers árs verði farið yfir það á stjórnarfundi hvernig gengið hefur að ná markmiðum og hvernig forgangsröðun verði háttað.


Samþykkt á stjórnarfundi 11. apríl 2019