Fréttir
  • Hæfilegt álag - heilbrigt stoðkerfi

Vinnuverndarátaki Vinnuverndarstofnunar Evrópu um heilbrigt stoðkerfi hleypt af stokkunum

16.10.2020

Vinnueftirlitið mun næstu tvö árin leggja sérstaka áherslu á forvarnir gegn stoðkerfisvanda og taka þannig þátt í vinnuverndarátaki Vinnuverndarstofnunar Evrópu (EU-OSHA) „Vinnuvernd er allra hagur. Hæfilegt álag – heilbrigt stoðkerfi.“ Áherslan kemur til af því að stoðkerfisvandi er algengasta orsök fjarvista frá vinnu í Evrópu og er ein algengasta orsök örorku.

Átakinu var hleypt af stokkunum 12. október síðastliðinn og því lýkur í september 2022. Yfir 30 lönd taka þátt undir styrkri stjórn EU-OSHA með stuðningi samstarfsaðila frá hverju landi. Vinnueftirlitið er umsjónaraðili verkefnisins hér á landi og hefur sérstakur stýrihópur verið skipaður til að halda utan um það þar sem í eiga sæti fulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins, VIRK, félagsmálaráðuneytis og Vinnueftirlitsins.

Vinnutengd stoðkerfisvandamál hafa áhrif á starfsmenn á öllum aldri og í öllum gerðum starfa. Þau draga úr lífsgæðum og getu til að stunda vinnu og hafa þannig skaðleg áhrif á fyrirtæki og hagkerfi.

Starfsfólk með stoðkerfisvanda er að meðaltali lengur frá vinnu en það sem glímir ekki við slíkan vanda. Einn þriðji hluti starfsfólks með stoðkerfisvanda telur að hann muni ekki geta starfað til 60 ára aldurs.

Forvarnir gegn áhættuþáttum sem geta leitt til vinnutengds stoðkerfisvanda eru því mikilvægar til að stuðla að sjálfbærni vinnunnar, þannig að starfsmenn komi heilir heim eftir vinnudaginn og séu heilir heilsu í lok starfsævinnar. Slíkar forvarnir eru einkum mikilvægar með hliðsjón af hækkandi aldri starfandi fólks og stefnu um aukna atvinnuþátttöku meðal eldri aldurshópa.

Því er áríðandi að stuðla að aukinni vitund um mikilvægi þess að koma í veg fyrir vinnutengdan stoðkerfisvanda í tengslum við alla vinnu.

Liður í því er vefráðstefna sem verður haldin hér á Íslandi undir yfirskriftinni „Meira vinnur vit en strit. Vinnuvernd er allra hagur. Hæfilegt álag- heilbrigt stoðkerfi“ þann 19. nóvember næstkomandi frá 13-16. Ráðstefnunni verður streymt beint á vef Vinnueftirlitsins og upptöku verður hægt að nálgast þar eins og upptökur frá öðrum ráðstefnum stofnunarinnar. Nánari dagskrá verður auglýst síðar.

Áhættumat

Gögn til að framkvæma áhættumat er að finna hér á vefsíðu Vinnueftirlitsins og á vefsíðu Vinnuverndarstofnunar Evrópu, þar sem einnig er að finna frekari upplýsingar um átakið.

Fésbókin

Þá er minnt er á fésbókarsíðu Vinnueftirlitsins þar sem fréttir af átakinu munu birtast auk fróðleiksmola um líkamsbeitingu við vinnu sem eru liður í vinnuverndarátakinu og eru sendir út daglega fram að ráðstefnunni 19. nóvember.