Fréttir
  • Handþvottur

Vinnuvernd í umönnunarstörfum á tímum COVID-19

12.11.2020

Vinnueftirlitið minnir á mikilvægi þess að atvinnurekendum ber að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustöðum í samræmi við lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Huga þarf vel að vinnuumhverfi starfsfólks sem starfar við krefjandi aðstæður í umönnun ekki hvað síst nú á tímum COVID-19 faraldursins. Fyrirbyggja og lágmarka þarf þau öryggis- og heilbrigðisvandamál sem geta komið upp við umönnun einstaklinga í sóttkví eða einangrun. Ekki er síður mikilvægt að huga að andlegu álagi starfsfólks en líkamlegu álagi eða sóttvörnum. Reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum og reglur um húsnæði vinnustaða eru dæmi um nánari útfærslur á skyldum atvinnurekenda í þessu sambandi.

Vinnueftirlitið hvetur til þess að atvinnurekendur hafi lágan þröskuld varðandi það að grípa til ítrustu varúðarráðstafana til þess að tryggja öryggi starfsfólks, leiki grunur á smiti hvort sem um ræðir á heimilum skjólstæðinga eða á umönnunarstofnunum.

Gæta þarf að aðstöðu, líðan og aðbúnaði starfsfólks

Atvinnurekendum ber að huga sérstaklega að vinnuumhverfi starfsfólks sem sinnir einstaklingum í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19. Skipuleggja þarf störf og allan aðbúnað starfsfólks þannig að sérstaklega er gætt að sóttvörnum og auknu álagi á starfsfólk vegna faraldursins.

Útvega þarf starfsfólki viðeigandi hlífðarbúnað og aðstöðu til að sinna persónulegu hreinlæti, matast, hvílast og að hafa fataskipti.

Veita þarf starfsfólki fullnægjandi leiðbeiningar um aðbúnað og þá áhættu sem fylgir starfinu. Á það til dæmis við um almennt hreinlæti, handþvott, sprittun, hlífðarbúnað, aðstöðu til fataskipta, sturtuaðstöðu og aðgengi að vinnufatnaði og þvottaaðstöðu. Leiðbeiningar um handþvott, sprittun og notkun hlífðarbúnaðar er til dæmis að finna á www.covid.is og á vef landlæknis, www.landlaeknir.is.

Þar sem stúka þarf aðstöðuna af vegna COVID-19 eða notast við tímabundnar viðbætur við húsnæðið skal gæta þess að aðstaðan sé fullnægjandi og huga þarf sérstaklega að því að hún uppfylli kröfur um sóttvarnir. Gildir þetta hvort sem aðstaðan fyrir starfsfólk er varanleg eða tímabundin.

Þá þarf að huga sérstaklega að því að starfsfólk sem sinnir fólki í sóttkví og einangrun getur upplifað aukið álag, til dæmis vegna hættu á smiti og við að bera hlífðarbúnað við störf. Slíkur búnaður getur verið óþægilegur og hindrað eðlilegar hreyfingar, öndun og úthald. Því þarf að tryggja að vinnuskipulagið sé þannig að starfsfólk fái auka hvíldarpásur og geti hvílst í viðunandi rýmum á milli þess sem það sinnir skjólstæðingum sínum. Mikilvægt er að starfsfólk sé upplýst um þá áhættu sem getur fylgt störfum þeirra og fái góðar leiðbeiningar og hvatningu um að láta vita ef aukið álag eða áhyggjur gera vart við sig vegna starfsins eða aðstæðna.

Nauðsynlegt að áhættumeta störf sem verða fyrir áhrifum af COVID-19

Vinnueftirlitið minnir sömuleiðis á mikilvægi þess að atvinnurekendur sinni skyldum sínum skv. XI. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðar um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum að áhættumeta þau störf og verkþætti sem verða fyrir áhrifum af COVID-19 og framkvæma úrbætur samkvæmt áhættumatinu. Áhættumat þarf meðal annars að taka mið af því álagi sem óhjákvæmilega fylgir því að annast fólk vegna COVID-19.

 

Hjálpargögn og gagnvirkur COVID-19 gátlisti

Gagnlegar leiðbeiningar eru á vef Vinnueftirlitsins um gerð áhættumats og áætlunar um forvarnir auk þess sem á vef Vinnuverndarstofnunar Evrópu er að finna leiðbeiningar og gagnvirkan gátlista, svokallað OiRA COVID-19 tool, sem er meðal annars útfærður á ensku. Leiðbeiningarnar styðja atvinnurekendur og starfsfólk í því að finna leiðir til að viðhalda öryggi og heilsu í vinnuumhverfinu sem hefur breyst umtalsvert vegna COVID-19. Leiðbeiningarnar eru almennar ráðleggingar en þar sem aðstæðurnar eru mismunandi frá einu landi eða svæði til annars er mikilvægt að hafa tilmæli yfirvalda hérlendis til hliðsjónar við gerð og uppfærslu áhættumats vinnustaða hverju sinni.