Fréttir

Vinnuvernd í fjarvinnu

7.5.2020

Napó undirstrikar mikilvægi góðrar vinnuaðstöðu á heimilum

NapoFjarvinna hefur aukist til muna vegna COVID-19 faraldursins og þrátt fyrir að fleiri megi nú koma saman á vinnustað eftir fyrstu tilslökun á samkomubanni má gera ráð fyrir að margir séu enn að hluta til í heima- eða fjarvinnu. Þá kann að vera að fyrirtæki sem hafa tekið upp fjarvinnu íhugi að aðlaga hana að starfseminni í meira mæli hafi hún gefist vel.

Hvort heldur sem unnið er heima eða á vinnustað þarf að huga að vinnuvernd og aðbúnaði starfsmanna.

Meðfylgjandi myndband með teiknimyndapersónunni Napó undirstrikar á skýran hátt mikilvægi góðrar vinnuaðstöðu á heimilum. Ef fjarvinna á að vera hluti af vinnunni til frambúðar þurfa atvinnurekendur að styðja við það að starfsmenn geti komið sér upp góðri aðstöðu heima.

Myndböndin með Napó eru hnyttin og án orða. Tilgangurinn er að miðla mikilvægum skilaboðum á einfaldan og upplýsandi hátt án þess að menningarmunur eða tungumál hafi hindrandi áhrif. Myndböndin eru framleidd í samvinnu fjölda vinnuverndarstofnana en Vinnuverndarstofnun Evrópu, sem staðsett er í Bilbaó á Spáni, hefur fjármagnað þróun vefsíðunnar napofilm.net þar sem fleiri myndbönd er að finna.

Napó undirstrikar mikilvægi góðrar vinnuaðstöðu á heimilum