Fréttir

Vinnustaðir uppfæri áhættumat í samræmi við hertar sóttvarnarreglur

8.8.2020

Á meðan COVID-19 faraldurinn gengur yfir er ljóst að herða þarf eða slaka á sóttvarnaraðgerðum í takt við fjölda smita. Þann 15. júní síðastliðinn voru gerðar mestu tilslakanir á samkomubanni frá 13. mars, þegar smit vegna kórónuveirunnar fór fyrst að breiðast út innanlands. Frá miðjum júní, þegar ný smit höfðu verið í lágmarki í hálfan annan mánuð, voru fjöldatakmörk á samkomum hækkuð úr 200 í 500 manns og allar takmarkanir á gestafjölda sundlauga og líkamsræktarstöðva felldar úr gildi.

Hertar aðgerðir

Þann 31. júlí, eftir að innanlandssmit höfðu aukist á ný, voru aðgerðir innanlands og á landamærum hertar og koma þær til með að gilda til 13. ágúst næstkomandi, að óbreyttu. Á þessu tímabili takmarkast fjöldi sem kemur saman við 100 manns (börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin) og er fólki gert skylt að halda að minnsta kosti tveggja metra bili á milli einstaklinga sem koma saman, en að undanförnu hefur það verið valfrjálst. Þá er það nýmæli að þar sem ekki er unnt að trygga tveggja metra fjarlægð á milli ótengdra einstaklinga á að nota andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Þetta á helst við um áætlunarflug innanlands og milli landa og farþegaferjur. Sömuleiðis um starfsemi þar sem nálægð er mikil, til dæmis á hárgreiðslustofum og nuddstofum. Þó er ekki grímuskylda í Strætó á höfuðborgarsvæðinu, nema ef ferðin tekur meira en 30 mínútur, en mælt er með því að viðskiptavinir setji upp grímu ef vagninn er þétt setinn og erfitt er að halda tveggja metra fjarlægð. Einnig er mælt með grímunotkun fyrir fólk sem er í áhættuhópum.

Vinnustaðir þurfa að uppfæra áhættumat sitt

Brýnt er að vinnustaðir, opinberar byggingar, verslanir og þjónustufyrirtæki sem eru opin almenningi skipuleggji starfsemi sína í samræmi við ofangreint og tryggji að ekki séu fleiri en 100 einstaklingar í sama rými og að í minni rýmum séu ekki fleiri en svo að hægt sé að tryggja tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga. Vinnustaðir þurfa jafnframt að uppfæra áhættumat sitt í samræmi við hertar reglur .

Þá skulu verslanir, opinberar byggingar og þjónustufyrirtæki sem eru opin almenningi að tryggja aðgang að handsótthreinsi fyrir almenning og starfsmenn við innganga og í grennd við yfirborð sem margir snerta, svo sem snertiskjái og afgreiðslukassa. Jafnframt þarf að þrífa og sótthreinsa annað yfirborð sem margir snerta eins oft og unnt er og minna almenning og starfsmenn á einstaklingssóttvarnir með merkingum og skiltum.

Mikilvægt að grímunotkun sé rétt

Að svo stöddu er ekki gerð krafa um grímunotkun á almannafæri, nema þar sem ekki er unnt að trygga tveggja metra fjarlægð á milli ótengdra einstaklinga. Huga þarf að hreinlæti og hvernig grímur eru notaðar, þar sem rök og skítug gríma gerir ekkert gagn og getur aukið sýkingarhættu.

Kona með maskaGrímur á að snerta sem allra minnst, þær mengast mjög við notkun af eigin andardrætti og ef þær eru orðnar vel rakar verður að skipta um grímu. Notuð gríma á að fara í lokaðan ruslapoka og hreinsa þarf hendur vel (með þvotti eða sprittun) eftir alla snertingu við notaða grímu. Almennt er miðað við að nota grímu að hámarki í þrjár til fjórar klukkustundir en skipta fyrr ef hún er orðin rök.

Á vef RÚV er gagnleg frétt þar sem meðal annars er leiðbeint um rétta notkun á grímum.

Þá er vakin er athygli á nýlegum skýrslum frá Vinnuverndarstofnun Evrópu og Evrópusambandinu.

Önnur fjallar um líffræðilega skaðvalda og forvarnir gegn atvinnusjúkdómum, meðal annars í ljósi Covid-19 faraldursins:

Hin inniheldur leiðbeiningar frá ESB til að tryggja öryggi farandverkamanna og verja þá gegn hættu á að smitast af kórónuveirunni.

Eins má nálgast mikið af gagnlegum upplýsingum tengt vinnustöðum á covid.is