Fréttir

Vinnueftirlitinu heimilt að loka vinnustöðum sem ekki virða samkomubann

25.3.2020

Hert samkomubann sem tók gildi í gær 24. mars kveður á um að ekki megi fleiri en tuttugu manns koma saman í hverju rými og að halda þurfi tveggja metra fjarlægð frá næsta manni. Þessar reglur gilda á vinnustöðum landsins sem og annars staðar, að matvöruverslunum og lyfjaverslunum undanskildum að því gefnu að gætt sé að því að hafa 2 metra á milli manna.

COVID-19 er sjúkdómur sem er getur ógnað heilsu starfsfólks. Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið í samræmi við 12. gr. sóttvarnarlaga og að tillögu sóttvarnarlæknis, að takmarka samkomur vegna útbreiðslu COVID-19 í samfélaginu.

Nokkuð hefur borið á því að fyrirtæki óski eftir undanþágu frá þessum reglum og hefur Almannavörnum borist talsvert af tilkynningum um að þær séu virtar að vettugi. Langflestum undanþágubeiðnum er hafnað.

Vinnueftirlitið hefur heimildir til að loka vinnustöðum sem ekki virða hið nýja samkomubann.

Mikilvægt er að vinnustaðir virði hert samkomubann gagnvart starfsfólki sínu og hagi starfseminni þannig að ekki séu fleiri en 20 starfsmenn í sama rými.

Vakin er athygli á að bannið hefur verið sett á að vel ígrunduðu máli stjórnvalda hér á landi og því ber að taka alvarlega.

Ein af ástæðum þess að hert samkomubann var sett á, er að kórónuveiran hefur haft nokkur áhrif á starfsemi Landspítalans. Farið er í þessar aðgerðir til að varna því að veiran breiðist út. Nauðsynlegt er að hægja á faraldrinum enn frekar til að auka líkur á því að heilbrigðiskerfið geti sinnt þeim sem veikjast af COVID-19, ásamt því að sinna annarri bráðaþjónustu.

Vinnueftirlitið beinir því til vinnustaða að hlíta hertum reglum um samkomubann. Að öðrum kosti er litið svo á að þeir ógni öryggi og heilbrigði starfsmanna sinna.

Fari vinnustaðir ekki að fyrirmælum Vinnueftirlitsins getur stofnunin grípið til þvingunaraðgerða í formi lokunar vinnustaða eða þeim hluta þeirra sem um ræðir með vísun til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Vinnueftirlitið hvetur fólk til að leita sér nánari upplýsinga um samkomubannið á covid.is.