Fréttir

Vinnueftirlitið tekur þátt í samstarfi í tengslum við #METOO

12.6.2018

201806_metoo_fundurFulltrúar fimmtán samtaka, stofnana og félaga hafa ákveðið að hafa með sér samstarf til að fylgja eftir þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur í kjölfar #metoo byltingarinnar. Vinnueftirlitið telur mikilvægt að efla enn frekar forvarnir á vinnustöðum gagnvart áreitni, einelti og ofbeldi og fagnar því sérstaklega samstarfinu og munu starfsmenn VER taka virkan þátt í því.

Á fundinum sem haldinn var í húsakynnum ASÍ 11.júní var meðal annars rætt um til hvaða aðgerða hefur þegar verið gripið og möguleika til samstarfs varðandi næstu skref. Ákveðið var að forgangsraða aðgerðum og vinna að því að koma þeim til framkvæmda.
 
Áhersla verður lögð á samvinnu og úrbætur sem geta nýst sem flestum á vinnumarkaði, til dæmis með gerð fræðsluefnis og með því að vinna leiðbeiningar um hvernig bregðast eigi við áreitni og ofbeldi á vinnumarkaði.
 
Þeir sem taka þátt í samstarfinu eru Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bjarkarhlíð – miðstöð þolenda ofbeldis, BSRB, Félag kvenna í atvinnulífinu, Jafnréttisstofa, Kennarasamband Íslands, Kjara- og mannauðssýsla ríkisins, Kvenréttindafélag Íslands, Mannauður – félag mannauðsfólks, Samband Íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Sálfræðingafélag Íslands, Vinnueftirlit ríkisins og VIRK starfsendurhæfingarsjóður.

Vinnueftirlitið hefur lagt aukna áherslu á sálfélagslegt vinnuumhverfi undanfarin misseri og hefur sérhæfður starfsmaður í eftirliti verið ráðinn með það að markmiði að sinna málaflokknum auk þess sem VER hefur haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða með sérstaka áherslu á málaflokkinn. Hægt er að nálgast upplýsingar um gerð áhættumats á heimasíðu Vinnueftirlitsins og eru allir atvinnurekendur hvattir til þess að móta sér stefnu og viðbragðsáætlun gegn einelti og áreitni á vinnustað séu þær ekki nú þegar til staðar.  

Jóhann Fr. Friðriksson, fagstjóri Sálfélagslegra þátta hjá Vinnueftirlitinu