Fréttir

Vinna í lokuðu rými á háhitasvæðum

23.3.2018

Dreifibréf

Að gefnu tilefni vill Vinnueftirlitið koma á framfæri að lokuð rými á svæðum þar sem jarðhitavirkni er geta verið varasöm, þetta á t.d. við um íshella sem geta myndast í jökulsporðum þar sem heitt uppstreymi er undir.

Vinnueftirlitið hefur sent dreifibréf til aðila í ferðaþjónustu og annarra sem eru við vinnu á slíkum svæðum, þar sem farið er yfir helstu hættur sem um er að ræða.

Öryggi

Í jöklum á háhitasvæðum geta myndast hellar og holrúm. Ef þetta gerist í jökulsporði getur slíkur hellir verið aðgengilegur með auðveldum hætti. Frá háhitasvæðinu koma iðulega upp lofttegundir, margar hverjar eitraðar. Þessar lofttegundir safnast upp í svona rýmum og geta þannig valdið hættu, við slíkar aðstæður þarf því að gæta varúðar. Lofttegundirnar sem um ræðir eru einkennandi fyrir jarðhitavirkni, t.d. brennisteinsvetni (H2S), brennisteinsdíoxíð (SO2), koltvísýringur (CO2), o.fl.  Styrkur þessara lofttegunda getur verið mjög mismunandi milli svæða, eins geta hlutföllin verið mismunandi.

Gæta skal sérstakar varúðar ef farið er inn í „nýja“ hella, en auk hættu á eitrun vegna ofangreindra lofttegunda getur önnur hætta verið til staðar, eins og t.d. hætta á hruni.

Mælingar

Mikilvægt er, ef unnið er í slíkum rýmum, að vera með mæla sem mæla styrk þessara lofttegunda, helst mæla sem gefa frá sér hljóð ef mengun fer yfir mengunarmörk.

Bann við vinnu

Ef ekki er notaður viðeigandi öndunarbúnaður er bannað að vinna við þessar aðstæður, ef mengun fer yfir 15 mínútna viðveruhámark.

Dreifibréf um vinnu í lokuðu rými á háhitasvæðum