Fréttir

Vinna í hæð

4.8.2015

Á góðum sumardögum eru vinnuaðstæður hvaða bestar til að sinna viðgerðum og viðhaldi á þökum og öðrum hlutum mannvirkja sem eru í mikilli hæð.  Á árinu 2014 höfðu alls 85 einstaklingar ekki hafið starf aftur eftir slys við vinnu í hæð.

Þetta er alvarlegt og sorglegt því með viðeigandi grindverkum, línum, beltum og öðrum búnaði sem nota á við vinnu í hæð má koma í veg fyrir að slys verði á fólki þegar óhapp verður.

Á myndinni sést málari að störfum þar sem hann er að sprauta málningu á þak, en hefur í raun ekki aðrar fallvarnir en leiðsluna í málningarsprautunni. Hann er án efa kunnáttumaður í að mála en okkur sem er annt um heilsu fólks hefði þótt betra að sjá hann nota viðeigandi öryggisbúnað.

Reglur um vinnu sem þessa eru skýrar og hjálplegar en þær má finna í reglugerð um nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð.

En þar segir m.a.

31.3. Ef þak er hátt eða halli þess meiri en 34° (2 : 3) má einungis fela þeim einum að vinna á útköntum þaksins, sem vitað er, að til þess eru hæfir. Þegar vinna er framkvæmd við slíkar aðstæður skal koma fyrir nægjanlega traustu 0,6 m breiðu (mælt hornrétt frá þakinu) öryggisbretti við þakbrúnina, eða koma fyrir upp undir þakskegginu 0,4 m breiðum vinnupalli með 0,6 m háu hliðarbretti og nægilega vel festum þakvinnustigum.

31.4. Verði slíkum eða a.m.k. jafntryggum öryggisbúnaði ekki komið við skal hver  starfsmaður sem á þaki vinnur hafa öryggisbelti með lás í líflínu af viðurkenndri gerð. Líflínan skal fest á öruggan hátt í fastan hluta byggingarinnar.