Fréttir

Vinna barna og unglinga

11.6.2018

Í skrá Vinnueftirlitsins fyrir árin 2012-2017 kemur fram að vinnuslys meðal ungs fólks eru algeng en á þessu tímabili voru 435 vinnuslys tilkynnt hjá 18 ára og yngri. Vinnueftirlitið vill því vekja athygli á reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga en hún nær til vinnu einstaklinga undir 18 ára aldri. Vinnueftirlitið annast eftirlit með framangreindri reglugerð og að ákvæði hennar séu haldin.

Vinnuslys_2012-2017

Hvaða störf og hvenær?

Í reglugerð nr. 426/1999 er fjallað ítarlega um hvaða störf mismunandi hópar mega vinna og ekki vinna, þó sú upptalning sé ekki tæmandi. Vakin er athygli á að ungmenni undir 18 ára aldri mega ekki vinna með hættuleg tæki eða að hættulegum verkefnum, sbr. 10. gr. reglugerðarinnar og viðauka. Í reglugerðinni er einnig fjallað um áhættumat, leiðbeiningar og kennslu, vinnutíma, kvöld- og næturvinnu og hvíldartíma. Taka þarf tilliti til skóla þegar vinnutími er ákveðinn, sbr. neðangreinda töflu.

Almennar reglur Börn 13-14 ára Börn 15 ára í skyldunámi Unglingar 15-17 
Á starfstíma skóla 2 klst. á dag
12 klst. á viku
2 klst. á dag
12 klst. á viku
8 klst á dag
40 klst. á viku
Utan starfstíma skóla 7 klst. á dag
35 klst. á viku
8 klst. á dag
40 klst. á viku
8 klst á dag
40 klst. í viku
Vinna bönnuð Kl. 20-06 Kl. 20-06 Kl. 22-06
Hvíld 14 klst. á sólarhring
2 dagar í viku
14 klst. á sólarhring
2 dagar í viku
12 klst. á sólarhring
2 dagar í viku

Vinna barna yngri en 13 ára

Þó vinna barna undir 13 ára aldri sé almennt ekki heimil, þá má ráða þennan aldurshóp til að taka þátt í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Afla skal leyfis frá Vinnueftirliti ríkisins áður en til ráðningar kemur vegna vinnu barna yngri en 13 ára. Leyfisins er aflað með því að fylla út og skila inn „umsókn um leyfi vegna vinnu barns yngra en 13 ára“.

Sérstakt áhættumat

Samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar er atvinnurekanda skylt að gera áhættumat og viðeigandi ráðstafanir byggðar á niðurstöðum matsins til að tryggja öryggi og heilsu ungmenna. Þetta skal gert áður en þau hefja störf og í hvert sinn sem verulegar breytingar eru gerðar á starfsskilyrðum þeirra. Vinnueftirlitið beinir því til forráðamanna að slíkt áhættumat verði gert nú þegar, liggi það ekki fyrir.

Leiðbeiningar um áhættumat er að finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins.