Fréttir

Vinna á svæðum þar sem hætta er á mengun vegna jarðhitavirkni

16.3.2018

Vegna alvarlegra vinnuslysa sem tengjast háhitasvæðum.

Vinnueftirlitið vill vekja athygli á því að öll fyrirtæki, þ.m.t ferðaþjónustufyrirtæki sem starfa á svæðum þar sem hætta er á mengun vegna jarðhitavirkni skulu gera viðeigandi áhættumat og viðbragðsáætlanir í samræmi við reglugerð nr. 920/2006 .

Lykilatriði er að allir starfsmenn þekki áhættumatið, viðbragðsáætlanir og noti viðeigandi persónuhlífar ef öðrum verndaraðgerðum verður ekki við komið. Einnig er fyrirtækjum bent á að fylgjast með og fara eftir upplýsingum almannavarna við gerð áhættumats og viðbragðsáætlana.

Hættulegar lofttegundir vegna jarðhitavirkni

Starfsmenn sem vinna við mælingar, athuganir, leiðsögumennsku eða önnur störf nálægt jarðhitavirkni þurfa að gera viðeigandi varúðarráðstafanir vegna hættu frá eitruðum og hættulegum lofttegundum.

Mesta hættan skapast af lofttegundum sem eru þyngri en andrúmsloftið og geta því borist með jörðu og myndað dauðagildrur í dældum og gjótum.

Dæmi um slíkar lofttegundir eru brennisteinsvetni (H2S, vetnissúlfíð), brennisteinstvíildi (SO2) og koltvísýringur (CO2).

Einnig skal gæta sérstakrar varúðar ef farið er inn í lokuð rými þar sem jarðhitavirkni er til staðar eins og t.d. hella og íshella sem geta myndast í jökulsporðum við tiltekin skilyrði. Í þessum tilvikum þarf sérstaklega að varast brennisteinsvetni (H2S, vetnissúlfíð), brennisteinstvíildi (SO2), koltvísýring (CO2), og koleinsýring (CO, kolsýrlingur).

Nauðsynlegt er að mæla styrk lofttegunda í lokuðum rýmum. Ef hægt er að koma því við skal nota einstaklingsborna gasmæla sem gefa frá sér viðvörunarhljóð ef styrkurinn nálgast hættumörk. Lágmarkskröfur til slíkra mæla er að þeir  mæli brennisteinsvetni (H2S), brennisteinstvíildi (SO2), súrefni (O2) og koleinsýring (CO).

Ef notast er við gasgrímur með gassíu skulu þær a.m.k. verja fyrir lofttegundunum SO2  og H2S og helst öllum skaðlegum lofttegundum sem finnast í rýminu.

Varast ber að treysta um of á öndunargrímur með gassíum þar sem um margar tegundir lofttegunda er yfirleitt að ræða og síurnar geta mettast fljótt.

Ef ekki eru notaðar ferskloftsgrímur eða síað loft aðflutt með loftdælum, skal ekki unnið með öndunargrímur lengur en þrjár klukkustundir á dag og skal sá tími ekki vera samfelldur, sjá reglugerð nr. 390/2009 .


Vinnueftirlitið vill árétta að vinna er bönnuð í lokuðu rými án öndunargrímu ef mengun fer yfir 15 mínútna viðmiðunnargildi fyrir tiltekna lofttegund, athuga þarf styrk súrefnis sérstaklega.

Mengunarmörk

Mengunarmörk eru hæsta leyfilega meðaltalsmengun í andrúmslofti starfsmanna, gefið upp fyrir 8 klst. og einnig fyrir 15 mínútna viðveru. Mengunarmörk eru gefin í ppm (parts per million, milljónustu hlutum rúmmáls, 10.000 ppm er jafngilt 1%) en einnig er miðað við milligrömm efnis í hverjum rúmmetra af lofti.

1 mg (milligramm) = 1000 µg (míkrógrömm)


Sjá reglugerð nr. 390/2009 um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum og breytingareglugerð nr. 1296/2012 .

Áhrif nokkurra lofttegunda og mengunarmörk þeirra


BRENNISTEINSVETNI (H2S):

8 klst mengunarmörk eru 5 ppm (7 mg/m3). 15 mínútna mengunarmörk eru 10 ppm (14 mg/m3)

Eitruð, eldfim lofttegund með sterkri óþægilegri lykt (hveralykt, lykt eins og af fúleggi), heldur þyngri en loft. Við háan styrk (um 120 ppm) dofnar lyktarskynið eða hverfur.

Innöndun veldur sviða í nefi og koki, hósta, höfuðverk, svima, vanlíðan og uppsölu. Lungnabólga og vökvamyndun í lungum (lungnabjúgur) geta komið fram seinna. Hár styrkur í lofti veldur fljótt meðvitundarleysi. Getur það leitt til þess að hinn slasaði falli sjórnlaust og hætta sé á t.d. höfuðáverka. Ef styrkurinn er mjög hár er einnig hætta á krampa, öndunarlömun, varanlegum taugaskemmdum og dauða.

 • Við 20-50 ppm má reikna með ógleði og lyktarskyn slævist.
 • Við 100-200 ppm er bráðahættuástand þá hverfur lyktarskyn og erting öndunarfæra vex.
 • Við 250-500 ppm verða menn sljóir. Meðvitundarleysi verður við 500 ppm.
 • Við 1.000 ppm verður öndunarlömun og dauði.


BRENNISTEINSTVÍILDI (SO2 , brennisteinsdíoxíð):

Mengunarmörkin eru 0,5 ppm (1,3 mg/m3= 1.300 µg/m3) fyrir 8 klst. en 1 ppm (2,6 mg/m3 = 2.600 µg/m3) fyrir 15 mín.

 • Brennisteinstvíildi er litlaus lofttegund með stingandi lykt.
 • Innöndun getur valdið sviða í nefi, munni, tárum, hósta og öndunarerfiðleikum. Ef styrkur er mikill er hætt við vökvamyndun í lungum (lungnabjúg) sem getur komið fram að fáum tímum liðnum eða allt að tveim sólahringum.
 • Brennisteinstvíildi er yfir tvisvar sinnum þyngra en loft, getur borist með jörðu áður en það blandast lofti að fullu.
 • Brennisteinstvíildi myndar með raka brennisteinssýru og -sýrling.


KOLTVÍSÝRINGUR (CO2 , koldíoxíð):

Mengunarmörkin eru 5.000 ppm (9.000 mg/m3) fyrir 8 klst. en 10.000 ppm (18.000 mg/m3) fyrir 15 mín.

 • Koltvísýringur er litlaus lofttegund með veikri stingandi lykt við háan styrk.
 • Koltvísýringur er 1,5 sinnum þyngri en loft og getur borist með jörðu.
 • Koltvísýringur í miklu magni lækkar súrefnisinnihald lofts og getur valdið truflun á öndun, sem getur valdið meðvitundarleysi og dauða.


KOLEINSÝRINGUR (CO, kolmónoxíð):

Mengunarmörkin eru 20 ppm (23 mg/m3) fyrir 8 klst., en 100 ppm (117 mg/m3) fyrir 15 mín.

 • Koleinsýringur er lit- og lyktarlaus lofttegund, álíka þung og loft.
 • Koleinsýringseitrun getur komið fram við lágan styrk án þess að lykt finnist. Innöndun getur valdið höfuðverk, svima, ógleði og ef magnið er mikið, uppköstum, andþyngslum, hjartsláttartruflunum og meðvitundarleysi.
 • CO veldur við 800 ppm sljóleika, verkjum og dofa.
 • CO veldur við 1.600 ppm dauða innan 2ja klst.