Fréttir
  • Umhyggja

Viðbúnaður vinnuveitenda vegna jarðskjálfta

24.2.2021

Vinnueftirlitið hvetur vinnuveitendur til að huga vel að öryggi starfsfólks nú þegar jarðskjálftahrina gengur yfir. Gæta þarf bæði að líkamlegu öryggi fólks en ekki síður sálfélagslegu öryggi þess.

Mikilvægt er að farið sé vel yfir hluti sem geta fallið niður á starfsfólk og gæta þess að þyngri hlutir eins og skápar og hillur séu vel fastir í gólf eða veggi. Vísar Vinnueftirlitið nánar til leiðbeininga almannavarna í þessu sambandi en þær eiga jafnt við á vinnustöðum sem og á heimilum fólks.

Á vinnustöðum, og þá ekki hvað síst á byggingavinnustöðum, er sérstaklega mikilvægt að huga að hættu af fallandi munum og byggingahlutum. Sem dæmi má nefna að venjulegur hamar margfaldast í þyngd þegar hann fellur niður um nokkrar hæðir. Mikilvægt er að hafa þetta ávallt hugfast þegar hlutir eru lagðir frá sér og þá ekki hvað síst þegar jarðskjálftahrina gengur yfir.

Ekki er síður mikilvægt að gæta að andlegri líðan starfsfólks á vinnustöðum og hafa hugfast að starfsfólk getur upplifað hlutina með misjöfnum hætti. Mikilvægt er að stjórnendur sýni umhyggju fyrir velferð starfsfólksins við aðstæður sem þessar og geri ráð fyrir að ekki séu allir að upplifa þær með sama hætti. Stjórnendur ættu að hlusta vel eftir röddum starfsfólksins með það að markmiði að mæta þörfum þess eins og unnt er miðað við aðstæður. Áhyggjur starfsfólks geta verið af ólíkum toga og ljóst er að fólk hefur misjafnlega mikla reynslu af jarðskjálftum. Sumir hafa jafnvel aldrei upplifað þá. Gæta þarf að því að gera ekki lítið úr vanlíðan eða upplifun einstaklinga þar sem viðbrögð geta verið svo mismunandi hjá fólki.